Björn Bjarnason ritaði athyglisverða grein um útlendingamál hér í blaðið í gær. Þar bendir hann á þann vanda sem margar Evrópuþjóðir glíma við vegna þessara mála, aðvaranir Europol og 55 svæði í Svíþjóð sem lögreglumenn hætta sér ekki inn í.

Björn Bjarnason ritaði athyglisverða grein um útlendingamál hér í blaðið í gær. Þar bendir hann á þann vanda sem margar Evrópuþjóðir glíma við vegna þessara mála, aðvaranir Europol og 55 svæði í Svíþjóð sem lögreglumenn hætta sér ekki inn í.

Hér á landi hefur verið reynt að kæfa alla umræðu um þessi mál og menn hrakyrtir og kallaðir uppnefnum sem voga sér að lýsa áhyggjum sínum og vilja fara varlega.

Í grein sinni bendir Björn meðal annars á umsögn lögreglustjóranna á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum, sem nýtur stuðnings Lögreglustjórafélagsins, þar sem varað er við að „sú mikla áhersla sem lögð er á mannúð í frumvarpinu [...] grafi undan öryggissjónarmiðum sem lögreglu ber að hafa í forgangi“ ekki síst á tímum þegar sýnt er „að flóttamenn séu hagnýttir í ólögmætum tilgangi af glæpahópum“.

Þessi afstaða kemur ítrekað fram í umsögn lögreglustjóranna og sýnir að full þörf er á að fara vandlega yfir frumvarpið áður en það verður samþykkt.

Vissulega er mannúð mikilvæg í öllum málum en stjórnvöld mega ekki gleyma því að tryggja öryggi landsmanna.

Og það má ekki viðhafa þá þöggun í þessum málaflokki að aðvaranir eins og þær sem lögreglustjórarnir setja fram í umsögn sinni nái ekki inn í umræðuna.