Valdimar Kristján Jónsson fæddist 20. ágúst 1934. Hann lést 5. maí 2016.

Útför Valdimars fór fram 13. maí 2016.

Valdimar K. Jónsson góður vinur, félagi og samstarfsaðili er fallinn frá, en það gerðist síðastliðinn uppstigningardag.

Af því tilefni er við hæfi að minnast á nokkur atriði af okkar kynnum.

Það var í september 2007 sem við hófum það verkefni með norskum fjárfestum að undirbúa framleiðslu á litlum jarðvarmavirkjunum, 5 MW að stærð. Fjárfestingin var ákveðin á fundi í Osló milli jóla og nýárs 2007 og skömmu síðar var stofnað norskt/íslenskt fyrirtæki um hugmyndina, Green Energy Group AS (GEG) með höfuðstöðvar í Osló og útibú á Íslandi. Í Osló átti að útvega fjármagn, en stunda nýsköpun og þróun á Íslandi.

Okkar fyrstu kynni af Valdimari voru í janúar 2008 á fundi hjá Heilsustofnun í Hveragerði þar sem hann dvaldist með konu sinni, þeim til heilsubótar. Hann var þá kominn á eftirlaun og orðinn professor emeritus við Háskóla Íslands, en ákvað samt að hitta okkur og heyra um hinar nýju hugmyndir. Þar sem við sátum þarna yfir heilsuteinu tók hann að sér og án þess að hika að verða ráðgjafi í verkefninu.

Valdimar kom með mikla og nauðsynlega þekkingu inn í verkefnið, en hann var með mikla reynslu á þessu sviði og hafði verið prófessor í vélaverkfræði við Háskóla Íslands í 32 ár, eða frá 1972 til 2004. Sérsvið hans var varmafræði, sem hefur hagnýtt gildi fyrir virkjanir og þá sérstaklega jarðvarmavirkjanir á Íslandi. Hann hafði einnig komið að virkjun margra háhitasvæða, frá Kröflu- til Hellisheiðarvirkjunar.

Við áttum marga Skype-fundi við samstarfsaðila í Noregi og á Indlandi, en Valdimar mætti ávallt samviskusamlega. Við fórum meðal annars í eftirminnilega söluferð til Filippseyja í mars 2010 með viðkomu í verksmiðju okkar í Bangalore á Indlandi og þar slóst indverskur samstarfsaðili í för með okkur. Það er töluvert mál að selja jarðvarmavirkjanir, sem kunnugt er.

Síðan hefur margt gerst. Búið er að reisa nokkrar virkjanir í Kenýja, samtals 90 MW, höfuðstöðvarnar hafa verið fluttar frá Osló til London og nafni fyrirtækisins breytt í Green Energy Geothermal ltd.

Síðan settum við í gang annað nýsköpunarverkefni í líftækni og var uppbygging þess enn í undirbúningi þegar Valdimar yfirgaf okkur.

Það hefur loðað við verkfræðinga að þeir séu seinir til ákvarðana og vilji ávallt skoða málin aðeins betur. Þeir kunni ekki að hætta að athuga og byrja að ákveða. Þetta vafðist ekki fyrir Valdimari og var hann fljótur að sjá í gegnum hlutina, skilja aðalatriðin og hvenær ætti að taka ákvörðun. Þess vegna fékk hann viðurnefnið „Valdi kaldi“. Við notuðum það jafnan í hans viðurvist og hafði hann bara gaman af.

Valdimar var drengur góður en á bókum segir að í orðinu drengskapur séu einkum fólgnir eiginleikar sem auðkenna góðan mann: hugrekki, einurð, æðruleysi, hreinlyndi, sanngirni, réttlæti, göfuglyndi, orðheldni, tryggð og samúð með þeim sem minna mega sín. Eðli drengskapar er svo farið að um hann má hæglega fjalla í sömu andrá og vináttu. Við erum afskaplega þakklátir Valdimari fyrir vináttu við okkur.

Skúli Jóhannsson,

Hákon Skúlason.

