Davíð tekur við lyklum að Stjórnarráðinu af Steingrími Hermannssyni 30. apríl 1991. Stjórn Steingríms hafði setið frá hausti 1988. Davíð var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins fyrr á árinu.
Davíð tekur við lyklum að Stjórnarráðinu af Steingrími Hermannssyni 30. apríl 1991. Stjórn Steingríms hafði setið frá hausti 1988. Davíð var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins fyrr á árinu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Hannes Hólmstein Gissurarson: "Ekki var sjónvarpað á fimmtudögum og ekki heldur í júlímánuði. Bjór var bannaður, og veitingahús máttu ekki selja áfengi á miðvikudögum. Mjólk var seld í sérstökum búðum, epli fengust aðeins á jólunum. Davíð Oddsson og þeir, sem með honum störfuðu í ríkisstjórn, voru ráðnir í að breyta um stefnu."

Þegar Davíð Oddsson myndaði sína fyrstu ríkisstjórn fyrir réttum aldarfjórðungi, 30. apríl 1991, urðu tímamót í íslenskri stjórnmálasögu. Allt frá 1855, þegar hér komst á verslunarfrelsi, og fram undir heimskreppuna 1930 höfðu Íslendingar notið svipaðs einstaklings- og atvinnufrelsis og aðrar Norðurlandaþjóðir, enda var land þeirra dönsk hjálenda til 1918 og fullvalda ríki í sérstöku sambandi við Danmörku frá 1918. Þetta breyttist í heimskreppunni um og eftir 1930, þegar hér voru sett á miklu strangari höft en annars staðar, ekki síst vegna þess að vinnumarkaður var hér ósveigjanlegur. Hér starfaði öflug kommúnistahreyfing, styrkt af rússnesku fé, sem kom í veg fyrir aðlögun á vinnumarkaði, þegar hart var í ári, svo að reynt var þess í stað að takmarka gjaldeyrisnotkun og innflutning. En höftin skertu ekki aðeins atvinnufrelsi, heldur líka einstaklingsfrelsi, því að víðtækt skömmtunarvald lenti í höndum stjórnmálaflokkanna, og beittu þeir því óspart til að tryggja sér áhrif og atkvæði. Nokkuð var rýmkað um höftin í tveimur áföngum, 1950 og 1960. Fjárfestingar voru engu að síður að miklu leyti áfram á vegum hins opinbera, stærstu bankarnir í eigu ríkisins og lán á svo lágum vöxtum að veiting þeirra jafngilti gjöf. Stjórnmálaflokkarnir skiptu á milli sín bankastjórum. Þótt gengisfellingar þættu skömminni skárri en ströng innflutningshöft áranna 1930–1960, var verðbólga hér miklu meiri en í grannríkjunum og verkföll tíðari. Höft, boð og bönn voru á mörgum sviðum, í stóru og smáu.

Þegar ég ólst upp einokaði ríkið útvarpsrekstur. Útvarpið flutti aðeins efni við hæfi örfárra menntamanna, nema hvað unglingum, sjúklingum og sjómönnum var stöku sinnum leyft að senda inn óskir um flutning dægurlaga. Ekki var sjónvarpað á fimmtudögum og ekki heldur í júlímánuði. Bjór var bannaður, og veitingahús máttu ekki selja áfengi á miðvikudögum. Mjólk var seld í sérstökum búðum, epli fengust aðeins á jólunum og menn gengu um í ólögulegum Gefjunarúlpum. Þeir sem áttu erindi til útlanda þurftu að sækja um gjaldeyri til sérstakrar nefndar, sem kom saman einu sinni í viku. Fjöldi fyrirtækja lifði á opinberri fyrirgreiðslu.

Biðstofa forsætisráðherra tæmdist

Davíð Oddsson og þeir, sem með honum störfuðu í ríkisstjórn, ekki síst Friðrik Sophusson fjármálaráðherra, voru ráðnir í að breyta um stefnu. Fyrsta verk þeirra var að hætta að styrkja óarðbæra starfsemi með framlögum frá hinu opinbera, en áður hafði hlaðist upp verulegur „fortíðarvandi“ vegna misheppnaðra fjárfestinga, þar sem stjórnmálasjónarmið réðu frekar en arðsemiskröfur. Nægir þar að nefna fiskeldi og loðdýrarækt, en líka hefðbundna útgerð. Þessi stefnubreyting hafði í för með sér snögga hugarfarsbreytingu. Stjórnendur fyrirtækja tóku að beita orku sinni í að bæta rekstur þeirra í stað þess að snúa sér til stjórnvalda í von um ódýrt fjármagn. Vonlausum rekstri var hætt. Opinberir fjárfestingarsjóðir voru ýmist lagðir niður eða þeim settar skorður. Biðstofa forsætisráðherra tæmdist.

