London. AFP. | Fjölmiðlar í Bretlandi hafa birt margar kannanir á því hvernig Bretar ætla að kjósa í þjóðaratkvæðinu 23. júní um aðildina að Evrópusambandinu en niðurstöður þeirra hafa verið mjög misvísandi. Í könnun YouGov, sem var birt 4.

London. AFP. | Fjölmiðlar í Bretlandi hafa birt margar kannanir á því hvernig Bretar ætla að kjósa í þjóðaratkvæðinu 23. júní um aðildina að Evrópusambandinu en niðurstöður þeirra hafa verið mjög misvísandi.

Í könnun YouGov, sem var birt 4. febrúar, sögðust 45% vilja að Bretland gengi úr ESB en 36% sögðust vera hlynnt aðildinni. Tæpum tveimur vikum síðar voru 54% sögð hlynnt aðild að ESB en 36% vilja úrsögn í könnun sem Ipsos MORI gerði.

YouGov gerði aðra könnun í vikunni eftir að David Cameron forsætisráðherra náði samkomulagi við leiðtoga annarra aðildarríkja ESB í viðræðum um kröfur hans um breytingar á tengslum Bretlands við sambandið. 37% sögðust þá vera hlynnt aðildinni en 38% vildu úrsögn úr ESB.

„Þetta ruglar menn í ríminu,“ sagði Adam Drummond, sem stjórnar könnunum fyrirtækisins Opinium, en það hefur gert kannanir á netinu á viðhorfum Breta til ESB. Hann og fleiri sérfræðingar á þessu sviði segja að munur sé á niðurstöðum slíkra kannana eftir því hvort þátttakendurnir svara spurningunum á netinu eða í síma. Stuðningurinn við úrsögn mælist oft meiri í netkönnunum en í símakönnunum og í þeim síðarnefndu séu stuðningsmenn aðildar að ESB oft um 15 prósentustigum fleiri en andstæðingarnir.

Telja meðaltal margra kannana nákvæmast

Matthew Goodwin, sérfræðingur við Kent-háskóla, segir að svo virðist sem kjósendur virðist vera tregari til að segja að þeir styðji úrsögn úr ESB þegar þeir svari spurningunni í síma. „Það er miklu auðveldara að gera það í tölvunni,“ segir hann.

Sérfræðingar YouGove segja að kjósendur sem eru spurðir í síma séu líklegri til að segjast styðja óbreytt ástand frekar en breytingu.

Þeir telja líklegt að kannanir, sem byggjast á því að finna meðaltal niðurstaðna í mörgum könnunum, gefi bestu vísbendinguna um stuðninginn við úrsögn. Í einni slíkri könnun What UK Thinks var niðurstaðan sú að 55% styddu aðild en 45% úrsögn.