Okkur hefur borist fregn um að Valdimar K. Jónsson, lærimeistari hinna norrænu hitaveiturannsókna, sé fallinn frá, 81 árs að aldri. Valdimar gaf hitaveiturannsóknum á Íslandi nýja mynd þegar hann var í fararbroddi í þátttöku Íslendinga í hitaveiturannsóknaverkefni Norrænu ráðherranefndarinnar, sem hófst á árinu 1985. Valdimar hafði gott lag á að nýta það sem hitaveiturannsóknarverkefnið bauð upp á, sem má sjá á þeim fjölda innlendra og erlendra styrkþega sem hann vísaði veginn, – margir af þeim eru prófessorar í dag. Starf Valdimars gagnaðist ekki bara Íslandi og Íslendingum. Hann laðaði unga og hæfileikaríka vísindamenn og konur í hitaveitugeiranum til Íslands til þess að kynnast vísindalega áhugaverðum þáttum hinnar íslensku hitaveitutækni. Þó að það gæfi honum hlutverk hins vísindalega lærimeistara, vanrækti hann ekki að sýna íslenskt landslag og fræða um íslenska náttúru, menningu og sögu. Við erum mörg sem minnumst Valdimars í dag með lotningu og þakklæti fyrir framúrskarandi ævistarf hans.

Með kveðju frá vinum og félögum í hitaveiturannsóknarverkefni Norrænu ráðherranefndarinnar.

Lennart Thörnqvist, Lundi,

Rolf Ulseth, Þrándheimi,

Carl-Johan Fogelholm,

Helsingfors, Janusz

Wollerstrand, Lundi,

Svend Frederiksen,

Lundi og Kaupmannahöfn.

Það var framsóknarmönnum í Reykjavík mikill fengur þegar Valdimar Kr. Jónsson valdist til forystustarfa í okkar röðum. Valdemar hafði flesta þá kosti til að bera, sem farsælan leiðtoga mega prýða. Hann var myndarlegur á velli, hafði aðlaðandi framkomu og góða nærveru, ræðumaður góður og átti auðvelt með að ná eyrum viðmælenda sinna. Þó var hitt mest um vert að menntun hans og vitsmunir tryggðu honum og skoðunum hans framgang þar sem hann beitti sér. Valdimar var farsæll formaður í fulltrúaráði/kjördæmaráði framsóknarmanna í Reykjavík auk þess sat hann í miðstjórn flokksins um árabil.

Sjálfstæðismenn höfðu nánast verið einráðir um málefni höfuðborgarinnar nær óslitið um áratuga skeið og skiljanlega undum við, fulltrúar þeirra flokka sem áhrifalitlir höfðu verið í borgarstjórn kjörtímabil eftir kjörtímabil, illa þessari stöðu. Fjölmörg verkefni voru unnin með hætti sem okkur þótti óviðunandi og vildum gera betur og töldum okkur geta það. Þegar dró að sveitarstjórnarkosningum árið 1994 var ákveðið að kanna meðal liðsmanna flokkanna í minnihluta í borgarstjórn hvort grundvöllur væri fyrir sameiginlegu framboði og samstarfi næsta kjörtímabil. Mál þróuðust á þann veg að á afar minnisstæðum fundi gerði Valdimar tillögu um uppröðun á sigurstranglegum framboðslista og var hann síðar samþykktur nánast óbreyttur. Reykjavíkurlistinn fékk tækifæri til að hrinda í framkvæmd ýmsum framfaramálum. Hjartfólgin er mér einsetning grunnskólans, stækkun nær allra grunnskólabygginga borgarinnar, efling leikskólanna og átak í jafnréttismálum. Fjölmörg önnur merk málefni fengu framgang sem gerðu góða borg að enn betri borg. Valdimar Kr. var oftast kvaddur til starfa fyrir flokk okkar í samstarfi Reykjavíkurlistans þegar um vandasöm úrlausnarefni var að ræða. Fjölþætt þekking hans og lagni í mannlegum samskiptum ásamt sanngirni gerðu úrræði hans gildandi um mörg álitamál. Þetta samstarf fjögurra stjórnmálaafla sem Valdimar átti drjúgan þátt í að móta var farsælt, sérstaklega fyrstu árin, þótt síðar slitnaði upp úr því.

Þótt Valdimar hætti embættisstörfum og léti af forystu í flokksmálum okkar framsóknarmanna var áhugi hans og hugkvæmni sívakandi, einkum um tæknileg úrlausnarefni. Síðastliðið sumar kynnti hann fyrir mér í ráðuneytinu framsæknar hugmyndir um orkuvinnslu í framtíðinni – orku unna að mestu úr súrefni og vatni. Sannfærðist ég þá um að ennþá væri sýn hans gleggri en flestra samferðamanna okkar.