Stjórninni tókst að halda ríkisútgjöldum í skefjum, og smám saman var þrálátum halla ríkissjóðs eytt. Í góðu samstarfi við Seðlabankann og aðila vinnumarkaðarins var peningamagn í umferð takmarkað, svo að verðbólga hjaðnaði niður í það sem tíðkaðist í grannlöndum. Nú skömmtuðu vextir peningana í stað misviturra bankastjóra. Hafin var sala ríkisfyrirtækja, en áður hafði ríkið meðal annars rekið ferðaskrifstofu, smiðju og lyfjaverslun. Afrakstrinum af sölunni var varið til að greiða niður skuldir hins opinbera. Árangurinn lét ekki á sér standa. Erfitt árferði hafði verið í upphafi fyrstu ríkisstjórnar Davíðs en upp úr 1995 jókst hagvöxtur og lífskjör bötnuðu.

Minnkuðu eigið vald

Davíð Oddsson lagði á stjórnmálabrautina með tvær einfaldar og rammíslenskar hugmyndir í vegarnesti. Hinni fyrri hafði Einar Þveræingur lýst árið 1024, þegar Þórarinn Nefjólfsson reyndi að telja Íslendinga á að ganga á hönd Noregskonungi. Einar sagðist þá taka það trúanlegt að þáverandi konungur, Ólafur digri, væri hinn vænsti maður en hitt vissu menn að konungar væru misjafnir og væri því best að hafa engan. Varaði Einar sérstaklega við alkunnri áfergju konunga í að leggja á skatta. Eins og hann benti á kennir reynslan okkur að tortryggja valdið og reyna að takmarka það.

Davíð og samstarfsmenn hans fóru eftir þessari gömlu, góðu hugmynd þegar þeir minnkuðu stórlega eigið vald með því að hætta margvíslegri skömmtun fjármagns eftir stjórnmálasjónarmiðum. Snemma á stjórnartíð Davíðs voru einnig sett stjórnsýslulög og upplýsingalög sem tryggðu betur en áður margvísleg réttindi einstaklinga. Þegar um hægðist í ríkisfjármálum voru skattar síðan lækkaðir verulega, jafnframt því sem skattheimta var einfölduð. Til dæmis var tekjuskattur fyrirtækja lækkaður úr 45% í 18% og hátekjuskattur afnuminn, svo að á tekjur ofan ákveðins lágmarks lagðist flatur skattur. Skatttekjur ríkisins jukust þrátt fyrir skattalækkanirnar, enda getur lítil sneið af stórri köku orðið stærri en stór sneið af lítilli köku. Ekki má heldur gleyma því að með því að stöðva skuldasöfnun ríkisins og hleypa verðbólgunni út úr atvinnulífinu lækkuðu Davíð, Friðrik Sophusson og samherjar þeirra hina ósýnilegu skatta sem ella eru lagðir á komandi kynslóð annars vegar og á notendur peninga hins vegar. Sjálfur sagði Davíð í ræðu 1995: „Við verðum að breyta viðhorfi fólks til hins opinbera. Það á ekki að vera eins og síldarnót til að festa fólk í, heldur eins og öryggisnet sem enginn fellur niður fyrir.“

Staðið á réttinum

Staðarhóls-Páll kom orðum að hinni stjórnmálahugmyndinni sem varð Davíð Oddssyni drjúg á stjórnmálabrautinni. Þegar Páll gekk eitt sinn seint á sextándu öld fyrir konung í Kaupmannahöfn kraup hann aðeins á annað hné. Þegar hirðmenn fundu að þessu sagði hann: „Ég lýt hátigninni, en stend á réttinum.“ Davíð Oddsson hafði ungur maður þýtt bókina Eistland. Smáþjóð undir oki erlends valds eftir Andres Küng, og í honum blundaði löngun til að rétta hinum kúguðu smáþjóðum við Eystrasalt hjálparhönd. Tækifærið kom í ágúst 1991, fjórum mánuði eftir að hann myndaði sína fyrstu ríkisstjórn, þegar valdarán gamla kommúnistakjarnans í Rússlandi misheppnaðist. Þá höfðu þeir Davíð og Jón Baldvin Hannibalsson, sem þá var utanríkisráðherra og jafnáhugasamur honum um málið, forgöngu um það að Ísland endurnýjaði fyrst vestrænna ríkja viðurkenningu sína á löndunum. Varð Davíð að skýra þessa gerð út fyrir bandamönnum okkar í Atlantshafsbandalaginu, sem voru ekki allir ánægðir með hana, og sendiherra Ráðstjórnarríkjanna, sem mótmælti henni harðlega.

