„Ég tel nokkuð víst að Haukar tapi ekki öðrum leik í röð á heimavelli,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, spurður út í þriðju viðureign Hauka og Aftureldingar um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla.

„Ég tel nokkuð víst að Haukar tapi ekki öðrum leik í röð á heimavelli,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, spurður út í þriðju viðureign Hauka og Aftureldingar um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla. Viðureignin verður háð í dag í Schenker-höllinni á Ásvöllum. Flautað verður til leiks klukkan 16.

Hvort lið hefur einn vinning en þrjá þarf til þess að verða Íslandsmeistari. Úrslitin munu þar með ekki ráðast á Ásvöllum í dag en sú gæti orðið raunin þegar liðin leiða saman hesta sína í fjórða sinn að Varmá í Mosfellsbæ á mánudaginn kl. 15.

„Þótt ég hafi trú á að Haukar vinni næsta leik er ekki þar með sagt að þeir verði Íslandsmeistarar. Ég hef ennþá fulla trú á að rimman fari í fimm leiki,“ sagði Óskar Bjarni ennfremur.

„Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, verður að leita allra leiða með sínum mönnum til þess að stöðva Janus Daða Smárason. Hann ber leik Hauka uppi,“ sagði Óskar Bjarni.

„Fyrsti leikur liðanna kom mér á óvart vegna þess að varnarleikurinn var svo slakur. Mér fannst Haukar leysa betur úr þeim vanda en Aftureldingarmenn í annarri viðureign liðanna. Einhvernveginn var betra jafnvægi í leik Hauka þá og þeir líkari sjálfum sér. Einvígið er hinsvegar galopið og fer sennilega í fimm leiki. Ég held að það sé meira en óskhyggja af minni hálfu,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, í samtali við Morgunblaðið í gær. iben@mbl.is