Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Eftir Einar Sveinbjörnsson: "Ég bið menn ekki um annað en að flana ekki að neinu í flýti, það er ekkert víst að Mývatn blómstri á ný þó manninum og athöfnum hans verði alfarið úthýst úr sveitinni."

Mér eins og fleirum var nokkuð brugðið við að heyra af því að lífríki í Mývatni væri um þessar mundir í hættu. Vistkerfi Mývatns er ofurviðkvæmt eins og við vitum, við bestu aðstæður er það einstakt á heimsvísu, en þess á milli er eins og dragi fyrir sólu og blábakteríur taka yfir. „Leirlosið“ eins og Mývetningar sjálfir kalla blómann hefur fylgt Mývatni um aldir.

Er skólpið að drepa vatnið?

Ég stóð sjálfan mig að þeim hugsunum að nú stefndi í óefni. Næringarefni frá vaxandi byggð og ferðafólki væru orðin það mikil að Mývatn væri hratt og örugglega að breytast í skólpsúpu. Forvitnin rak mig af stað og ég vissi af merkri bók í hillunni hjá mér um náttúru Mývatns frá 1991. Hún hefur að geyma undirstöðugreinar um vistkerfi og næringarefnabúskap vatnsins. Í Mývatn rennur grunnvatn undan hraunum langt að komið og einnig heitar lindir. Innrennsli er einkar næringarríkt og með því er átt við þá efnaþrennu sem þarf fyrir blómlega ljóstillífun í vatni eða sjó. Þ.e. fosfór, nítrat (köfnunarefni) og kísil. Kísillinn berst til vatnsins í mjög ríkum mæli og skortir aldrei. Hér snýst málið hins vegar um fosfór og nítrat. Fyrstu mælingar um 1970 bentu til þess að innflæði fosfórs og köfnunarefnis væri í hlutfallinu 1,5 gr á móti 1,9 gr. á hvern fermetra Mývatns ár hvert.

Undirstaðan í öllu lífríki Mývatns eru nokkrar tegundir svifþörunga en þeir dafna helst þegar köfnunarefni og fosfór eru í hlutföllunum 7:1. Framboð köfnunarefnis er því takmarkað samanborið við fosfórinn og getur hæglega hamlað fjölgun þörunga. Það er ekki öll sagan, því næringarefni berast líka frá rotnandi lífverum á botni sem vindar og öldur róta upp í grunnu vatninu.

Bakteríublóminn og hvarf kúluskíts

Þá víkur sögunni að skaðvaldinum blábakteríunum eða anabaena eins og tegundin heitir á fræðimáli. Þörungarnir og bakteríurnar berjast um næringarefnin og sérstaklega köfnunarefnið sem vill ganga til þurrðar á sumrin. Einn þessara þörunga er grænþörungur sá sem myndar kúluskítinn á botni í Syðriflóa. Kúluskíturinn dafnar oftast vel þegar vatnið er tært og blábakteríurnar ná sér lítt eða ekki á strik. Menn hafa hins vegar fyrir löngu komist að því að fjölgun þeirra eða „leirlosið“ verður helst þegar þörungar hafa gengið svo á köfnunarefnið sem tekur að skorta um mitt sumar. Mikill fosfór en lítið nítrat er fjölgunarkokteill blágrænu bakteríanna. En nú flækist málið svo um munar. Anabaena er þeim eiginleikum gædd að geta unnið óbundið köfnunarefni úr andrúmsloftinu og breytt í nítrat og ammoníak. Í raun eru blábakteríurnar ekkert annað en áburðarverksmiðja sem tekur köfnunarefni úr loftinu og breytir í næringarefni! Í blómanum tekur, í eðlilegum árum, að skorta fosfór og offjölgun tekur enda. Svo mikið nítrat kemst hins vegar í umferð eftir blómann að talsverð frumframleiðsla getur haldist áfram í vatninu fram á haustið, einkum ef fosfór gruggast upp úr botni á sama tíma.

Ofauðgun eða skortur næringarefna?

Vandi síðustu ára er sá að blábakteríurnar hafa orðið yfirgæfandi og blóminn í fyrra hélst þannig meira og minna fram á haust. Á meðan líða svifþörungar skort og þar með allt vistkerfið sem byggist á þeim.

Allt byggist á framboði næringarefna, innbyrðis hlutfalli þeirra og kapphlaupi lægstu þrepa lífkerfisins um nýtingu þeirra. En höfum hugfast að í umræðunni hefur verið talað um ofauðgun næringarefna, en ekki skort. Að umsvif mannsins á margvíslegan hátt hafi aukið framboð næringarefnanna með þessum afleiðingum.