Ég átti nokkrum sinnum kost á því að fylgjast með Davíð á fundum með erlendum þjóðarleiðtogum, meðal annars í Hvíta húsinu, og hann fylgdi þar dæmi Staðarhóls-Páls. Hann talaði ekki oft og lengi en það sem hann sagði var kjarnyrt og iðulega kryddað einhverri kímni. Fór þar saman hógværð og festa. Honum þótti stundum nóg um hversu fyrirferðarmiklir Bandaríkjamenn voru á alþjóðavettvangi en hann taldi hagsmunum Íslands best borgið í góðu samstarfi við þá, en þá og því aðeins að Íslendingar stæðu á réttinum. Sú var ástæðan til þess að þeir Halldór Ásgrímsson, sem þá var utanríkisráðherra, ákváðu 2003 að lýsa yfir stuðningi við aðgerðir Bandaríkjanna og margra annarra ríkja gegn Saddam Hussein í Írak, eftir að hinn blóðþyrsti einræðisherra hafði brotið freklega gegn samþykktum Sameinuðu þjóðanna. Um var að ræða opinbera yfirlýsingu, ekki þátttöku. En aðgerðirnar reyndust síðan reistar á röngum upplýsingum: Gereyðingarvopn fundust ekki í landinu, þótt leyniþjónusta Bandaríkjanna hefði fullvissað stjórnvöld um tilvist þeirra.

Frelsi og framfarir

Árið 1990 hafði íslenska hagkerfið verið hið 28. frjálsasta af þeim 113, sem þá voru mæld, en árið 2004, þegar Davíð lét af embætti forsætisráðherra, var það hið 13. frjálsasta af 130. Hagkerfið íslenska var þá orðið jafnfrjálst hinu danska, líklega í fyrsta skipti frá 1914. Frá 1995 til 2004 var eitthvert lengsta samfellda hagvaxtarskeið Íslandssögunnar. Almenn lífskjör bötnuðu um þriðjung. Þessi lífskjarabati var ekki bóla, sem átti eftir að springa, því að skuldasöfnun erlendis jókst ekki í alvöru fyrr en um og eftir 2004. Auðvitað var ein skýringin á því, hversu vel tókst til að aðhaldsaðgerðir, sem í hafði verið ráðist frá og með 1991, voru að skila árangri. Önnur mikilvæg skýring var, að hagkerfið opnaðist og íslensk atvinnufyrirtæki fengu aðgang að stórum mörkuðum með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu 1994 (þótt deila megi um, hvort sama tilgangi hefði ekki mátt ná með tvíhliða samningum, eins og Sviss gerði og þeir Bretar, sem vilja ganga úr Evrópusambandinu, mæla með). Þriðja skýringin var áreiðanlega, hversu vel sjávarútvegur dafnaði. Undir forystu þeirra Davíðs og Þorsteins Pálssonar, sem var sjávarútvegsráðherra frá 1991 til 1999, var kvótakerfið styrkt, bætt og einfaldað, á sama tíma og flestar aðrar þjóðir ráku fiskveiðar með stórfelldu tapi og stunduðu jafnvel rányrkju.

Kvótakerfið íslenska var ekki líkan, sem smíðað var á skrifstofu, heldur afrakstur langrar reynslu við aðferð happa og glappa. Íslendingar höfðu komist að því þegar aðgangur er ótakmarkaður að takmarkaðri auðlind eins og fiskimiðunum við Ísland, verður afleiðingin ofnýting auðlindarinnar, svo að mögulegur arður af henni eyðist allur upp í óhóflegum kostnaði. Takmarka þurfti sóknina á miðin, og það var gert með því að leyfa þeim sem þegar stunduðu veiðar að halda þeim áfram, en gera heimildir þeirra til þess varanlegar og seljanlegar, svo að frjáls markaður gæti myndast um þær. Þessir aðilar voru hvort sem er hinir einu sem höfðu einhverju að tapa, því að þeir höfðu lagt veiðarnar fyrir sig og fjárfest í þekkingu og fjármagni til þeirra. Aðrir höfðu engu að tapa nema réttinum til að gera út án nokkurs arðs (eins og fiskihagfræðingar hafa sýnt fram á), en slíkur réttur er vitanlega einskis virði. Kvótakerfið vann sitt verk í tímans rás: Sóknin minnkaði í átt til mestu hagkvæmni við það, að sumir kusu að selja kvóta sína og aðrir að kaupa þá og sameina sínum. Þeir, sem var ofaukið á miðunum voru keyptir út í stað þess að vera reknir út. Nauðsynleg hagræðing gerðist hægt, örugglega og friðsamlega í krafti frjálsra viðskipta ólíkt því sem hefði orðið hefði ríkið rekið alla þá sem stunduðu veiðar út af miðunum og boðið síðan upp heimildirnar til að veiða.

