Skömmu eftir bankahrunið 2008 leiddi bandaríski hagfræðingurinn Anne Sibert rök að því, að Ísland væri of lítið til að vera sjálfstætt. Óvíst væri, að smáríki væru að meðaltali auðugri en stærri ríki.

Skömmu eftir bankahrunið 2008 leiddi bandaríski hagfræðingurinn Anne Sibert rök að því, að Ísland væri of lítið til að vera sjálfstætt. Óvíst væri, að smáríki væru að meðaltali auðugri en stærri ríki. Hins vegar væru smáríki áreiðanlega næmari fyrir efnahagsáföllum. Hagsveiflur væru þar iðulega krappari, eins og dæmi Íslands hefði sýnt. Smæðin væri líka kostnaðarsöm: Fastur kostnaður af framleiðslu samgæða (eins og löggæslu og skólagöngu) dreifðist á miklu færri; erfiðara væri að leggja á tekjuskatt, sem væri miklu hagkvæmari en til dæmis tollar; óveruleg samkeppni væri um framleiðslu gæða, sem ekki væru seld á frjálsum markaði. Enn fremur væru smáríki viðkvæmari fyrir náttúrlegum áföllum en stærri ríki. Loks taldi Sibert, að smáríki ættu líklega ekki kost á nógu mörgu hæfu fólki í stjórnsýslu.

En er stærðin alltaf hagkvæm? Jafnan er rætt um tvenns konar stærðarhagkvæmni, markaða og eininga. Því stærri sem markaður er, því fjörugri verður samkeppni, eins og Adam Smith benti á. Í litlu ríki má hins vegar ná slíkri hagkvæmni með frjálsum utanríkisviðskiptum. Sú er skýringin á því, að lítil þróuð hagkerfi eru að jafnaði auðugri en stór hagkerfi: Þau eru opin og þess vegna hagkvæm. (Öðru máli kann að gegna um lítil vanþróuð hagkerfi.) Litlu ríkin utan Evrópusambandsins – Sviss, Noregur, Ísland og Liechtenstein – eru miklu auðugri en ríkin innan þess. Það er rétt, að sum lítil hagkerfi eru næmari fyrir skakkaföllum en hin stærri, til dæmis Ísland, en þau eru líka oft fljótari að jafna sig, því að þau eru aðlögunarhæfari, til dæmis Ísland.

Hin tegund stærðarhagkvæmni snýst um einingar. Því stærri sem eining er, því lægri verði fastur kostnaður á hverja einingu. Þetta er stundum rétt, en ekki alltaf. Einingar geta orðið of stórar. Þá verða þær flóknar í rekstri, og stjórnendur missa yfirsýn. Smæðarhagkvæmni er líka til. Tækniframfarir síðustu alda hafa iðulega verið í átt til minni eininga. Bílar leystu járnbrautir af hólmi: Nú gat hver maður ekið sinni „járnbraut“. Þessi þróun varð hraðari með Netinu. Nú getur hver maður rekið eigin ferðaskrifstofu og pósthús frá fartölvu. Og með airbnb og Uber getur hver maður rekið eigið gistihús og eigin leigubíl á Netinu.

Stærð getur líka falið í sér stjórnmálaáhættu, eins og Rússland Stalíns, Þýskaland Hitlers og Kína Maós á nýliðinni öld sýna. Og var Aþenuborg óhagkvæmari eining en Persaveldi?

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is