Tekjur hugbúnaðarfyrirtækisins Tempo, eins af dótturfélögum Nýherja, jukust á fyrsta fjórðungi þessa árs um 40% miðað við sama tímabil í fyrra. Er vöxturinn reiknaður í Bandaríkjadölum en tekjur fjórðungsins námu rúmlega 3 milljónum dollara.

Tekjur hugbúnaðarfyrirtækisins Tempo, eins af dótturfélögum Nýherja, jukust á fyrsta fjórðungi þessa árs um 40% miðað við sama tímabil í fyrra. Er vöxturinn reiknaður í Bandaríkjadölum en tekjur fjórðungsins námu rúmlega 3 milljónum dollara. Þá nemur tekjuvöxturinn 20% í samanburði við síðasta ársfjórðung 2015.

Tekjur Tempo á fyrsta fjórðungi ársins nema 393 milljónum króna en líkt og Morgunblaðið hefur áður greint frá námu heildartekjur félagsins á árinu 2015 1.218 milljónum króna. Fól það í sér 65% tekjuaukningu frá árinu 2014. Tekjuaukninguna má að mestu leyti rekja til meiri sölu á viðskiptavinaleyfum og góðu gengi í skýjaþjónustu.

Um 99% tekna Tempo koma erlendis frá og eru Bandaríkin, Þýskaland og Bretland stærstu markaðirnir fyrir vöru og þjónustu fyrirtækisins.