Gagnrýnisraddir

Fyrstu fjögur árin starfaði Sjálfstæðisflokkurinn undir forystu Davíðs Oddssonar með Alþýðuflokknum, en sá flokkur klofnaði 1994 og var eftir kosningarnar 1995 vart svipur hjá sjón. Þá hófst samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem varð langt og farsælt, en Davíð og Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, sömdu um það eftir kosningarnar 2003, að Davíð léti af embætti forsætisráðherra haustið 2004. Var hann síðan utanríkisráðherra til 2005. En þótt Davíð væri sigursæll stjórnmálamaður, var hann óspart gagnrýndur. Eitt gagnrýnisefnið var, að tekjudreifing hefði í tíð hans orðið miklu ójafnari en í öðrum Norðurlandaríkjunum. Þetta reyndist rangt, hvort sem um var að kenna reikningsskekkjum gagnrýnenda eða talnabrellum. Þegar sambærilegar tölur voru skoðaðar, var tekjudreifing árið 2004 í svipuðu horfi hér og í öðrum Norðurlandaríkjum.

Þá var sagt að skattalækkanirnar hefðu í raun verið skattahækkanir, því að hlutfall skatta af landsframleiðslu hefði hækkað, jafnframt því sem skattleysismörk hefðu ekki fylgt verðlagi. Þetta var hugsunarvilla. Ástæðan til þess, að hlutfall skatta af landsframleiðslu gat hækkað þrátt fyrir skattalækkanir var, að fyrirtæki og einstaklingar sem áður höfðu búið við svo laka afkomu að þessir aðilar greiddu enga skatta gátu við vænkandi hag greitt skatta. Gagnrýnendur höfðu líka gleymt því að lífeyrissparnaður varð skattfrjáls, en þegar það var tekið með í reikninginn kom í ljós að skattleysismörk héldust svipuð að raunvirði í stjórnartíð Davíðs.

Davíð var aldrei gagnrýndur fyrir að hygla sjálfum sér. Hann tók sér til dæmis ekki biðlaun í sex mánuði sem borgarstjóri eins og hann átti rétt á, þegar hann settist í stól forsætisráðherra. Kona hans, Ástríður Thorarensen, tók sér ekki heldur dagpeninga sem maki ráðherra, þótt það gerðu flestir aðrir makar ráðherra. Þegar Davíð var flæmdur úr Seðlabankanum 2009, þótt hann hefði ráðningarsamning til 2012, innheimti hann ekki laun fyrir næstu þrjú ár, eins og hann átti rétt á og hefði áreiðanlega fengið með dómi. En tvær skipanir í embætti hæstaréttardómara í tíð hans voru harðlega gagnrýndar, þótt hann ætti þar ekki sjálfur hlut að máli. Dómsstjórinn á Suðurlandi, Ólafur Börkur Þorvaldsson, var skipaður dómari 2003 og hæstaréttarlögmaðurinn Jón Steinar Gunnlaugsson 2004. Enginn getur þó efast um hæfni þessara manna til að gegna embætti hæstaréttardómara, enda sýna vel ígrundaðir dómar þeirra það. Því var haldið fram, að þeir hefðu hlotið skipun vegna klíkuskapar, af því að annar var skyldur Davíð og hinn vinur hans. En þessu var þveröfugt farið: Deilur urðu því að meirihluti Hæstiréttar vildi í bæði skiptin aðra umsækjendur, sem voru í klíku með starfandi dómurum. Báðar embættaveitingarnar voru því í raun gegn klíkuskap, ekki dæmi um hann.