Maðurinn með 2% alls fosfórs í Mývatn

Næst rak á fjörur mínar nýja skýrslu sem unnin var fyrir umhverfis- og auðlindaráðuneytið; Mývatn – ákoma og afrennsli. Gunnar Steinn Jónsson höfundur hennar er virtur fræðimaður á sínu sviði. Hann leggur mat á ákomu næringarefna í Mývatn eftir uppruna. Auk lindarvatnsins er það áburðarnotkun á tún bænda í sveitinni og úrgangi manna er skipt á íbúa annars vegar og ferðafólk hins vegar. Einnig það sem berst frá umferð ökutækja og ekki síst það sem berst langt að m.a. með regni og snjó sem fellur á vatnið.

Skemmst er frá því að segja innrennsli fosfórs í Mývatn var áætlað (árið 2000) um 52 tonn á ári, megnið eða 51 tonn kemur með lindarvatninu. Landbúnaður, skólp og aðrir þættir bæta við 1 tonni eða um 2% af heildinni. Hvað köfnunarefnið áhrærir var ákoman 67 tonn með lindum. Landbúnaður lagði til 6 tonn og mannfólkið með sínum úrgangi um 3 tonn. Hins vegar var metið að köfnunarefnisframleiðsla blábakteríanna væri heil 200 tonn! Þessar tölur sýna glögglega að afrennsli sem beint er af völdum manna er hlutfallslega minniháttar og ætti trúlega í stóra samhenginu ekki hafa nein áhrif eða hvað ?

Árni Einarsson, forstöðumaður RAMÝ, hefur af langri reynslu sinni bent á tvær mögulegar ástæður hnignunar lífríkisins í vatninu. Annars vegar vegna hægfara aukningar á næringarefnum með fjölgun íbúa og ferðamanna. Önnur skýring gæti legið í loftslagsbreytingum. Mögulega samspili þessara þátta eins og raunin virðist vera með hnignun í vatnavistkerfum úti í heimi þar sem blábakteríur eru orðnar skaðvaldur.

Seinni haustkoma en áður var

Á Mývatni nær hækkandi sólin snemma vors að hefja ljóstillífun undir ísnum á vatninu. Eftir að ísa leysir upp úr miðjum í maí eða stundum ekki fyrr en í júní hitnar vatnið hratt. Vatnshitinn getur náð 12-15 stigum í júlí, en kólnar síðan ákveðið með lækkandi sólarhæð og lengri nóttum. Sólarljós og vatnshitinn eru vitanlega miklir áhrifaþættir á gangverk alls lífríkis og samspil viskerfis í Mývatni. Greiningar á samfelldum hitamælingum við vatnið allt frá 1923, lengst af í Reykjahlíð, benda ekki til þess að sumarhiti hafi hækkað svo nokkru nemi (júní til ágúst). Hins vegar, og það eru kannski öllu meiri tíðindi, þá virðist það vera svo að sumarið hefur heldur verið að lengjast. Eða öllu heldur er haustkoman seinni en áður var. Þetta er mjög greinleg þróun síðustu 55 ára og ekki rúm hér í stuttri blaðgrein að gera frekari grein fyrir henni. Mikill áramunur er á haustkomunni í Mývatnssveit. Að jafnaði verður hún í kring um 5. til 10. september, en seinni árin er stundum hlýtt alveg fram í október. Hér verður að hafa í huga að á þessum tímabili hefur veðurfar hlýnað samfara vel þekktri áratuga sveiflu hitans hér á landi. En hvernig lengri sumartíð fram í september kann að hafa áhrif á lífríki Mývatns er ókannað, að því að ég best veit.

Lokaorð

Alls ekki er víst að ákoma næringarefna vegna skólps hafi nokkur áhrif á lífríki Mývatns, en vissulega gæti hlutfall fosfórs og köfnunarefnis hafa raskast lítillega. Í mínum huga þurfa menn að vera vissir í sinni sök áður en farið verður að verja mörg hundruð milljónum króna í úrbætur á fráveitum í Mývatnssveit. Ekki er andmælt þeim framkvæmdum sem miða að auknu hreinlæti, en allt fráveituvatn þarf að flytja í burtu með ærnum tilkostnaði eigi að koma í veg fyrir að næringarefnin berist á endanum út í vatnið. Höfum hugfast að meðalmaðurinn skilar dag hvern frá sér 9 g af köfnunarefni og tæpum 3 g af fosfór. Skepnuhald þyrfti líka að takmarka og notkun áburðar, lífræns og tilbúins á bökkum vatnsins. Ég bið menn ekki um annað en að flana ekki að neinu í flýti, það er ekkert víst að Mývatn blómstri á ný þó manninum og athöfnum hans verði alfarið úthýst úr sveitinni. Ástæðurnar geta hæglega verið aðrar, en vissulega munu margir segja að nauðsynlegt sé að gera eitthvað. Þá liggur beinast við að ráðast að skólpi og áburði frá landbúnaði og vona í hjarta sínu að það dugi til að snúa þróuninni við.

Höfundur er veðurfræðingur.