Ég er mjög ánægður með úrslitin í viðureign KR og FH í fótboltanum í fyrrakvöld, þar sem KR-ingar sigruðu 1:0 með marki Pálma Rafns Pálmasonar. Nú kætast Vesturbæingar og svarthvítur hluti Hafnfirðinga fer í fýlu við mig, en það verður bara að hafa það.
Ég er mjög ánægður með úrslitin í viðureign KR og FH í fótboltanum í fyrrakvöld, þar sem KR-ingar sigruðu 1:0 með marki Pálma Rafns Pálmasonar.

Nú kætast Vesturbæingar og svarthvítur hluti Hafnfirðinga fer í fýlu við mig, en það verður bara að hafa það.

Ég er ekki tengdur neinu liði í úrvalsdeild karla, mín tvö félög, Leiknir á Fáskrúðsfirði og HK, eru í næstu deild fyrir neðan, og ég fylgist því algjörlega hlutlaus með baráttunni um stóru titlana frá ári til árs.

Þessvegna er ég afar sáttur við ofangreind úrslit. Þau þýða að meiri líkur eru á að deildin verði jöfn og spennandi en jafntefli, og hvað þá ósigur fyrir KR-inga, hefði þýtt að þeir hefðu strax dregist langt aftur úr FH og Stjörnunni, hinum tveimur líklegustu liðunum í slagnum um meistaratitilinn.

Það hefur líka sýnt sig að áhuginn á íslenska fótboltanum hefur ótrúlega mikið með það að gera að KR sé einhvers staðar í baráttunni. Eigi allavega möguleika á titlinum.

KR er lið sem fólk virðist annað hvort elska út af lífinu eða hata sem pestina. Hjá mörgum er enginn millivegur.

Aðsókn á leiki deildarinnar sveiflast á milli ára og sveiflurnar fylgja að mestu leyti gengi KR-inga. Ef KR dettur snemma út úr baráttunni minnkar heildaraðsókn í deildinni umtalsvert.

Það er því hagsmunamál fyrir keppinauta KR-inga að hafa þá einhvers staðar andandi ofan í hálsmálið. Með í slagnum. Þá koma fleiri með þeim á leikina og meiri aurar detta í kassann.