Baugsmál og bankasala

Öflugustu andstæðingar Davíðs Oddssonar í stjórnmálum stigu fram 2002, eftir að hann hafði tekið undir áhyggjur þáverandi formanns Samfylkingarinnar af fákeppni á matvælamarkaði. Jón Ásgeir Jóhannesson í Baugi, sem var risafyrirtæki á íslenskan mælikvarða, brást illa við ummælum Davíðs. Þegar lögreglurannsókn hófst á starfsemi hans, eftir að fyrrverandi samstarfsmaður kærði hann fyrir brot á bókhaldsreglum, kaus hann að trúa því, að Davíð stæði að baki málinu, þótt Davíð þekkti ekki kærandann. Árin 2002–2003 keypti Jón Ásgeir upp flesta fjölmiðla í einkaeigu og beitti þeim hart gegn Davíð. Fjöldi manns var á launum hjá Jóni Ásgeiri við skrif og ráðgjöf gegn forsætisráðherranum. Í baráttunni fyrir þingkosningar 2003 tók „forsætisráðherraefni“ Samfylkingarinnar undir ásakanir Jóns Ásgeirs á hendur Davíð. Átökin hörðnuðu enn árið 2004, þegar Davíð lagði fram frumvarp sem miðaði að því að auðjöfrar yrðu ekki allsráðandi á fjölmiðlamarkaði. Eftir að Alþingi samþykkti frumvarpið neitaði forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, að skrifa undir það, og var það þá tekið aftur. Forsetinn var í talsverðum tengslum við Jón Ásgeir: Kosningastjóri hans frá 1996 stjórnaði sjónvarpsstöðvum Jóns Ásgeirs og dóttir forsetans var í hópi stjórnenda Baugs.

Eftir bankahrunið 2008 þögnuðu þær gagnrýnisraddir sem höfðu sakað Davíð um andúð á auðjöfrum, enda hlaut Jón Ásgeir Jóhannesson dóm fyrir það brot sem kært hafði verið fyrir. Þá tók við annars konar gagnrýni: Óeðlilega hefði verið staðið að sölu ríkisbankanna. Raunar hófst sala þeirra þegar árið 1990, þegar Sjálfstæðisflokkurinn var í stjórnarandstöðu. Þá var Útvegsbankinn seldur og Íslandsbanki stofnaður upp úr honum og nokkrum minni bönkum. Árið 1998 var talsvert af hlutabréfum í Landsbankanum og Búnaðarbankanum selt á opnum markaði. Fengið var virt erlent ráðgjafarfyrirtæki, HSBC, til aðstoðar. Það þreifaði fyrir sér erlendis 2001 um sölu stórs hluta í bönkunum en hlaut engar undirtektir. Árið 2002 sýndu íslenskir kaupsýslumenn, sem höfðu efnast erlendis, hins vegar áhuga á að kaupa hlut í Landsbankanum. Eftir flókið ferli, þar sem báðir bankarnir voru auglýstir og vandlega farið yfir tilboð, varð niðurstaðan að feðgarnir Björgólfur Thor Björgólfsson og Björgólfur Guðmundsson keyptu ásamt samstarfsmanni stóran hlut í Landsbankanum, en svokallaður S-hópur, sem hafði náin tengsl við Framsóknarflokkinn, keypti stóran hlut í Búnaðarbankanum, en seldi hann fljótlega Kaupþingi. Þess má geta að þótt þeir Davíð og Björgólfur Guðmundsson séu góðir kunningjar voru þeir löngum á öndverðum meiði innan Sjálfstæðisflokksins. Björgólfur var til dæmis kosningastjóri Alberts Guðmundssonar þegar hann barðist hart gegn Davíð um fyrsta sætið á lista sjálfstæðismanna í Reykjavík í borgarstjórnarkosningunum 1982. Hvað sem því líður fór Ríkisendurskoðun tvisvar rækilega yfir sölu ríkisbankanna og fann lítið sem ekkert athugavert við hana.

Seðlabankastjóri í mótbyr

Nýir eigendur tóku við bönkunum í ársbyrjun 2003. Frá öndverðu þótti Davíð Oddssyni þeir fara heldur geyst, sérstaklega í gamla Búnaðarbankanum, sem hlaut fljótlega nafn gamla fjármálafyrirtækisins Kaupþings. Þegar stjórnendur bankans gerðu rausnarlega kaupréttarsamninga við sjálfa sig haustið 2003 fór Davíð í bankann 21. nóvember og tók út innstæðu sína í mótmælaskyni. Vitnaði hann í frægt kvæði Hallgríms Péturssonar um fégirndina. Bankastjórarnir hættu þá við kaupréttarsamningana. En eftir ósigurinn í baráttunni um fjölmiðlafrumvarpið sumarið 2004 veiktist aðstaða Davíðs, og átti hann auk þess við erfiðan sjúkdóm að stríða, sem hann sigraðist þó á að fullu. Nú kom að gráglettni örlaganna. Vegna hins góða orðspors sem Ísland naut eftir röggsamlega stjórn ríkisfjármála og peningamála 1991–2004, opnunar hagkerfisins og almenns uppgangs var lánshæfismat ríkisins afar gott. Þetta smitaðist yfir á hina nýseldu banka, jafnframt því sem alþjóðlegir vextir voru í lágmarki vegna ómarkvissrar stjórnar peningamála í Bandaríkjunum. Ungir og sprækir menn, sem stjórnuðu nú bönkunum, gátu því þanið þá út svo að furðu gegndi. Á örfáum árum tókst Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, sem naut sín vel eftir sigurinn í baráttunni um fjölmiðlafrumvarpið, að safna þar skuldum upp á hátt í þúsund milljarða króna.

