Óskar Bergsson
Óskar Bergsson
Eftir Óskar Bergsson: "Um leið og gömlu þjóðleiðirnar opnast þá vakna til lífsins gömlu sögurnar ef áhugi heimamanna á hverjum stað er fyrir hendi."

Ein elstu mannvirki á Íslandi eru gamlar leiðir, götur og slóðar sem leiddi fólk á milli bæja og landshluta í þúsund ár áður en nútímasamgöngur urðu til. Þessar leiðir eru nú að mestu aflagðar og yfirgefnar og margar hafa orðið undir núverandi vegakerfi sem lagt hefur verið um allt land. Margar leiðir glötuðust þegar skurðgröfubyltingin varð í sveitum og mýrar framræstar til aukinnar framleiðslu í landbúnaði. Flestar af gömlu þjóðleiðunum eru ennþá til en eru að gleymast og hafa tapað tilgangi sínum með breyttum samgöngum. Þessar leiðir munu hverfa með öllu ef ekki verður gripið inn í og notagildi þeirra endurvakið. Efni og tilgangur þessarar greinar er að minna á gömlu þjóðleiðirnar og þá möguleika sem þær gætu skapað ef þær yrðu opnaðar almenningi sem vistvæn þjóðbraut samtímans.

Fyrir almenna útivist og ferðaþjónustu

Með auknum ferðamannastraumi eykst þrýstingur á að finna leiðir til þess að hafa ofan af fyrir gestum okkar og skapa sem mesta fjölbreytni við að ná tengslum við land og þjóð. Opnun gömlu þjóðleiðanna gæti skapað fjölbreytta útivistarmöguleika, allt frá því að vera stutt gönguleið innan bæjarmarka, til lengri ferða og milli byggðarlaga. Fjölbreyttar leiðir gætu síðan tengst hálendinu á þeim svæðum sem eiga hálendið að baklandi. Hægt er að sjá fyrir sér gönguleið hringinn í kringum landið með viðkomu í öllum helstu náttúruperlum landsins auk tengingar við hótel og ferðaþjónustu bænda víðsvegar. Þessi framkvæmd kæmi bæði Íslendingum og erlendum gestum til góða í einföldum ferðamáta, á nýjum, eða réttara sagt gömlum, leiðum um Ísland.

Mismunandi útfærslur eftir aðstæðum og staðháttum

Einkenni þessara leiða þarf að vera að þær liggi ekki meðfram akvegum og að fólk njóti náttúru og útiveru í fjölbreyttri náttúru landsins. Í sumum tilvikum væri um að ræða gamlar götur sem ekki yrði annað gert við en að stika þær og þær yrðu aftur eins og gamlar fjárgötur eða bæjarleiðir. Önnur útfærsla gæti svo verið uppbygging hefðbundinna reiðleiða og þriðja útfærslan væri síðan stígur með bundnu slitlagi þar sem hjólandi og gangandi umferð væri meginumferðin. Þessar mismunandi útfærslur færu eftir meginumferð á hverjum stað og svo auðvitað efnum og aðstæðum. Aðkoma vélknúinna ökutækja væri einungis til þjónustu við leiðina og til sjúkraflutninga.

Sagan

Ein af mörgum auðlindum Íslands er sagan. Við eigum sögur frá fyrstu byggð fram á okkar daga og flestar þær sögur tengjast ákveðnum stöðum. Um leið og gömlu þjóðleiðirnar opnast þá vakna til lífsins gömlu sögurnar ef áhugi heimamanna á hverjum stað er fyrir hendi. Hluti af gönguferð, hjólaferð eða hestaferð væri því bæði að upplifa náttúru landsins og kynnast um leið broti af sögunni. Sem dæmi um leiðir sem hefur verið lítt raskað og auðvelt er að opna má nefna tvær leiðir til Þingvalla sem var aðalþingstaður Íslendinga í árhundruð. Maríuhöfn í Kjós var áður einn stærsti þéttbýlisstaður landsins en þar eru hafnaraðstæður góðar og stysta leið frá sjó að Þingvöllum. Maríuhöfn lagðist í eyði í svarta-dauða, vorið 1402, en á þeim stað kom kistan í land sem dreifði sjúkdómnum meðal landsmanna. Leiðin liggur upp með Laxá í Kjós, að Stíflisdal og þaðan í heiðinni fyrir ofan Kárastaði og Brúsastaði til Þingvalla.

Aðra leið frá Þingvöllum er hægt að nefna og það er biskupaleiðin frá Þingvöllum í gegnum skógargöturnar að Gjábakka og þaðan yfir Lyngdalsheiði til Skálholts. Jón Arason og synir voru fluttir í böndum þessa leið frá Þingvöllum að Skálholti þar sem þeir voru síðan hálshöggnir. Hvorugri þessari leið hefur verið raskað að stórum hluta og þarf ekki mikið til að opna þær undir þessum formerkjum.

Til þess að tengja þetta verkefni ekki einungis við banvænustu farsótt sem hér hefur geisað og níðingsverkið á síðasta kaþólska biskupnum í landinu sem jafnframt er ættfaðir allra Íslendinga má geta leiðarinnar frá Keldum á Rangárvöllum inn á Fjallabaksleið. Þangað flúði ung stúlka ásamt Torfa unnusta sínum en foreldrar hennar höfðu ákveðið að hún skyldi giftast ráðsmanninum á Keldum. Leiðin er vörðuð örnefnum þessa flótta því Blesi heimasætunnar sprakk í Blesamýri sem er rétt vestan við Hungurfit. Þaðan tvímenntu þau á Faxa Torfa þar til hann sprakk í Faxa sem er fjall sem skilur að Hungurfit og Krók sem stendur við Markarfljót og Stóra Grænafjall. Uppgjörið á milli Torfa og ráðsmannsins var svo við Torfahlaupið en þar stökk Torfi yfir Markarfljótið í einu stökki með ástina sína í fanginu. Um svæðið allt má finna örnefni tengd Torfa svo sem Torfatindur, Torfafit og Torfajökull.

Sambærilegar leiðir erlendis

Af svipuðum ferðamáta á erlendri grund má nefna Jakobsveginn milli Frakklands og Spánar og Hadrian's Wall í Englandi. Jakobsveginn kynnti Thor heitinn Vilhjálmsson fyrir landsmönnum í myndinni Draumurinn um veginn sem Erlendur Sveinsson leikstýrði og framleiddi. Fjölmargir Íslendingar hafa lagt leið sína þangað og fara vinsældir þessarar gömlu leiðar vaxandi meðal Íslendinga.

Hadrian's Wall er rómverskur virkisveggur sem liggur þvert yfir England frá Newcastle í austri til Carlisle í vestri, alls 120 kílómetrar. Vegginn reistu Rómverjar árið 43 eftir Krist til þess að halda herskáum frumbyggjum landsins í skefjum norðan við múrinn. Höfundur framhaldsþáttanna Game of Thrones sótti sér innblástur að sögu sinni er hann gekk leiðina eftir virkisveggnum. Þessari gönguleið fylgir mikil saga auk þess sem merkilegar fornminjar hafa fundist í rústum mannvirkja er tengdust múrnum. Þúsundir manna ganga Hadrian's Wall eða hluta hans á hverju ári og það sem í raun ræður fjölda ferðamanna á leiðinni er framboð á gistirými. Það sama gæti gerst á Íslandi, gömlu þjóðleiðirnar gætu stutt við rekstur ferðaþjónustu og heimagistingu víðsvegar um landið.

Hvernig á að framkvæma þetta?

Eitt er að láta sig dreyma og svo er hitt hvernig draumarnir rætast. Opnun gamalla þjóðleiða í vistvæna þjóðbraut í landi vaxandi ferðaþjónustu og útivistarvakningar er fyrst og fremst skipulagsverkefni.

Opna þarf leiðirnar í samráði við heimamenn á hverjum stað og vinna síðan framkvæmdaáætlun á grundvelli skipulagsins. Eðlilegast er að opinberir aðilar komi þessu á fót og þetta geti orðið samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga auk hagsmunaaðila í ferðaþjónustu sem staðsettir yrðu við leiðakerfið. Ef ein framkvæmd getur skapað eitthvað nýtt í ferðaþjónustu á Íslandi sem hefði víðtæk áhrif um allt land þá væri það þessi einfalda opnun á leiðum sem lengst af hafa haldið landinu í byggð en eru nú horfnar, að minnsta kosti í bili. Með því að endurvekja þessar leiðir myndi það auka útivistarmöguleika þeirra sem hér búa og þeirra sem sækja landið heim og væri þörf viðbót við það sem hér er boðið upp á. Við Íslendingar erum rík af auðlindum og þjóðmenningin er ein af mörgum. Þjóðleiðirnar og sagan eru auðlindir sem hægt er að samnýta í verkefni eins og þessu.

Það þarf ekki annað en að virkja hugarfarið til þess að verkið sé hafið og sagan hvíslar í hverju spori.

Höfundur er sölufulltrúi.