Í Laugardalsgarðinum „Þegar þannig lá á okkur þá höfðum við krakkarnir þetta svæði fyrir okkur. Hér hófust ástarævintýri og hér byrjaði fólk að reykja í laumi. Þetta var allt voða dularfullt í augum okkar krakkanna, og þegar mamma sagði mér frá Hans og Grétu, þá sá ég alltaf Laugardalsgarðinn fyrir mér,“ sagði Einar Már á röltinu.
Í Laugardalsgarðinum „Þegar þannig lá á okkur þá höfðum við krakkarnir þetta svæði fyrir okkur. Hér hófust ástarævintýri og hér byrjaði fólk að reykja í laumi. Þetta var allt voða dularfullt í augum okkar krakkanna, og þegar mamma sagði mér frá Hans og Grétu, þá sá ég alltaf Laugardalsgarðinn fyrir mér,“ sagði Einar Már á röltinu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á uppvaxtarárum Einars Más Guðmundssonar voru karlar að svíða sviðahausa við Kirkjusand og hann var að þvælast um á bifreiðaverkstæðum og fékk jákvæða afstöðu til fjölbreytts mannfólks. Hann man eftir allskonar furðufuglum sem lífguðu upp á heiminn.

Á uppvaxtarárum Einars Más Guðmundssonar voru karlar að svíða sviðahausa við Kirkjusand og hann var að þvælast um á bifreiðaverkstæðum og fékk jákvæða afstöðu til fjölbreytts mannfólks. Hann man eftir allskonar furðufuglum sem lífguðu upp á heiminn. Einar Már verður með sögugöngu í dag í sínu gamla hverfi, Vogahverfi í austurbæ Reykjavíkur, og ætlar að leita uppi minningar.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Það er enginn staður merkilegri en annar, hvað varðar að fóstra mann og annan. Fyrir okkur sem sluppum lifandi var Vogahverfið góður staður til að alast upp á. Ég man heilmikið frá þessum tíma og það kemur mikið við sögu í bókunum mínum Riddurum hringstigans, Vængjaslætti í þakrennum, Eftirmála regndropanna, Bítlaávarpinu og Englum alheimsins. Ég man göturnar, leikina, lífið og skólann, en ég vinn töluvert með minnið og er búinn að skálda eitt og annað upp sem hefur orðið að minningum,“ segir Einar Már Guðmundsson rithöfundur sem ólst upp í Vogahverfinu í Reykjavík, en þegar hann talar um hverfið sitt, þá á hann við stærra svæði, Langholtshverfið, Sundagarða og jafnvel Laugarnesið.

„Þetta var gríðarlega barnmargt hverfi og eitt af fyrstu hverfum eftirstríðsáranna hér á landi þar sem hægt var að tala um „baby boom“ eða barnasprengju. Vogahverfið er á mínum uppvaxtarárum hráslagalegt úthverfi, þar var timbur út um allt, skurðir og annað sem fylgdi nýbyggingahverfi. Nútíma-velferðarþjóðfélag var að fæðast á þessum tíma og lýðveldið var ungt. Þetta var tími metnaðar í samfélaginu, allt var á uppleið og lögð áhersla á menntun og jöfnuð. Allir áttu að hafa tækifæri.“

Á þessum tíma verður Vogaskóli ótrúlega fjölmennur, þegar mest var voru nemendur 1.600 til 2.000. „Í Vogaskóla var krökkum skipt í bekki eftir getu, það voru tveir „virkilega góðir“ bekkir, þrír „millibekkir“ og einn stór „tossabekkur“. Og einn „últra-tossabekkur“, með tólf strákum. Þeir sem komu best undan vetri voru þeir sem lentu í millibekkjunum, sem voru fjölmennastir. Vogaskóli tók við öllum og fyrir vikið kynntumst við allskonar furðufuglum utan úr bæ. Ég lýsi þessum heimi í bók minni Bítlaávarpinu.“

Ekki mátti vangadansa

Einar segir að hann og fjölskylda hans hafi búið í húsi í Goðheimum sem pabbi hans byggði á sjötta áratugnum.

„Við tilheyrðum landnemum Vogahverfisins og þegar ég fór að skrifa leitaði þessi barnæska á mig og ég fór að vinna úr þessu. Í þessu hverfi speglast hugmyndin um lýðveldið og jafnan rétt þegnanna, því þarna voru allir þjóðfélagshópar. Helsta flokkunin fólst í því að við Gnoðarvoginn voru bæjarblokkir og í Laugarásnum var „snobb-hill“. En í skólanum, á fótboltavellinum og á götunum voru krakkarnir í einni hrúgu, allir jafnir. Fyrir framan sjoppurnar, Sunnutorg og Vogaturninn söfnuðust krakkarnir saman og þeir sem ráku sjoppurnar urðu einskonar félagsmálafulltrúar.“

Einar segir þessa tíma hafa verið tíma mikilla breytinga.