Eftir að Davíð varð seðlabankastjóri haustið 2005 varaði hann margoft við útþenslu bankanna, til dæmis á fundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007 svofelldum orðum: „Ódýrt fé lá um hríð hvarvetna á lausu og ýmsir aðilar hér á landi nýttu það tækifæri af djörfung og krafti. Hin hliðin á útrásinni er þó sú og fram hjá henni verður ekki horft, að Ísland er að verða óþægilega skuldsett erlendis. Á sama tíma og íslenska ríkið hefur greitt skuldir sínar hratt niður og innlendar og erlendar eignir Seðlabankans hafa aukist verulega, þá hafa aðrar erlendar skuldbindingar þjóðarbúsins aukist svo mikið, að þetta tvennt sem ég áðan nefndi er smáræði í samanburði við það. Allt getur þetta farið vel, en við erum örugglega við ytri mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma.“

Við ytri mörk

Íslendingar voru svo sannarlega við ytri mörk. Þeir höfðu leyst vandann af þrálátri verðbólgu áratuganna á undan með því að taka upp verðtryggingu á langtímaskuldbindingum, svo að í raun voru tveir gjaldmiðlar í umferð í landinu, venjuleg króna til að greiða með í verslunum og verðtryggð króna til að gera með langtímasamninga. (Í rauninni hafði svipuð áhrif að nota verðtryggða krónu í viðskiptum og að nota erlendan gjaldmiðil, evru, pund eða dal, eins og margir vildu. Henni varð ekki haggað með innlendri seðlaprentun, sem var bæði kostur og galli.) En í opnu hagkerfi varð krónan líka að vera skiptanleg í aðra gjaldmiðla. Þegar haustið 2007 sáust þess merki að seðlabankar annarra landa voru tregir til að skipta gjaldmiðlum sínum í krónur. Þetta varð enn ljósara árið 2008, þegar seðlabankar Breta, Evrópusambandsins og Bandaríkjanna neituðu að gera gjaldeyrisskiptasamninga við íslenska seðlabankann, þótt bandaríski seðlabankinn gerði slíka samninga við alla aðra, þar á meðal seðlabanka Svía og Svisslendinga, og hafði hvorug þjóðin þó verið vinveitt Bandaríkjunum. Krónan var ekki lengur skiptanleg, og Seðlabankinn gat ekki af eigin rammleik veitt íslensku bönkunum þá lausafjárfyrirgreiðslu sem þeir þurftu þegar skyndileg lausafjárþurrð varð á fjármálamörkuðum.

Árið 2008 hélt Davíð Oddsson áfram að vara við útþenslu bankanna og undirbúa í kyrrþey aðgerðir ef þeir féllu. Hann hitti ráðherra meðal annars 13. janúar, 7. febrúar, 6. mars, 18. mars, 30. mars og 1. apríl og lýsti þungum áhyggjum af bönkunum. En eins og eðlilegt er og mannlegt vildu ráðherrarnir halda lengur í vonina en Davíð um að allt gæti blessast. Formaður Samfylkingarinnar sagði síðar um einn fundinn að sér hefði fundist Davíð fara „dálítið mikinn í sinni frásögn“. Ég sat þá í bankaráði Seðlabankans og hitti Davíð oft. Tel ég fullvíst, að hann hafi hvergi dregið af sér í viðvörunum. Enn reyndust örlögin gráglettin. Á sama hátt og gott orðspor íslenska ríkisins frá árunum 1991–2004 hafði smitast yfir á íslensku bankana smitaðist nú vont orðspor bankanna yfir á ríkið. Seðlabankinn kom alls staðar að lokuðum dyrum árið 2008. Hann gat prentað krónur, en hvorki evru, pund né dal, nema með samþykki erlendra seðlabanka, og það var ekki veitt.