Valdimar var sá gæfumaður að eignast Guðrúnu Sigmundsdóttur fyrir konu og áttu þau fjögur mannvænleg börn.

Ég minnist þessa vinar og samstarfsmanns með miklu þakklæti og djúpri virðingu. Blessuð sé minning Valdimars Kr. Jónssonar.

Sigrún Magnúsdóttir.

Valdimar K. Jónsson var minn velgjörðarmaður. Hann kenndi mér varmafræði fyrir fjörutíu árum, grein sem hefur verið viðfangsefni mitt alla tíð síðan. Hann réði mig til starfa við Háskóla Íslands, þar sem ég vann í nærri þrjátíu ár. Og hann kom mér í gegnum doktorspróf, sem var alls ekki þrautalaust.

Ég heyrði fyrst af Valdimar þegar ég var strákur í menntaskóla. Kári mágur minn var með honum í „Lundúnaklúbbnum“ og sagði mér af þessum langskólagengna manni sem kunni svo mikið. Tilviljun réði því að ég fór að læra vélaverkfræði, og varð ég þá nemandi Valdimars.

Valdimar var í svokallaðri „svartolíunefnd“ á þessum árum. Ég vann sumarið 1976 fyrir Valdimar við að kanna hvort hægt væri að brenna svartolíu í litlum húshitunarkötlum. Valdimar skrifaði upp á persónulegan víxil til að fjármagna vinnuna þar til næðist í styrki, en slíkt var á þeim árum hluti af starfi prófessors. Þarna kynntist ég getu Valdimars til þess að halda þráðunum í hendi sinni, nota tengslanet sitt til hins ýtrasta og berjast á mörgum vígstöðvum á sama tíma.

Mörgum árum síðar hitti ég Valdimar – á barnum á Kastrup-flugvelli. Hann var að koma heim með styrk fyrir doktorsverkefni í hitaveitufræðum. Valdimar var ekki mikið fyrir málalengingar og langar umræður – í stuttu máli sagt var ég ráðinn þarna á barnum. Þarna byrjaði samvinna og samstarf sem átti eftir að endast allt til þess að hann dró sig í hlé frá Háskóla Íslands tveimur áratugum síðar.

Hitaveiturannsóknarverkefni Norrænu ráherranefndarinnar var merkilegt fyrirbæri. Þarna var okkur ungað út hverjum af öðrum með doktorspróf. Á öld telexsamskipta og gagna á pappír, fyrir tíma tölvupósts og internets voru samskiptin við aðra norræna háskóla og aðra doktorsnema í hitaveituverkefninu ómetanleg. Þessi vinna hans í hitaveituverkefninu gerði hann þekktan á Norðurlöndunum og varð til þess að honum var síðar veitt heiðursdoktorsnafnbót við Háskólann í Lundi, fyrstum Íslendinga.

Valdimar hafði gífurlega stórt tengslanet. Hann var laginn að sækja verkefni til Háskólans, sem var mikilvægt, því opinberar fjárveitingar voru rýrari þá en þær eru í dag. Þannig varð Háskólinn að sækja verkefni til atvinnulífsins – og um leið sannfæra atvinnulífið um að það væri eitthvað gagn í okkur háskólamönnunum. Valdimar var mjög virkur í fræðilegum rannsóknum áður en hann kom til Háskóla Íslands og það varð til þess að hann gat brúað bilið milli hreinvísindamannanna og okkar hinna sem vildum vinna nær atvinnulífinu.

Síðasta spjall okkar var fyrir hálfu ári. Þá var hann eins og alltaf uppfullur af hugmyndum um nýsköpun og ný tækifæri. Það var eins og ég væri að ræða við ungan mann á leiðinni út í lífið.

Ég á Valdimar mikið að þakka. Hann var minn velgjörðarmaður og í raun gerði mig að því sem ég er í dag. Það er ekki hægt að þakka fyrir slík með orðum.

Með þakklæti og innlegum samúðarkveðjum til fjölskyldu Valdimars.

Páll Valdimarsson.

Ekki hvarflaði að mér að samtal okkar Valdimars K. Jónssonar fyrir fáeinum vikum yrði síðasta samtal okkar, enda bar hann sig vel að venju og hafði margt á prjónunum.

