Liðin er öld 12. mars 2016 frá stofnun Alþýðuflokksins. Hann átti að verða systurflokkur norrænu jafnaðarmannaflokkanna. En hvernig stendur á því, að vinstrihreyfingin varð miklu minni hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum?

Liðin er öld 12. mars 2016 frá stofnun Alþýðuflokksins. Hann átti að verða systurflokkur norrænu jafnaðarmannaflokkanna. En hvernig stendur á því, að vinstrihreyfingin varð miklu minni hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum? Og hvers vegna töpuðu jafnaðarmenn baráttunni við kommúnista og urðu minni flokkur?

Eitt svarið við fyrri spurningunni liggur eflaust í því að myndun þéttbýlis og verkalýðsstéttar varð hér síðar en á öðrum löndum á Norðurlöndum. Annað hugsanlegt svar er að jafnaðarmenn áttu örðugt með að laga alþjóðahyggju sína að hinni sterku og almennu þjóðerniskennd, sem spratt upp úr sjálfstæðisbaráttunni við Dani.

Seinni spurningunni hefur oft verið svarað með því að kommúnistar hafi átt öflugri forystusveit en jafnaðarmenn. En er það rétt? Brynjólfur Bjarnason, Einar Olgeirsson og Kristinn E. Andrésson voru síst frambærilegri stjórnmálamenn en Jón Baldvinsson, Stefán Jóhann Stefánsson, Haraldur Guðmundsson og Emil Jónsson. En ef til vill hefur íslenskum verkalýð lítt fundist til um, að leiðtogar jafnaðarmanna hreiðruðu allir um sig í feitum stöðum: Jón var bankastjóri Útvegsbankans, Stefán Jóhann forstjóri Brunabótafélagsins, Haraldur forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, Emil vita- og hafnamálastjóri. (Allir núlifandi formenn Alþýðuflokksins gengu síðan í utanríkisþjónustuna, þegar þeir hættu afskiptum af stjórnmálum.)

Annað kann að hafa ráðið úrslitum. Þótt Alþýðuflokkurinn fengi vissulega um skeið nokkurn fjárstuðning frá norrænum systurflokkum, þáðu kommúnistar miklu meiri stuðning frá Moskvu, eins og sést á stórhýsum þeirra í Reykjavík: Tjarnargata 20, Þingholtsstræti 27, Laugavegur 18, Skólavörðustígur 19. Það munar um minna í fámennu landi.

Vinstrihreyfingin á Íslandi er ef til vill líkari hinni finnsku að gerð en hinni norrænu. Þar eins og hér störfuðu kommúnistar í bandalagi við vinstri jafnaðarmenn. Finnland og Ísland voru ný ríki og siðir því ekki fastmótaðir, auk þess sem íbúar voru lengi fram eftir talsvert fátækari en Svíar, Danir og Norðmenn. Því varð jarðvegur frjósamari fyrir byltingarflokk.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is