Endurkoma Eygló keppti í sundhöllinni í London á Ólympíuleikunum 2012.
Endurkoma Eygló keppti í sundhöllinni í London á Ólympíuleikunum 2012. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM í sundi Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Eygló Ósk Gústafsdóttir, íþróttamaður ársins 2015, og Hrafnhildur Lúthersdóttir eiga báðar möguleika á að keppa um verðlaun á Evrópumeistaramótinu í 50 metra laug sem hefst í London á mánudaginn.

EM í sundi

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Eygló Ósk Gústafsdóttir, íþróttamaður ársins 2015, og Hrafnhildur Lúthersdóttir eiga báðar möguleika á að keppa um verðlaun á Evrópumeistaramótinu í 50 metra laug sem hefst í London á mánudaginn. Eygló vann til tvennra bronsverðlauna á EM í 25 metra laug í desember en Hrafnhildur tók ekki þátt í því móti því hún var að ljúka háskólanámi sínu í Bandaríkjunum.

Eygló keppir í undanrásum, og vonandi einnig undanúrslitum, í sinni sterkustu grein á mánudag, en það er 200 metra baksund. Hún er skráð í mótið með þriðja besta tíma keppenda, 2:09,04 mínútur frá því á HM í Kazan í fyrra, á eftir ungversku járnfrúnni Katinku Hosszú (2:06,18) og hinni þýsku Jenny Mensing (2:08,48). Hosszú vann greinina á EM í 25 metra laug en þar varð Eygló á undan Mensing, og náði í bronsverðlaun. Silfurverðlaunahafi mótsins, Daria Ustinova frá Rússlandi, er ekki með núna. Þær Hosszú, Mensing og Ustinova eru einu Evrópubúarnir sem urðu á undan Eygló á HM í 50 metra laug í Kazan. Þess vegna má alveg gæla við þann möguleika að Eygló nái í verðlaun, en hún vildi lítið tjá sig um þann möguleika í gær, á leið sinni til London:

„Ég verð að viðurkenna að ég er ekki búin að skoða keppendalistann. Ég ætla bara að mæta og hugsa ekkert of mikið út í þetta. Þá byrja ég kannski bara að stressa mig. Ég veit númer hvað ég er skráð inn í mínar tvær aðalgreinar, en ég veit ekki hverjir möguleikarnir eru,“ sagði Eygló, sem er skráð með sjötta besta tímann í 100 metra baksundi.

Hún er í fyrsta sinn í þeirri stöðu að vera skráð með þriðja besta tíma í grein á stórmóti, eins og í 200 metra baksundinu: „Það er smápressa, en við sjáum bara til hvað gerist. Vonandi næ ég bara að bæta sjálfa mig,“ sagði Eygló, sem keppir í 50, 100 og 200 metra baksundum.

Hrafnhildur er skráð með fjórða besta tímann í 100 metra bringusundi, 1:06,87 mínútu, en hún keppir í undanrásum í því á þriðjudaginn. Hún varð þriðja af Evrópubúum á HM í Kazan í fyrra á eftir Juliu Efimovu frá Rússlandi, sem nú er í keppnisbanni vegna lyfjaneyslu, og Rutu Meilutyte (1:05,46) frá Litháen. Meilutyte er með besta skráða tímann inn í mótið og þær Martina Carraro (1:06,41) og Viktoria Zeynep Günes (1:06,77) eru einnig með betri tíma en Hrafnhildur.

Hrafnhildur á einnig möguleika á verðlaunum í 200 metra bringusundi, með fimmta besta skráða tímann. Hún er auk þess skráð í 50 metra bringusund og 200 metra fjórsund.

Anton Sveinn McKee keppir í 50, 100 og 200 metra bringusundi og er skráður með 7. besta tímann í 200 metra sundinu. Fyrsta grein hans er 100 metra sundið á mánudag. Bryndís Rún Hansen keppir í 50 metra flugsundi á mánudag, og svo í 100 metra skriðsundi og flugsundi.

Hrafnhildur, Eygló, Bryndís og Jóhanna Gerður Gústafsdóttir mynda svo sveit sem keppir í 4x100 metra fjórsundi 22. maí og stefnir á að ná sæti á Ólympíuleikunum.