Þegar litið er í baksýnisspegilinn er margs að minnast og ótrúlega mörg verkefni, sem hann fékkst við fyrir utan kennslu við Háskóla Íslands. Tvennt vil ég nefna. Annars vegar aðkomu hans að R-listanum í Reykjavík og hins vegar uppbyggingu Nesjavallavirkjunar og Hellisheiðarvirkjunar.

Valdimar K. Jónsson var í gamni og alvöru nefndur guðfaðir R-listans, sem bauð fyrst fram í borgarstjórnarkosningum 1994. Valdimar var formaður fulltrúaráðs Framsóknarfélaganna í Reykjavík og hafði sem slíkur hlutverki að gegna við þá vinnu, sem þurfti til að ná ólíkum flokkum saman. Þar tók hann forystu og eftir nokkra töflufundi verkfræðiprófessorsins féllust menn á röksemdir hans og R-listinn varð til.

R-listinn stjórnaði borginni næstu þrjú kjörtímabil og lagði sjálfan sig niður að því loknu. Á því tímabili voru stigin risaskref í uppbyggingu fræðslu- og leikskólamála, félagsmála og orkumála, svo að eitthvað sé nefnt. Var fjárhagur borgarinnar traustur og er óhætt að fullyrða, að 12 ára samvinna félagshyggjuafla hér á landi hafi sjaldan heppnast betur.

Þegar kom að orkumálum var Valdimar á heimavelli. Vélaverkfræðingurinn hafði sterkar skoðanir á því hvað Reykvíkingar ættu að gera í þeim málum. Hafði hann frumkvæði að því að ráðist var í virkjun raforkuvers á Nesjavöllum og var síðan formaður stýrihóps Orkuveitu Reykjavíkur um byggingu Hellisheiðarvirkjunar.

Þessi tvö mannvirki eru dýrmætustu eignir Orkuveitu Reykjavíkur og mala eigendum sínum gull nótt sem nýtan dag, auk þess að tryggja Reykvíkingum örugga og ódýra orku um langa framtíð.

Við leiðarlok vil ég þakka Valdimar samfylgdina. Það var gott að eiga hann sem vin og samherja.

Hugurinn hvarflar líka til eiginkonu hans, Guðrúnar Sigmundsdóttur, sem lést fyrir fjórum árum. Hún var frábær samstarfsmaður minn til fjölda ára.

Blessuð sé minning þessara heiðurshjóna.

Alfreð Þorsteinsson.

Sá ágæti maður og prófessor við Háskóla Íslands, Valdimar K. Jónsson, hefur nú kvatt okkur.

Þegar ég var að hefja feril minn í Háskóla Íslands í upphafi níunda áratugarins var Valdimar þegar orðinn þar prófessor og vaxandi áhrifamaður. Örlögin höguðu því svo að götur okkar lágu talsvert saman næstu áratugina, ekki síst á sviði rannsókna en einnig í þeim málum sem lutu að stjórnun skólans og þróun hans. Naut ég þar, eins og svo margir aðrir, aðstoðar hans og hollrar leiðsagnar.

Valdimar var prófessor eins og prófessorar eiga að vera. Hann var afkastamikill vísindamaður, góður og vinsæll kennari og lagði mikið af mörkum til stjórnunar og uppbyggingar Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum var Valdimar jafnvígur á tæknilega greiningu vandamálanna og hagnýtingu fræðanna í þágu lands og þjóðar. Hann tók til dæmis ríkan þátt í mörgum hitaveitu- og orkuverkefnum. Fræg er aðkoma hans að vatnskælingu hraunsins í Heimaeyjargosinu árið 1973 sem hann hafði yfirumsjón með. Hann sinnti kennslu og stúdentum af alúð. Hann tók meira að segja að sér viðamikil verkefni fyrir Félagsstofnun stúdenta. Hann hafi mikil afskipti af stjórnun og þróunarmálum fyrir háskólann, sat m.a. í háskólaráði og fjölmörgum nefndum skólans. Hann var einnig virkur í félags- og hagsmunastarfi háskólamanna og m.a. formaður BHM um árabil.

Umfram allt annað var Valdimar góður maður. Það var ávallt gott að eiga hann að. Hann var ætíð boðinn og búinn að veita aðstoð eftir megni. Hann var jákvæður, hugmyndaríkur og ráðhollur. Þá var hann mannsættir mikill og fara af því margar sögur. Ísland er fátækara að honum gengnum.

Ragnar Árnason.

