Leiðtogar Frá vinstri Barack Obama, Sigurður Ingi, Sauli Niinistö, forseti Finnlands, Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, og Stefan Löfven, forsætisráðherra Svía.
Leiðtogar Frá vinstri Barack Obama, Sigurður Ingi, Sauli Niinistö, forseti Finnlands, Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, og Stefan Löfven, forsætisráðherra Svía. — AFP
Benedikt Bóas Þorsteinn Ásgrímsson Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra sátu í gær leiðtogafund Norðurlandanna og Bandaríkjanna í Hvíta húsinu í boði Baracks Obama, forseta Bandaríkjanna.

Benedikt Bóas

Þorsteinn Ásgrímsson

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra og Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra sátu í gær leiðtogafund Norðurlandanna og Bandaríkjanna í Hvíta húsinu í boði Baracks Obama, forseta Bandaríkjanna. Á fundinum var rætt um samvinnu Bandaríkjanna og Norðurlandanna á ýmsum sviðum. Fór forseti Bandaríkjanna afar fögrum orðum um Norðurlönd, meðal annars um Legó-framleiðslu Dana, Abba-tónlist Svía og uppfinningar Finna eins og Skype og Spotify.

Á meðal umræðuefna voru öryggis- og varnarmál, barátta gegn hryðjuverkum og aðgerðir gegn öfgahyggju, fólksflutninga- og flóttamannavandinn, loftslagsmál, samstarf í málefnum norðurslóða, viðskiptamál auk þróunar- og mannúðarmála.

Sigurður Ingi stjórnaði umræðu um þróunar- og mannúðarmál. Hann lagði meðal annars áherslu á mikilvægi framkvæmdar nýsamþykktra heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og benti á að aðgerðir heima fyrir væru undirstaða þess að ná þeim. Þá minnti forsætisráðherra á að þótt aldrei hefði verið veitt meira fjármagn til mannúðarmála, væri þörfin meiri en nokkru sinni fyrr. Þá undirstrikaði hann mikilvægi samstarfs ríkjanna í öryggis- og varnarmálum.

Í lok fundarins áttu Sigurður Ingi og Obama samtal og í lok þess bauð forsætisráðherra forsetanum að sækja Ísland heim hvenær sem kynni að henta.

Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, áttu hálftíma fund saman. Lilja segir í samtali í gækvöldi að einblínt hafi verið á öryggis- og varnarmál og með hvaða hætti Norðurlönd geti komið að slíkum málum. Hafi hún lagt áherslu á að Ísland væri að auka útgjöld til þessara mála auk flóttamannamála, en staða þeirra var einnig hluti af umræðuefni fundarins.