[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hannes Hlífar Stefánsson, Héðinn Steingrímsson og Guðmundur Kjartansson unnu fremur lágt skrifaða andstæðinga í fyrstu umferð Evrópumóts einstaklinga sem hófst við góðar aðstæður í bænum Gjakova í Kosovo á fimmtudaginn.

Hannes Hlífar Stefánsson, Héðinn Steingrímsson og Guðmundur Kjartansson unnu fremur lágt skrifaða andstæðinga í fyrstu umferð Evrópumóts einstaklinga sem hófst við góðar aðstæður í bænum Gjakova í Kosovo á fimmtudaginn. Björn Þorfinnsson glímdi hinsvegar við einn af stigahæstu keppendum mótsins, Úkraínumanninn Jurí Kryvoruchko og gerði jafntefli með svörtu eftir 36 leikja hörkubaráttu. Hægt var að fylgjast með þessari viðureign á hinu vinsæla vefsvæði Chess24. Þessir fjórir eru fulltrúar Íslands á þessu sterka opna móti en keppendur eru 239 talsins. Tefldar verða ellefu umferðir.

Stigahæstu keppendur mótsins eru Tékkinn Navara, Pólverjinn Wojtaszek, Rússinn Vitiugov og Úkraínumaðurinn Ponomariov. Skákin er í hávegum höfð í Kosvop að sögn Gunnars Björnssonar, forseta SÍ, og kemur það m.a. til af því að evrópska skáksambandið var eitt af fyrstu íþróttasamtökunum til að viðurkenna Kosovo inn í sín samtök.

Biskupsfórnin á h7

Biskupsfórnin á h7 eða h2 er fyrirbrigði í skákinni sem flestir þokkalegir skákmenn kunna að forðast. Snillingur á borð við Mikhael Tal sat þó a.m.k. einu sinni „vitlausa megin“ borðsins þar sem fórnin kom við sögu er hann mætti Lev Polugajevskí. Síðar kom á daginn að Polu hafði bruggað launráð í félagi við Boris Spasskí sem var að undirbúa seinna heimsmeistaraeinvígi sitt við Tigran Petrosjan. Fórnin, fræðilega séð, magnast að áhrifum ef önnur fylgir á hliðarreitnum, g7 eða g2 eins og nokkur dæmi sanna. Séu skilyrðin sérstaklega góð nær fórnin að brjóta niður allar varnir. Útfærslan fylgir oft kunnuglegum leikbrögðum. Í rússnesku deildarkeppninni á dögunum þar sem athyglin beindist að áskorandanum Karjakin og hann var ekki að standa sig neitt sérstaklega vel en Kramnik hinsvegar í banastuði og annar harðskeyttur skákmaður Jan Neopmniachtchi kom biskupsfórnin snemma fyrir í skák sem Nepo tefldi við hinn unga Sjugirov. Sá er svo sem enginn veifiskati og getur státað af sigri yfir Magnús Carlsen í aðeins 25 leikjum:

Minsk 2016:

Jan Nepomniachtchi – Sanan Sjugirov

Petroffs vörn

1. e4 e5 2. Rf3 Rf6 3. Rxe5 d6 4. Rf3 Rxe4 5. c4 Be7 6. d4 0-0 7. Bd3 Rg5 8. Rc3 Bg4?

Þessi slaki leikur hefur sést komið nokkrum sinnum áður og enginn komið á auga á fléttuna sem leynist í stöðunni.

9. Bxg5! Bxg5

- sjá stöðumynd

10. Bxh7+! Kxh7 11. h4!

Þarna er hugmyndin komin fram. Hörfi biskupinn til h6 eða f6 kemur 12. Rg5+ og vinnur manninn til baka með vinnings stöðu. Best er sennilega 12. .. Bxh4 en svarta staðan er ekki gæfuleg eftir 13. Dd3+ Kg8 14. Hxh4 þó að engan rakinn vinnings sé að finna eftir 14.... f5.

11.... Bd2+

Kýs að gefa manninn til baka fyrir ekki neitt.

12. Dxd2 He8+ 13. Kf1 Bxf3 14. Dd3+ Kg8 15. Dxf3 Rd7 16. Hd1 Df6 17. Dxf6

Hvítur hefur ekkert á mót endatafli peði yfir. Úrvinnsla þessarar yfirburðastöðu vefst ekki fyrir honum.

17.... Rxf6 18. f3 d5 19. c5 b6 20. cxb6 axb6 21. Kf2 b5 22. a3 b4

Annars nær hvítur að skorða b-peðið með – Ra2.

23. axb4 Hab8 24. b5 c6 25. Hhe1 cxb5 26. Hxe8+ Hxe8 27. Hc1 Ha8 28. Rxb5 Ha4 29. Hc8+ Kh7 30. g4 Hb4 31. Rd6 Hxd4 32. Kg3

Fumlaus úrvinnsla hefur leitt til vinningsstöðu og Sjugirov gafst upp, f7-peðið er dæm til að falla og kóngsstaða svarts í molum.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is