„Nútíminn kom æðandi yfir landið og við borgarbörnin vorum ofboðslega opin fyrir því sem kom að utan; bíómyndum, tónlist og öðru slíku. Þá varð til þessi ótti yfirvalda um að við myndum ekki standa undir væntingum lýðveldisins, að við yrðum ekki þeir Íslendingar sem okkur var ætlað að vera. En þessi togstreita gamla tímans og nýja skapaði einmitt það tungumál sem mín kynslóð talar, það varð enginn skaði af því. Inn í skólann kom rokktónlist og rómantík, Víetnamstríðið, innrásin í Tékkóslóvakíu og kalda stríðið. Þetta kristallaðist í skólanum og þar var mikil pólitík og málfundir. Við vorum á milli hippa og pönkara, svo við gátum lifað okkur inn í hvort tveggja. Svo kom tónlistarmenningin og bílskúrsbönd spruttu upp. Allt sem tengist samskiptum kynjanna opnaðist en um leið var gamli heimurinn að passa upp á að ekki væri verið að vangadansa,“ segir Einar og bætir við að Vogahverfið hafi haft allskonar orð á sér, meðal annars að vera villingahverfi.

„Vissulega drukkum við unglingarnir áfengi og brugg, en ekki landa. Einn af okkur sem var fullorðinslegur verslaði stundum fyrir okkur í ríkinu, hann varð síðar hátt settur í lögreglunni,“ segir Einar og hlær.

„Á sjötta áratugnum voru götubardagar í hverfinu mínu, ég lýsi því í Vængjaslættinum. Þetta voru tilefnislausar styrjaldir á milli hverfa sem snerust ekki um nein málefni. Þetta var meira eftirlíking á einhverju sem við sáum bíó eða jafnvel fornsögunum; hetjudýrkun sem leiddi til gjörninga. En í hverfinu var líka mikil íþróttamenning, herinn byggði risabragga rétt hjá Vogaskóla og eftir stríð varð hann aðalíþróttahúsið. Þar æfðum við íþróttir, þó aðstæður væru heldur frumstæðar í þessum Hálogalandsbragga. “

Fjaran og trillukarlarnir

„Við unglingarnir fórum niður í bæ til að fara í bíó og þar var mikið verslað með hasarblöð. Ég fór líka í bæinn til að selja dagblöð og þá fór ég um allan bæ, inn í fyrirtæki, inn á matsölustaði og allskonar búllur, líka ofan í skipin. Það voru engar hindranir. Karlar voru að svíða sviðahausa við Kirkjusand og maður var að þvælast um á bifreiðaverkstæðum og fékk jákvæða afstöðu til fjölbreytts mannfólks. Ég man eftir allskonar furðufuglum sem lífguðu upp á heiminn. Við höfðum líka aðgang að fjörunni og trillukörlum, en nú er búið að loka hafinu fyrir börnunum. Miðað við hversu margir búa í Reykjavík og hvað sjórinn er stór partur af okkar þjóðlífi, þá er eins og klippt hafi verið á ákveðinn streng þegar börnin hafa ekki lengur þennan aðgang. Sumir segja að með tengslum við fjöru og sjó hefði verið hægt að spara mikinn sálfræðikostnað. Ég er ekki að segja að allt hafi verið betra hér áður, en á þessum tíma var allt svo persónulegt og það var mikið frelsi, rétt eins og í sveitinni, enda var Vogahverfið á vissan hátt sveitaþorp. Náttúran var nálægt okkur borgarbörnunum á þessum tíma, það var ekki þessi andstæða borg og sveit. Allur heimurinn er lítið þorp og kannski felast töfrar mannlífsins í því að fólkið er eins í öllum þessum þorpum,“ segir Einar sem eignaðist sína bestu vini á Vogahverfisárunum.
Viðburðurinn Horfnir heimar: Í dag laugardag mun Einar Már Guðmundsson rithöfundur leiða söguþyrsta um Heima- og Vogahverfið í leit að minningum og horfnum mannvirkjum. Sögugangan hefst við Sólheimabókasafn kl. 13 og göngunni lýkur á Café Flóru í Grasagarðinum. Gangan tekur u.þ.b. einn og hálfan klukkutíma.