Fögnuður Hanna Guðrún Stefánsdóttir, Þórhildur Gunnarsdóttir, Rakel Dögg Bragadóttir, Guðrún Erla Bjarnadóttir og Esther Viktoría Ragnarsdóttir og fleiri leikmenn Stjörnunnar fagna sætum sigri á Gróttu í þriðju viðureign liðanna um Íslandsmeistaratitilinn, 22:20. Næst mætast liðin í Garðabæ á morgun.
Fögnuður Hanna Guðrún Stefánsdóttir, Þórhildur Gunnarsdóttir, Rakel Dögg Bragadóttir, Guðrún Erla Bjarnadóttir og Esther Viktoría Ragnarsdóttir og fleiri leikmenn Stjörnunnar fagna sætum sigri á Gróttu í þriðju viðureign liðanna um Íslandsmeistaratitilinn, 22:20. Næst mætast liðin í Garðabæ á morgun. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Hjörvar Ólafsson hjorvaro@mbl.is Stjarnan strengdi líflínu í úrslitaeinvígi sínu við Gróttu í Olísdeild kvenna í handknattleik með 22:20 sigri sínum í þriðja leik liðanna í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi í gærkvöldi.

Handbolti

Hjörvar Ólafsson

hjorvaro@mbl.is

Stjarnan strengdi líflínu í úrslitaeinvígi sínu við Gróttu í Olísdeild kvenna í handknattleik með 22:20 sigri sínum í þriðja leik liðanna í Hertz-höllinni á Seltjarnarnesi í gærkvöldi.

Stjarnan sá þar til þess að liðið beið ekki lægri hlut í úrslitarimmunni fjórða árið í röð, en áður höfðu Valur, Fram og Grótta komið í veg fyrir að Íslandsmeistaratitillinn færi í Garðabæinn.

Það var ljóst að sama spilamennska Stjörnunnar og í Mýrinni í síðasta leik myndi þýða að Stjarnan þyrfti að horfa upp á andstæðinga sína hampa Íslandsmeistaratitlinum fyrir framan nefið á sér enn á ný.

Vikan var andlega erfið

Sólveig Lára Kjærnested, leikmaður Stjörnunnar, viðurkenndi að það hefðu átt erfitt með að festa svefn fyrstu næturnar eftir síðasta leik og skrefin hefðu verið nokkuð þung á fyrstu æfingarnar eftir skellinn. Leikmenn liðsins hefðu hins vegar ákveðið að snúa bökum saman og gefast ekki upp.

Sólveigu Láru Kjærnested var augljóslega létt þegar Morgunblaðið ræddi við hana að leik loknum. „Það var andlega erfit að vera 2:0 undir og það léttir gríðarlega á okkur að ná þessum sigri. Mér fannst við betri aðilinn í þessum leik og eiga sigurinn skilinn. Við þurfum þó að gera betur ef við ætlum að jafna metin í einvíginu á sunnudaginn,“ sagði Sólveig Lára kampakát. „Það var bæði erfitt að klára seinni hálfleikinn í síðasta leik eftir að hafa spilað svona illa og fyrsta æfingin eftir leikinn var líka mjög erfið. Ég var andvaka nokkrar nætur og gat ekki hætt að hugsa um hvað við vorum slakar,“ sagði Sólveig Lára um fyrstu dagana eftir slæman skell í annarri viðureigninni.

Ætlum ekki að fá annan skell

„Við náðum hins vegar að rífa okkur upp og við vildum ekki skilja við þessa úrslitakeppni með svona slakri frammistöðu. Við náðum sem betur fer að svara á besta mögulega máta með því að spila vel og ná að knýja fram sigur,“ sagði Sólveig Lára um leik liðsins í gærkvöld.

„Mér fannst meiri krafur og áræði í liðinu og við spiluðum klárlega betri vörn að þessu sinni. Okkur finnst ekkert sérlega gaman að láta rassskella okkur á okkar eigin heimavelli og ætlum því ekki að láta það koma fyrir aftur,“ sagði Sólveig Lára um framhaldið í einvíginu.