Steinunn Yngvadóttir fæddist á Húsavík 1. nóvember 1945. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu 19. febrúar 2016.

Foreldrar hennar voru Ingvi Karl Jónsson, f. 16. mars 1920, látinn 2. maí 1998, og Guðbjörg Jónsdóttir, f. 25. nóvember 1922, látin 12. september 2002.

Alsystkini eru Margrét Inga, f. 1944, d. 1944, Elínborg, f. 1948, d. 2003.

Sammæðra: Hermundur Svansson, fæddur 1952, Jón Tómas Svansson, fæddur 1958.

Samfeðra: Jón Norbert, fæddur 1952, Georg Bergmann, fæddur 1953, Reynir Baldur, fæddur 1955, Ingvi Carles Ingvason, fæddur 1956, látinn 1999.

Steinunn hóf búskap 1963 með Kristjáni Gísla Kristjánssyni sjómanni, fæddur 13. júní 1941, látinn 19. júní 2008.

Foreldrar Kristjáns Gísla voru Kristján Ágústsson og Kristbjörg Guðmundsdóttir.

Börn Steinunnar og Kristjáns Gísla eru: 1) Kristbjörg Steinunn, fædd 11. október 1963, gift Bjarna Ragnarssyni, fæddur 11. janúar 1954, og eiga þau synina Gísla Ragnar, f. 23. febrúar 1987, og Sverri Tómas, f. 16. september 1991. Bjarni á dótturina Melissu Katrínu, f. 23. desember 1975. 2) Kristján Jón, fæddur 14. apríl 1971. 3) Magnús Tómas, fæddur 4. júlí 1976, kvæntur Margréti Berglindi Einarsdóttur, fædd 18. febrúar 1976. Þau eiga börnin Gísla Þór, f. 8. júní 2008, og Írisi Lilju, f. 16. janúar 2010.

Steinunn fluttist frá foreldrum sínum sex ára gömul á Hofsós til ömmu sinnar og afa, Steinunnar Jónsdóttur og Jóns Tómassonar, og ólst upp hjá þeim á Hofsósi. Á Hofsósi kynntist hún manni sínum og hófu þau búskap 1963. Steinunn hefur unnið ýmis störf sem hafa fallið til í gegnum tíðina, t.d. við fiskvinnu, á saumastofu, sem húsvörður, en lengst af vann hún við að matreiða í mötuneytum.

Útför Steinunnar fer fram frá Hofsóskirkju í dag, 27. febrúar 2016, klukkan 11.

Sæl, Steina mín, þetta er Svandís. Já, sæl og blessuð, ertu á leiðinni? Samtölin okkar Steinu hófust iðulega á þessum orðum og svo gátum við spjallað góða stund um allt og ekki neitt eins og gengur.

Leiðir okkar Steinu lágu saman fljótlega eftir að ég flutti norður á Hofsós fyrir um 30 árum síðan, tiltölulega nýsest að þegar nafn Steinu Yngva bar á góma, því allir þekktu Steinu Yngva. Það var verulega notalegt að geta kíkt við á Kárastígnum eftir amstur dagsins, fengið sér smók, spjallað og drukkið kaffi, hvað þá kúmenkaffi. Já, það er það langt um liðið að allir reyktu inni og þeir bræður, Maggi og Kristján urðu að þola okkur, kellum, sem settumst í eldhúskrókinn, ýmislegt. Hvorki kennaranum né skólastjóranum datt í hug að eitthvað væri athugavert við þetta háttalag.