Valdimar var vinur minn. Hann var áralangt samstarfsmaður við uppbyggingu Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands. Hann var einstakur maður, gáfaður en um leið afar praktískt þenkjandi og mjög eljusamur í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur. Í mannlegum samskiptum var hann hlýr, umhyggjusamur, umgekkst alla sem jafningja og ávann sér traust og virðingu þeirra sem honum kynntust.

Um ævistarf hans og árangur sem kennari og vísindamaður munu aðrir vitna, en mér sýndist hann sífrjór með báða fætur í fræðunum. Sem stjórnarformaður Endurmenntunarstofnunar á uppbyggingartímum var hann ekki síðri. Studdi við bakið á starfsfólki, lagði til víðtæk tengsl sín inn í stétt og starfsemi verkfræðinga og það sem reyndist stofnuninni hvað dýrmætast var heimild til að reisa hús fyrir starfsemina á háskólasvæðinu í gegnum frumskóg nefnda og hagsmunaaðila í háskólakerfinu. Hús sem hann vissi að myndi til lengri tíma skipta sköpum fyrir starfsemina í húsnæðisþrengslum Háskólans, sem óx mjög hratt á þessum árum, rétt eins og starfsemi Endurmenntunarstofnunar. Valdimar fór um kerfið og sansaði mann og annan, enda ekki bara samkeppni um húsnæðið sem fyrir var á svæðinu heldur einnig byggingasvæði. Við Valdimar göntuðumst stundum með að það tók okkur sex ár að koma byggingarheimild í gegnum háskólakerfið, þrátt fyrir að byggt yrði fyrir sjálfsaflafé, en eitt ár að reisa húsið.

Stundum var ég að því komin að gefast upp. Valdimar var aldrei á því og lagni hans og úthald skipti sköpum, þó að sjálfsögðu hafi aðrir lagt lið, einkum rektorar skólans á tímabilinu, þeir Sigmundur Guðbjarnason og Sveinbjörn Björnsson og framkvæmdastjóri Tæknigarðs Rögnvaldur Ólafsson dósent, annar víðsýnn raunvísindamaður. Húsið reis og var opnað árið 1998 og hefur síðan hýst mikilsverða viðbót við almenna starfsemi Háskólans. Þúsundir njóta í húsinu á hverju ári fræðslu framúrskarandi kennara og fræðimanna.

Okkar leiðir lágu einnig saman í pólitíkinni, sem stuðningsfólk Reykjavíkurlistans frá árinu 1994. Þar reyndi ekki síður á lagni Valdimars og það að geta byggt upp traust milli ólíkra aðila. Auðvitað komu þar margir að, en það er ekki að ófyrirsynju að Valdimar var af mörgum nefndur guðfaðir samstarfsins.

Hér er því genginn merkur maður sem hafði mikil áhrif, hvar sem hann starfaði, á sinn hógværa og óeigingjarna hátt.

Mér þótti afar vænt um hann og er honum þakklát fyrir okkar samstarf. Afkomendum hans sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Margrét Sigrún

Björnsdóttir.

Við sátum saman á Aski í hádeginu nokkur bekkjarsystkin eins og við höfum gert mánaðarlega í næstum fjögur ár. Þá barst sú frétt að Valdimar ætti sennilega aðeins nokkra klukkutíma ólifaða. Þetta var óvænt högg. Aðeins mánuði áður hafði Valdi mætt, að venju hress og glaður. Með sinni alkunnu gamansemi sagðist hann hafa verið að stríða lækninum sínum og spyrja hann um þegar tvö líffæri væru biluð,hvort þeirra væri þá orsök að bilun hins. Fátt hefði verið um svör.

Valdi hafði einmitt haft forgöngu um að þeir sem tök hefðu á, úr stúdentsárgangi 1954 frá MA, hittust mánaðarlega. Enda var hann afar félagslyndur. Þessi árgangur var mjög fámennur, 34, eftir óvægið strandhögg Landsprófsins, sem þá gilti í fyrsta sinn um inntöku í þriðja bekk MA. Árgangurinn var nokkuð sérstæður, enda stundum nefndur Undri. Valdi, ásamt fleiri öndvegismönnum úr Gagnfræðaskólanum á Ísafirði, las þriðja bekk utan skóla og kom í fjórða bekk MA. Þriðjungur þessa fámenna árgangs hefur á 62 árum horfið á braut.

