Íþróttamaður ársins Eygló Ósk Gústafsdóttir vann titilinn eftirsótta í fyrra.
Íþróttamaður ársins Eygló Ósk Gústafsdóttir vann titilinn eftirsótta í fyrra. — Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íþróttamaður ársins Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Samtök okkar íþróttafréttamanna kusu um það í vikunni hvort breyta ætti kjörinu á íþróttamanni ársins.

Íþróttamaður ársins

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Samtök okkar íþróttafréttamanna kusu um það í vikunni hvort breyta ætti kjörinu á íþróttamanni ársins. Eftir líflegar umræður á sérstökum aukafundi um málið varð niðurstaðan sú á aðalfundi að 2/3 hlutar okkar reyndust fylgjandi því að hafa kjörið óbreytt. Þriðjungur vildi skipta kjörinu upp svo kosið yrði um 10 bestu íþróttakarla hvers árs, og 10 bestu íþróttakonur.

Í mínu tilviki fylgdi því litlu minni höfuðverkur að taka ákvörðun í þessu máli, en sá árlegi höfuðverkur sem fylgir því að setja saman lista yfir 10 bestu íþróttamenn ársins. Mér finnst góð rök hníga bæði að því að hafa kjörið óbreytt, og eins að því að breyta því. Að lokum kaus ég með því að hafa kjörið óbreytt.

Breyting á kjörinu hefði vissulega gert manni auðveldara fyrir að kjósa í lok hvers árs. Í raun væri auðveldast ef kjörinu yrði bara skipt upp eftir kynjum, íþróttagreinum og undirgreinum þeirra, því hvort fólk sé fatlað eða ófatlað, á unglingsaldri eða yfir tvítugu, og svo framvegis. Það væri auðveldast, en það er ekki það sem kjörið á íþróttamanni ársins snýst um í mínum huga. Það á að vera erfitt. Þetta kjör er mér kært þó að það sé mjög stutt síðan ég tók fyrst þátt í því sjálfur, og er eitthvað sem ég vil ekki sjá breytast nema rík ástæða sé til.

Kjörið hefur afar mikla þýðingu í huga íþróttafólks í dag, og snýst um að finna þann íslenska íþróttamann sem skaraði fram úr á hverju ári og gera honum hátt undir höfði. Það er sjaldnast óumdeilanlegt, og þannig á það líka að vera. Varla getur nokkur haldið því fram að hinn heilagi sannleikur rati á kjörseðla okkar allra sem kjósum, þó að menn reyni eftir bestu sannfæringu. Annars væru kjörseðlarnir væntanlega allir eins útfylltir. Þau fáu skipti sem ég hef tekið þátt í kjörinu hefur mér til að mynda stundum fundist of mikið vera kosið eftir „mestu framförum“, en það er bara mín skoðun. Þetta breytir því ekki að Samtök íþróttafréttamanna hafa í flestum tilfellum komist að nokkuð skynsamlegri niðurstöðu í valinu á íþróttamanni ársins, og þess vegna er borin mikil virðing fyrir valinu hjá íþróttafólki og íþróttaáhugafólki. Saga kjörsins nær nú yfir 60 ár og það skipar skemmtilegan sess í jólahaldi og áramótauppgjöri margra.

Aðalástæðan fyrir því að ég kaus gegn því að breyta kjörinu er þó ekki tengd sögunni og hefðinni. Ég á bara erfitt með að sætta mig við að það sé einhver staðreynd að ekki sé hægt að bera saman íþróttakonur og íþróttakarla með sanngjörnum hætti. Það að þetta sé reynt skapar kjörinu ákveðna sérstöðu hér á landi, því þetta er ekki gert í kjöri á besta íþróttafólki hvers sérsambands, eða íþróttafólki sveitarfélaganna. Í öðrum löndum er allur gangur á því hvernig sams konar kjör eru útfærð. Þannig eru konur og karlar í sama flokki í Noregi og Danmörku, en kosið um íþróttakonu ársins og íþróttakarl ársins í Svíþjóð.

Ef ég hefði kosið með því að breyta kjörinu, þá hefði það verið vegna þess að ég treysti ekki meðlimum SÍ til þess að láta konur njóta sannmælis til jafns við karla. Ég taldi mig hins vegar geta treyst því, og mér finnst niðurstaða kjörsins síðustu ár sýna það, þó að ég hefði kannski persónulega viljað sjá Söru Björk Gunnarsdóttur verða fyrir valinu árið 2011, til dæmis. Í því kjöri dreifðust atkvæði mjög mikið og þannig er þetta kjör. Það eru ekki allir sammála og það snýst ekki um kyn. Af hverju var Guðjón Valur Sigurðsson ekki valinn í fyrra? Var þá ekki nóg að vera mikilvægur hlekkur í Evrópu- og Spánarmeistaraliði?

Það að aðeins fimm konur hafi hlotið nafnbótina á 60 árum er döpur staðreynd. Það að þrjár konur hafi verið valdar frá aldamótum, en níu karlar (sumir oftar en einu sinni), er ekki heldur gott. En það er í mínum huga mikil vitleysa að kenna kjörinu um þetta, þó að ég hafi fundið eitt dæmi um það á þessari öld þar sem mér fyndist að kona hefði átt að vera kjörin frekar en karlinn sem vann.

Bestu rökin fyrir því að breyta kjörinu, og það eru góð rök, eru þau að þannig væri hægt að skapa fleiri kvenfyrirmyndir í íþróttum. Þær yrðu vissulega fleiri, en þær yrðu ekki sterkari. Gildi verðlaunanna sem Eygló Ósk Gústafsdóttir vann til vegna afreka síðasta árs er meira þegar horft er til þess að hún hafði betur í samkeppni við allt íþróttafólk á Íslandi, ekki bara kynsystur sínar.

Áskorun okkar íþróttafréttamanna felst áfram í því að rétta hlut kvenna í íþróttaumfjöllun. Vissulega eru tvöfalt fleiri karlmenn en konur skráðir iðkendur hjá ÍSÍ, og atvinnumennirnir sem við fjöllum um margfalt fleiri í röðum karla, en með góðri umfjöllun getum við í það minnsta lagt okkar af mörkum til að jafna stöðuna. Þessa áskorun þurfum við að standast, en kjörið á íþróttamanni ársins getur áfram verið með óbreyttum hætti, og konur og karlar keppt í sama flokki um styttuna stóru.