Niðurstöður tilkynntar strax

Í hinni alþjóðlegu fjármálakreppu 2007–2009 voru Íslendingar skildir eftir úti á berangri með banka, sem voru risastórir miðað við landsframleiðslu, á meðan öllum öðrum Evrópuþjóðum var hjálpað. Afleiðingin varð þrot bankanna. Fyrstur til að falla var Glitnir, sem nú var kominn í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og liðs hans. Gráu var síðan bætt ofan á svart. Hugsanlega hefði verið hægt að afstýra hruni alls bankakerfisins íslenska, hefði ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins ekki lokað skyndilega breskum bönkum í eigu Íslendinga, á sama tíma og öllum öðrum breskum bönkum var hjálpað, og síðan sett hryðjuverkalög á Íslendinga, ekki aðeins Landsbankann, heldur líka íslensk stjórnvöld. Nú er uppgjöri bresku bankanna, Heritable og KSF, lokið, og komið í ljós, að þeir áttu vel fyrir skuldum. Það var því óþarfi að loka þeim, auk þess sem mikil verðmæti fóru í súginn. Einnig var óþarfi að setja hryðjuverkalögin 8. október 2008 á Íslendinga: Fimm dögum áður hafði breska bankaeftirlitið gefið út leynilega tilskipun til útibús Landsbankans í Bretlandi, þar sem því var bannað að flytja fé frá landinu nema með skriflegu leyfi eftirlitsins. Þetta hefði nægt til að koma í veg fyrir alla óeðlilega fjármagnsflutninga frá Bretlandi til Íslands, sem engir reyndust að vísu.

Þegar skipuð var rannsóknarnefnd um bankahrunið vildi svo einkennilega til, að tilkynnt var um niðurstöðurnar í upphafi. Einn þriggja nefndarmanna, Sigríður Benediktsdóttir, sagði í viðtali við Yale Daily News 31. mars 2009 að bankahrunið hefði orðið vegna skefjalausrar fégirndar bankamanna annars vegar og glæfralegs andvaraleysis Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans hins vegar. Þegar niðurstöður nefndarinnar voru kynntar rösku ári síðar reyndust þær hinar sömu og Sigríður hafði boðað. Litið var fram hjá hinni alþjóðlegu fjármálakreppu og einnig stjórnmálaviðhorfinu innan lands 2004–2008, þegar auðjöfrar réðu flestu. Um Seðlabankann var sérstaklega sagt að hann hefði ekki kynnt sér nógu vel fjárhagslegt bolmagn Landsbankans til að safna innstæðum erlendis og að hann hefði ákveðið verð á Glitni í upphafi bankahrunsins án þess að leita til sérfræðinga. Hvort tveggja var út í hött. Seðlabankinn hafði ekkert eftirlitsvald með Landsbankanum (það hafði hins vegar Fjármálaeftirlitið) og hlaut að íslenskri venju að túlka valdheimildir sínar þröngt. Verðið á Glitni var ekki ákveðið af handahófi, heldur lagði ríkið til sömu upphæð og bankinn taldi sig þurfa, en leyfði fyrrverandi hluthöfum að halda eftir fjórðungi. Var þetta mjög á sama veg og gert var annars staðar, meðal annars í Bretlandi og Bandaríkjunum.

Orsakir bankahrunsins

Þrjár orsakir eru oftast nefndar til bankahrunsins, og stenst engin þeirra skoðun. Hin fyrsta er glannaskapur bankamanna. En íslenskir bankamenn voru hvorki betri né verri en starfsbræður þeirra og -systur erlendis. Þeir voru að minnsta kosti ekki sekir um peningaþvætti, hagræðingu á Libor-vöxtum, aðstoð við stórfelld skattsvik og eyðingu gagna um innstæður gyðinga frá því fyrir stríð, eins og ónefndir erlendir stórbankar. Hitt er annað mál að íslensku bankamennirnir hefðu mátt vera gætnari. Þeir gerðu sér ekki heldur fulla grein fyrir því á uppgangsárunum að möguleiki þeirra á örum vexti var ekki alltaf snilli þeirra sjálfra að þakka, heldur myndaðist hann vegna þess trausts, sem Ísland hafði áunnið sér árin 1991-2004.

Önnur orsökin er iðulega sögð vera stærð bankakerfisins miðað við landsframleiðslu. En svissneskir og skoskir bankar voru jafnstórir eða stærri á þann mælikvarða. Bankar eins og UBS í Sviss og RBS í Skotlandi hefðu fallið, hefðu þeir ekki fengið lausafé frá Lundúnum og Washington. Um kerfisgalla var að ræða: Ef banki átti að geta starfað á öllu Evrópska efnahagssvæðinu, eins og gert var ráð fyrir, varð að vera til einhvers konar fyrirkomulag á þrautavaralánum á öllu svæðinu, en það vantaði.

Þriðja orsökin var stundum talin vera „nýfrjálshyggja“ Davíðs Oddssonar. En íslensku bankarnir bjuggu við sama regluverk og allir aðrir bankar á Evrópska efnahagssvæðinu, og þótt Fjármálaeftirlitið hefði eflaust stundum mátt vera byrstara í bragði réð það engum úrslitum. Árið 2004 var íslenska hagkerfið hið 13. frjálsasta af 130 hagkerfum sem þá voru mæld. Af hverju féllu þá ekki bankar í þeim tólf hagkerfum sem frjálsari voru, þar á meðal Sviss?

