Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Suðurnesjalína 2, frá Hafnarfirði að Helguvík, myndi liggja um eignarlönd 20 jarða á Reykjanesi en innan hverrar jarðar eru margir jarðarskikar.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Suðurnesjalína 2, frá Hafnarfirði að Helguvík, myndi liggja um eignarlönd 20 jarða á Reykjanesi en innan hverrar jarðar eru margir jarðarskikar. Landsnet náði samningum við meirihluta landeigenda en nokkrir landeigendur höfnuðu samningum og fékk Landsnet heimild iðnaðarráðherra til að taka viðkomandi jarðir eignarnámi, að hluta eða í heild.

Nú hefur Hæstiréttur fellt þessa heimild til eignarnáms úr gildi og snúið þar með við niðurstöðu héraðsdóms. Umræddar jarðir eru Stóra-Vatnsleysa, Minni-Vatnsleysa, Stóra-Knarrarnes, Landakot og Heiðarland á Vogajörðum. Eigendur Hvassahrauns áfrýjuðu ekki héraðsdómi og féllust á niðurstöðu matsnefndar eignarnámsbóta.

Meðal eigenda þessara jarða má nefna börn Þorvaldar í Síld og fiski, þau Skúla, Geirlaugu og Katrínu Þorvaldsbörn, sem eiga Stóru- og Minni-Vatnsleysu en þar er rekið stórt svínabú. Eigandi Landakots er dr. Margrét Guðnadóttir, veirufræðingur og prófessor emiritus. Stóra-Knarrarnes og Heiðarland er að hluta í eigu sömu eigenda, m.a. Ólafs Þórs Jónssonar og Sigríðar S. Jónsdóttur.

Féllst Hæstiréttur á rök landeigenda sem andmæltu áætlunum Landsnets um að leggja Suðurnesjalínu 2 í lofti og töldu að kostir jarðstrengja hefðu ekki verið kannaðir til þrautar. Kostnaður við lagningu línunnar hefur verið áætlaður um 2,5 milljarðar. Landsnet hefur talið mun meiri kostnað felast í lagningu jarðstrengja. Gæti sá kostnaður verið allt að þrefalt hærri. „Við getum ekki lesið í dóm Hæstaréttar annað en að kallað sé eftir frekari upplýsingum um jarðstrengsvalkost í þessu verkefni, þar á meðal kostnað. Það er rétt að taka það fram að dómarar eru sammála því að ekki sé deilt um nauðsyn þess að styrkja flutningskerfi raforku til Suðurnesja. Ekki er hægt að lesa úr dómnum annað en að núverandi kostur, sem lagður hefur verið fram, sé fær að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem sett eru fram í dómnum,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets.