Eftir bankahrunið íslenska skrifaði bandaríski hagfræðingurinn Anne Sibert grein í veftímaritið Vox, sem styrkt er af Evrópusambandinu. Þar hélt hún því fram að Ísland kynni að vera of lítil stjórnunareining.

Eftir bankahrunið íslenska skrifaði bandaríski hagfræðingurinn Anne Sibert grein í veftímaritið Vox, sem styrkt er af Evrópusambandinu. Þar hélt hún því fram að Ísland kynni að vera of lítil stjórnunareining. Hin mikla fjölgun sjálfstæðra smáríkja væri ekki nauðsynlega æskileg. Sibert nefndi ýmis sjónarmið þessu til stuðnings. Ein voru að líklega krefðist sjálfstæði ríkis sérhæfðara starfsfólks í stjórnsýslu en hér væri völ á. Hinn fjölhæfi Davíð Oddsson væri dæmi. Hann hefði verið útvarpsmaður, höfundur leikrita, borgarstjóri og forsætisráðherra en þegar hann hefði orðið seðlabankastjóri hefði komið í ljós að hann hefði ekki haft neina sérþekkingu á bankamálum. Hann virtist hafa verið tómlátur um aðsteðjandi vanda.

Ég sat í bankaráði Seðlabankans í bankastjóratíð Davíðs og get borið vitni um það að hann var allt annað en tómlátur um aðsteðjandi vanda. Þótt hann yrði starfs síns vegna að fara gætilega var hann afdráttarlaus í einkasamtölum, en sagði til dæmis á fundi Viðskiptaráðs 6. nóvember 2007: „Við erum örugglega við ytri mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma.“ Ekki var hlustað á viðvaranir hans.

Hvað um almenn sjónarmið Sibert? Þau eru að því leyti bersýnilega rétt að stórþjóðir geta oftast gengið að fleiri hæfileikamönnum vísum en smáþjóðir. En skilar það sér nauðsynlega í betri stjórnsýslu stórþjóðanna? Leggja fleiri hæfileikamenn þar hlutfallslega fyrir sig stjórnsýslu en með smáþjóðum? Hvaða seðlabankastjórar stórþjóðanna sáu til dæmis fyrir lánsfjárkreppuna 2007-2009? Ég veit ekki um neinn. Yfirmenn mikilvægra opinberra stofnana eins og seðlabanka þurfa aðallega að vera lífsreyndir og þroskaðir, geta komið fram af öryggi og festu, tekið óvæntum áföllum af æðruleysi og skilið aðalatriði frá aukaatriðum. Þar koma gott tímaskyn, mannþekking, glöggskyggni og dómgreind sér betur en færni í að leysa stærðfræðiþrautir. Margra ára stjórnarforysta er miklu betri undirbúningur undir slíkt starf en nokkur námskeið í peningahagfræði.

Sibert talaði af lítilsvirðingu um það að Davíð Oddsson hefði fengist við margt en ekki sérhæft sig í neinu. En það hefur frekar verið talið forystumönnum til lofs en lasts ef þeir hafa verið fjölhæfir og nægir að minna á Winston Churchill, hermann, rithöfund og listmálara, og Tómas Jefferson, heimspeking og húsameistara. Ástæðan er auðvitað að fjölbreytt reynsla veitir mönnum yfirsýn. Fáir voru raunar fjölhæfari og skiptu sér víðar en John Maynard Keynes. Telur Sibert hann hafa verið verri hagfræðing fyrir vikið?

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is