Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Forsvarsmenn fjarskiptafélagsins Símans hafa brugðið á það ráð að stofna félag í Lúxemborg utan um sjónvarpsstarfsemi félagsins til að tryggja jafnræði milli sín og erlendra keppinauta.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Forsvarsmenn fjarskiptafélagsins Símans hafa brugðið á það ráð að stofna félag í Lúxemborg utan um sjónvarpsstarfsemi félagsins til að tryggja jafnræði milli sín og erlendra keppinauta. Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri miðlunar og markaða hjá Símanum, segir að fyrirtækinu hafi verið nauðugur einn kostur að fara þessa leið, ekki síst þar sem stjórnvöld hafi í seinni tíð hætt að gera greinarmun á línulegri og ólínulegri útsendingu í sjónvarpi. Sama viðhorf sé ekki uppi á teningnum víðast hvar annars staðar.

„Það er ljóst að fjölmiðlalögin frá 2011 gera skýran greinarmun á sjónvarpsútsendingum og myndmiðlun á grundvelli pöntunar. Hins vegar eru eftirlitsaðilar í seinni tíð að hallast að því að túlka lögin á þann veg að flutningsréttur nái jafnt yfir línulegt og ólínulegt sjónvarp. Verði slík túlkun ofan á hverfur strax allur hvati til fjárfestinga og nýsköpunar í innlendu efni því óheimilt er að greina þarna á milli,“ segir hann. Ágúst Ólafur Ágústsson, aðjunkt við HÍ, segir að stjórnvöld eigi með aðgerðum að jafna stöðu íslenskra aðila og erlendra á sviði sjónvarpsframleiðslu.

Breyttur markaður
» Ríflega 27% íslenskra heimila eru með áskrift að Netflix.
» Áætlað er að Íslendingar greiði áskriftargjöld til Netflix sem nemi á fjórða hundrað milljónum.