Franska skáldið Molière gerði gys að þeim skýringum sem væru ekkert annað en tuggur: Ópíum svæfir vegna svæfingarmáttar síns. Í raun og veru eru ofannefndar skýringar svipaðs eðlis. Þótt Jón Ásgeir Jóhannesson og bandamenn hans hafi vissulega veikt viðnámsþrótt hagkerfisins með skefjalausri skuldasöfnun, eru meginskýringarnar á bankahruninu sjálfu þær tvær, að Bandaríkjamenn neituðu okkur um hjálp og Bretar stuðluðu beinlínis að falli bankanna. Hitt er annað mál, þegar horft er um öxl, að sennilega var þetta dulbúin blessun.

Eftirmál bankahrunsins

Þótt að minnsta kosti sex þjóðir í Evrópu yrðu verr úti í fjármálakreppunni 2008–2009 varð hún Íslendingum miklu meira áfall. Þeir voru góðu vanir. Það er hins vegar með ólíkindum, þegar mótmæli hófust, að þau skyldu ekki eiga sér stað við höfuðstöðvar Baugs að Túngötu 6, þar sem voldugasti — og skuldugasti — maður Íslands árin 2004–2008 hafði aðsetur, Jón Ásgeir Jóhannesson, heldur við Seðlabankann, sem hafði hvað eftir annað varað við og síðan gert ráðstafanir til að bjarga því sem bjargað yrði. Aðalatriðið var að mati Davíðs Oddssonar og starfsbræðra hans í Seðlabankanum að koma í veg fyrir ríkisgjaldþrot og síðan að tryggja hag innstæðueigenda. Þurfti Seðlabankinn raunar að senda einkaþotu til Lundúna eftir ráðgjöfum frá J. P. Morgan til að sannfæra ríkisstjórnina um það í Ráðherrabústaðnum aðfaranótt 6. október 2008 að gera yrði bankana upp. Starfsfólk Seðlabankans lagði síðan nótt við dag næstu vikur til að tryggja að greiðslumiðlun við landið yrði snurðulaus, og gekk kraftaverki næst að það tókst, eftir að ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins hafði sett hryðjuverkalögin og ætlaði að svelta Íslendinga til hlýðni. Var þess krafist af þjóðinni að hún endurgreiddi breska ríkinu það, sem það hafði lagt út vegna íslenskra banka, eftir að sama ríki hafði sjálft lagt þá að velli!

Þegar Ísland var að falli komið hugsuðu vinstrimenn um það eitt að flæma Davíð Oddsson úr Seðlabankanum. Skyldi nú hefnt ófara þeirra í ótal viðureignum við hann. Samþykkt voru sérstök lög í þessu skyni, en stjórnarskráin brotin með því að setja erlendan ríkisborgara í stöðu seðlabankastjóra. Nú virtist Davíð hafa beðið miklu stærri ósigur en árið 2004, þegar honum mistókst að koma í veg fyrir skefjalaust auðræði. En hann kiknaði ekki undan högginu, heldur spratt upp og gerðist ritstjóri Morgunblaðsins. Þar skrifar hann beinskeytta og áhrifamikla pistla og beitir sér af alefli. Nefna má Icesave-málið, þegar vinstri stjórnin 2009–2013 fór ekki að dæmi Staðarhóls-Páls, heldur kraup fyrir Bretum. EFTA-dómstóllinn staðfesti eftirminnilega skilning Davíðs á skuldbindingum íslenska ríkisins. Enn má geta uppgjörs við kröfuhafa föllnu bankanna. Þar taldi Davíð eins og fleiri, að íslenska ríkið ætti ekki síður kröfur á hendur bönkunum en erlendir lánardrottnar þeirra. Aftur kraup vinstri stjórnin fyrir útlendingum í stað þess að standa á réttinum, og hefur tekið tíma og fyrirhöfn að færa það mál í skárra horf. Þriðja dæmið er umsóknin um aðild að Evrópusambandinu, sem vinstri stjórnin knúði fram í anda Þórarins Nefjólfssonar. Þar hefur Davíð varað við útlendum skriffinnum með svipuðum rökum og Einar Þveræingur forðum við útlendum konungum. En þrátt fyrir alla sína sigra er Davíð enn sami upplitsdjarfi alþýðupilturinn og þegar hann lagði fyrst út á stjórnmálabrautina með sitt góða vegarnesti úr rösklega ellefu hundruð ára sögu Íslendinga.

Höfundur er prófessor í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands.