15. október 1994 | Fastir þættir | 597 orð

Matur og matgerð SVIÐ OG SVIÐAPATÉ

Matur og matgerð SVIÐ OG SVIÐAPATÉ Nú er sláturtíð í algleymingi ­ og þó. Getur hún ekki bara verið allt árið þegar farið er að selja fryst slátur? Í þessum þætti býður Kristín Gestsdóttir okkur sviðapaté auk sviða á hefðbundinn hátt.

Matur og matgerð SVIÐ OG SVIÐAPATÉ

Nú er sláturtíð í algleymingi ­ og þó. Getur hún ekki bara verið allt árið þegar farið er að selja fryst slátur? Í þessum þætti býður Kristín Gestsdóttir okkur sviðapaté auk sviða á hefðbundinn hátt.

Sláturgerð í dag er mun auðveldari en hún var hér áður fyrr þegar vambir komu óhreinsaðar, notaður var mör af ristlum og hausarnir komu óklipptir og ósviðnir. En þrátt fyrir mikla hagræðingu er fyrirferð hausanna jafnmikil og þeir taka alltof mikið pláss í frystikistunni og þola auk þess ekki mjög langa geymslu. Ég hef brugðið á það ráð að halda "sviðamessu" í sláturtíðinni. Þá er bæði boðið upp á svið eins og þau koma fyrir og sviðapaté, sem er réttur sem ég fann upp fyrir nokkrum árum, þegar börn og barnabörn vildu ekki borða svið. Það er nú svo í minni fjölskyldu að það eru einkum kvenfólkið, stórt og smátt, sem ekki borðar svið, en karlmennirnir og ömmustrákarnir tveir borða svið með bestu lyst. Það er af sem áður var, þegar svið voru það besta sem Íslendingar fengu. Líklega finnst mörgum sviðapaté ekki mjög þjóðlegur réttur, og kannski vilja sumir kalla þetta sviðakæfu, en í mínum huga er kæfa allt annað en paté, og ég held mig við orðið sviðapaté.

Matarvenjur okkar Íslendinga hafa breyst mikið hin síðari ár og þótt mín fjölskylda borði sviðapaté, er hún ekki enn farin að borða "sviðapizzu". Kannski það sé leið til að koma sviðum í börnin.

Soðin svið

3 sviðahausar

7 lítrar vatn

7 msk. gróft salt

1. Leggið sviðin í bleyti í kalt saltvatn í 4­6 klst. Burstið þau síðan vel með grófum bursta.

2. Fjarlægið heilann, þvoið síðan sviðin vel, sérstaklega upp með tungunni. Skerið eyrun af.

3. Hitið vatn og salt. Vatnið þarf að vera brimsalt til þess að sviðin verði góð og það þarf að vera það mikið að sviðin séu á kafi. Notið meira saltvatn ef með þarf.

4. Raðið hausunum ofan í sjóðandi vatnið. Leggið kjammana saman og reynið að láta hausana liggja þétt saman. Sjóðið við hægan hita í 1 klst.

Meðlæti: Kartöflujafningur og rófustappa.

Sviðapaté

2 stórir sviðahausar

brimsalt vatn til að sjóða hausana í

2 msk. smjör

2 msk. hveiti

4 dl mjólk

tsk. salt

tsk. pipar

mikið af ferskri steinselju

4 egg

1. Hreinsið og sjóðið sviðahausana, sjá hér að ofan. Gott er að sjóða hausana legnur en þar segir eða í 2 klst. Takið allt kjöt af sviðunum meðan þau eru heit. Setjið síðan í kvörn (matvinnsluvél) og tætið í sundur.

2. Setjið smjör í pott og bræðið, hrærið hveiti út í, þynnið síðan með mjólkinni og búið til þykkan jafning.

3. Setjið salt og pipar út í. Klippið steinseljuna fínt og setjið saman við. Notið ekki leggi. Kælið örlítið og setjið eggin út í. Setjið sviðin saman við jafninginn og blandið vel saman.

4. Smyrjið aflangt, stórt jólakökuform, álform eða patéform. Setjið soppuna í það.

5. Hitið bakaraofn í 190C, blástursofn í 180C, setjið mótið í ofninn og bakið í 60­70 mínútur. Þetta má líka baka í vatnsbaði og þá heldur lengur.

6. Stingið hníf í miðju patésins til að aðgæta, hvort allt er hlaupið saman. Látið kólna í mótinu í 15­20 mínútur, skerið þá niður með og hvolfið á fat. Kælið.

Meðlætið: Rófustappa og kartöflujafningur.

Athugið: Þetta má baka í örbylgjuofni og hafa meðalhita. Þá verður hver og einn að fylgjast með hvað tímann varðar. Þar skipta magn, ílát og styrkleiki ofnsins máli. Íslensku álformin má setja í örbylgjuofn.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.