Við Valdi áttum nána samleið í níu ár, fyrst þrjú ár í MA og næst þrjú ár í Verkfræðideild HÍ. Við skemmtum okkur oft saman og stundum lásum við saman undir próf, en hann var afburðanámsmaður í raungreinum. Þar sem við höfðum báðir valið vélaverkfræði þurftum við að vinna ákveðinn tíma á vélaverkstæðum. Á þessum tíma þurfti að vinna sér inn fyrir vetrinum á sumrin, því engin voru námslánin.

Við gerðum tilraun eitt sumarið til að sameina þetta með vinnu á verkstæði, þar sem von var um mikla vinnu á Keflavíkurvelli. Þessi von brást en við unnum þarna um sumarið, Valdi á renniverkstæði en ég á málmsteypuverkstæði. Við skemmtum okkur þá við að hnoða saman vísur fyrir verkstæðisformenn okkar, sem áttu í erjum innbyrðis, uns hitnaði í kolunum og verkstjórinn bað okkur að hætta yrkingum.

Næst tóku við tvö og hálft ár í seinni hluta náms í Kaupmannahöfn. Þar nutum við Kristín kona mín oft gestrisni hjá Valda og Lillý, en svo var Guðrún kona hans ætíð kölluð. Þau höfðu erft leiguíbúð, sem Þorvarður bróðir Valda hafði haft í námi sínu, en húsnæðisskortur var mikill. Við spiluðum þá m.a. gjarna brids. Síðasta árið völdum við báðir kælitækni sem sérgrein og unnum lokaritgerð saman, sem var hönnun á íslensku frystihúsi.

Þegar við vorum að ljúka náminu í ársbyrjun 1960, bárust okkur bréf frá kennara okkar Leifi Ásgeirssyni formanni Stærðfræðafélagsins, þar sem okkur var boðin vinna í þrjá mánuði við Regnecentralen, sem hafði smíðað fyrstu dönsku tölvuna DASK. Þetta var að undirlagi Gunnars Böðvarssonar verkfræðings, sem fyrstur manna hér á landi kom auga á möguleika hinnar nýju tölvutækni. Að því loknu fluttum við heim og unnum um sumarið hjá Gunnari á Raforkumálaskrifstofunni.

Um haustið skildu leiðir um sinn, er Valdi hélt til Bandaríkjanna til framhaldsnáms

Eftir þessa löngu samleið get ég með sanni sagt að Valdi reyndist ávallt traustur félagi og sannur vinur. Við Kristín sendum öllum aðstandendum Valda okkar einlægustu samúðarkveðjur

Helgi Sigvaldason.

Fallinn er frá einn af frumkvöðlum vélaverkfræðimenntunar á Íslandi, prófessor Valdimar K. Jónsson. Undirritaður var einn af þeim fjölmörgu sem áttu því láni að fagna að kynnast Valdimar, bæði sem kennara en síðar sem samstarfsmanni. Valdimar var vel liðinn kennari sem var vel heima í faginu og hafði af mikilli reynslu að miðla. Valdimar gegndi mörgum stjórnunar- og trúnaðarstörfum innan Háskóla Íslands sem utan, svo mörgum í raun að ekki er hægt að telja þau upp í stuttri grein sem þessari.

Eitt af því sem Valdimars verður minnst fyrir er hans stóri þáttur við að koma á fót framhaldsnámi í verkfræði við Háskóla Íslands. Var hann leiðbeinandi bæði fyrsta meistaranemans og fyrsta doktorsnemans í verkfræði sem luku prófi frá háskólanum. Hin síðari ár var Valdimar virkur í norrænu samstarfi á sviði orkurannsókna og sat hann í hitaveitufagráði norrænu orkurannsóknaáætlunarinnar um árabil. Þau störf hans áttu þátt í því að hann var kjörinn heiðursdoktor frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð árið 1998.

Valdimar hvatti og studdi marga unga verkfræðinga til doktorsnáms við norræna háskóla, einkum á sviði hitaveitna og jarðhitanýtingar og átti þannig mikilvægan þátt í áframþróun greinarinnar.

Við hjónin þökkum Valdimar fyrir samfylgdina og þann stóra þátt sem hann átti á þroskabraut okkar og sérhæfingu innan verkfræðinnar. Við sendum afkomendum og aðstandendum hans okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Ólafur Pétur Pálsson,

forseti iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideildar Háskóla

Íslands, og Ragnheiður

Inga Þórarinsdóttir.