Síðasta laugardag svifaði sem oftar gátu til Guðmundar Arnfinnssonar og hann sendi hana áfram:
Lítillátur er hann eigi.
Enginn sigrar kappa þann.
Sleginn er á einum degi.
Er í Vatnsmýrinni hann.
Helgi Seljan leysir gátuna þannig:
Völlur er á mörgum manni
mjög er gott að halda velli.
Dagslátta var sögð með sanni
sáust flugtök þar í hvelli.
Guðrún Bjarnadóttir svarar:
Það er völlur á sjálfhælnum. Sé ég líka
ég sigri enga sem heldur velli.
Velli í dagsláttu dugleg flíka,
deili um flugvöll og yrki í hvelli.
Þessi er lausn Helga R. Einarssonar:
Lögðu saman glópska og greind,
gamalkunnar stöllur.
Gátunnar því leystu leynd.
Lausnin reyndist: völlur.
Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:
Völlur þykir Óla á.
Ei hann leggja að velli má.
Völl á degi vaskir slá.
Í Vatnsmýri ég flugvöll sá.
Og lætur limru fylgja:
Þó Óla sé brigslað um elli
enn mun hann sterkur á svelli
og sigrað fær alla
jafnt konur sem kalla
sá kall heldur alltaf velli.
Og loks segist Guðmundur hafa „bögglað saman einni gátu rétt í þessu“:
Oft það felur í sér vald.
Er á vöru lækkað gjald.
Fundarkvaðning einnig er.
Aðvörun svo gæt að þér.
Páll Imsland heilsaði leirliði á fimmtudag og sagðist mega til að rifja upp gamla limru í tilefni umræðunnar:
Það er merkilegt vatn þetta Mývatn
sem er mestmegnis einungis slývatn.
og ef túrisminn vex þar
upphefst töluvert pex þar,
auk þess pollurinn breytist í pí-vatn.
Og bætir við „Þetta síðasta orð ætti ég kannski að rita „pee“-vatn.“
Og þann hinn sama dag sagði hann líka: „Mikið skelfing og ósköp er“ – leiðinleg öll þessi kosningaræða daganna. Hvers vegna er það ekki byggt inn í stjórnarskrána að hafa hér sjálfkjörið?
Róshildur ráðskona' á Bjargi
var rökföst og frábitin þvargi,
og guðsorðatali
og trúmálahjali
öllu tók hún með reiði og gargi.
Halldór Blöndal
halldorblondal@simnet.is