Ég leitaði gjarnan til Steinu þegar ég þurfti á liðsinni að halda. Steina var innsti koppur í búri í félagsheimilinu í mörg ár, rak um tíma mötuneytið fyrir skólann líka og varð líklega einn fyrsti stuðningsfulltrúinn löngu áður en sú starfsstétt var fundin upp og hvað þá hugtakið skóli án aðgreiningar. Á Hofsósi var alla tíð starfað eftir þeirri hugmyndafræði að skólinn væri fyrir alla og við gerðum það sem gera þurfti til þess að svo mætti verða. Steina fékk einn veturinn allsnúið verkefni hjá mér en sinnti því af stakri snilld og náði góðu sambandi við þann unga dreng, sem ábyggilega þakkar henni þau samskipti í dag. Þá gat ég platað hana í nokkra vetur í félagsstörf með nemendum, m.a. taumálun, en Steinu var ýmislegt til lista lagt. Hún var alltaf með handavinnu og oftar en ekki fjöldamörg og fjölbreytt verkefni í gangi í einu. Ég sá mér því leik á borði og hún sló til. Hún sagði mér síðar að henni hefði nú alls ekkert litist á þessa beiðni mína og taldi sig ekkert erindi eiga upp í skóla til að leiðbeina krökkunum. Sjálfsmatið var e.t.v. ekki ýkja hátt, en Steina var ekki vön því að neita beiðnum. Verkefnið leysti hún vel af hendi eins og öll önnur, krakkarnir ánægðir og hún varð líka ánægð og sátt með sig áður en yfir lauk, enda full ástæða til.
Við Steina héldum alltaf góðu sambandi eftir að ég flutti suður og eftir að þau Gísli fluttu frá Hofsósi. Ég man eftir ógleymanlegri ferð með þeim og strákunum á Hornstrandir, þegar þau Gísli bjuggu á Suðureyri. Gísli sigldi með drekkhlaðinn bátinn sinn af fólki, en þó aðallega farangri, já, og vatni, sem líklega hefði dugað til vetursetu í Hornvík, Steina sá fyrir því. Þvílík forréttindi að hafa fengið að sigla með skipstjóra á eigin fleyi inn í þessa náttúruparadís, með Steinu sinni og strákunum.
Þau Gísli unnu vel saman og víluðu ekkert fyrir sér þegar kom að vinnu. Þau tóku m.a. að sér erfiða ráðsmennsku með matseld, öllum aðdráttum og öðru tilfallandi á meðferðarheimilinu í Krýsuvík í nokkur ár, allt meðan stætt var. Það var hrein unun að fylgjast með þeim í samskiptum við heimilismenn, hvort heldur voru íslenskir eða sænskir, og oft þurfti að taka erfiðar ákvarðanir. Það veit ég að þau hafa með sínu æðruleysi, vinnusemi og einlægum samskiptum kennt mörgum heimilismanninum talsvert umfram það sem hægt var að læra í hefðbundnu meðferðarprógrammi. Það fékk ég staðfest þegar ég leysti þau af í einu af fáum fríum sem þau tóku sér frá erli dagsins. Heimilisfólkið í Krýsuvík talaði einstaklega vel um þau hjónin og það fór ekkert á milli mála hvað þau skipuðu stóran sess í daglegu lífi þeirra og bataferli.
Já, Steina vinkona mín hefur ýmsa fjöruna sopið eins og sagt er. Þvílíkur klettur sem hún var í veikindum Gísla og átti, án nokkurs vafa, stóran þátt í þeim bata sem honum tókst að ná. Steina var orðin lúin, farin að tapa svolítið áttum og saknaði Gísla. Í hennar huga voru þau ýmislegt farin að bardúsa saman á ný enda voru þau hjón bæði samstillt og samrýmd með eindæmum. Sem betur fer þurfti hún ekki að bíða lengi og Gísli kom eftir henni, siglandi á eigin fleyi, og flutti hana með sér yfir móðuna miklu eins og á Hornstrandir forðum.
Elsku Kidda, Maggi, Kristján og fjölskyldan öll, mínar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar, þið eruð heppin að eiga hvert annað að.
Hjartans þakkir, elsku Steina mín, fyrir allt spjallið, kúmenkaffið og aðrar trakteringar í gegnum tíðina

Þín vinkona,

Svandís.