Helga Ólafsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 12. ágúst 1930. Hún lést á dvalarheimilinu Hraunbúðum í Vestmannaeyjum 2. maí 2016.

Helga var dóttir hjónanna Jónínu Pétursdóttur frá Blómsturvöllum á Eyrarbakka, f. 31. ágúst 1906, d. 20 mars 1994, og Ólafs Ragnars Jónssonar frá Háagarði, f. 11. ágúst 1903, d. 4. nóvember 1979. Helga átti eina systur, Elínu Ólafsdóttur, f. 21. apríl 1927, d. 23. maí 1990. Helga giftist Sigmund Jóhannssyni fv. teiknara Morgunblaðsins, árið 1952. Þau eignuðust tvo syni, þá Ólaf Ragnar Sigmundsson, f. 25. maí 1952, og Hlyn Bjarklund Sigmundsson, f. 20. febrúar 1970. Barnabörn Helgu eru fimm og barnabarnabörn sjö. Helga og Sigmund bjuggu á Brekastíg 12 allan sinn búskap, en þau voru gift í 60 ár. Sigmund lést 19. maí 2012. Síðust árin bjó Helga á dvalarheimilinu Hraunbúðum í Vestmannaeyjum, þar sem hún lést.

Útför Helgu fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 14. maí 2016, klukkan 14.

Minningar. Mikið er gott að eiga minningar, góðar minningar, það er einmitt það sem ég á um hana Helgu mína.

Mörg sumrin átti ég á Brekastígnum í góðu yfirlæti hjá ömmu og afa, allt frá barnæsku til unglingsáranna og þar bjuggu líka Helga og Simmi og Óli allir í góðri sátt og samlyndi, seinna fæddist þeim svo hann Hlynur sem var aldeilis kærkomin viðbót í fjölskylduna.

Helga var frábær kona, hún var einlæg en ekki feimin við að segja sínar skoðanir. Frábærar eru í minningunni afmælisveislurnar í Eyjum, súkkulaðið borið fram í postulínskönnu og miklar hnallþórur bakaðar sem Simmi skreytti af mikilli snilld, eða þjóðhátíðin þegar hústjaldinu var tjaldað og koffortið fyllt með bakkelsi, ég get endalaust sótt mér góðar minningar.

Helga og Simmi hugsuðu vel um gamla fólkið í fjölskyldunni og eiga þakkir skilið fyrir það.

Það var einhvern veginn með þær systurnar mömmu og Helgu að það var allt svo vel gert hjá þeim, matargerðin, handavinnan garðarnir þeirra og blómin, allt var svo fallegt.

Helga hefur kvatt þennan vettvang og haldið ferð sinni áfram sæl og sátt við líf sitt hér og á hún þökk mína skilið fyrir allt það góða sem hún skildi eftir í sjóði minninga minna. Guð geymi góða konu.

Við Eddi sendum Óla, Hlyn og fjölskyldum þeirra okkar samúðarkveðjur. Þín systurdóttir,

Steinunn H.

Guðbjartsdóttir.