Guðbrandur Jónsson
Guðbrandur Jónsson
Eftir Guðbrand Jónsson: "Tækin kosta meira en sex nýjar þyrlur."

Eitt af áhugamálum mínum er að þefa upp sögur um fláræði, fals og lygar, taka þær fyrir og kryfja til mergjar. Þessar sögur birtast á ýmsa vegu sem ævisögur, fréttir í dagblöðum eða eins konar sagnfræði.

Sumarið 1985 komu fréttir af merkilegum samningi Orkustofnunar við deild leyniþjónustu Bandaríkjanna um þyngdarmælingar á landgrunni Íslands. Þar kemur fram að iðnaðarráðherra hafi heimilað Orkustofnun að semja við Defence Mapping Agency, USA.

Fréttin í DV frá 8. maí hljóðaði svo: „Orkustofnun hefur verið heimilað að gera samning við Bandaríkjamenn um þyngdarmælingar á íslensku landgrunni. Er hér um að ræða verkefni upp á 1,4 milljónir íslenskra króna, var ákvörðun um þetta tekin á ríkisstjórnarfundi í gær.“

Daginn áður var önnur frétt sama efnis í DV 7. maí 1985. Þar segir: „Mælt vegna gervitungla“. „Bandaríkjamenn vilja þyngdarmæla á íslensku landgrunni.“

Hér er það endurtekið tvisvar sinnum, „á íslensku landgrunni“.

Í DV-fréttinni frá 7. maí 1985 stendur þetta: „Guðmundur sagði að Orkustofnun myndi taka verkið, ef af því yrði, að sér í heild. Þeir myndu sjálfir vinna hluta af því og semja svo við aðra til að taka að sér ýmsa hluta verksins, þeirra á meðal Íslendingurinn Sighvatur Pétursson sem er aðstoðarforstjóri landmælinga- og olíuleitarfélags í Texas.“Fréttir um málið halda áfram í Morgunblaðinu 6. júní 1985. Þar stendur: „Nýja þyrlan – Orkustofnun hefur sem kunnugt er gert samning við Defence Mapping Agency í Washington í Bandaríkjunum um umfangsmiklar þyngdarmælingar við Ísland, en verkinu þarf að vera lokið fyrir 3. september nk. Orkustofnun leigir tvær þyrlur af Albínu Thordarson til þessa verks og er önnur þeirra Huges 500-þyrla, sú sem Albína á nú þegar, en hina þyrluna, sömu gerðar, leigir Albína frá Svíþjóð og kom hún til landsins í gær og sést hér á hafnarbakkanum. Verkefnið sem Orkustofnun og þyrluleiga Albínu hafa tekið að sér er að upphæð um 56–65 milljónir króna og er að langmestu leyti greiðsla fyrir íslenska þekkingu og þjónustu.“

Næsta opinbera frétt er frá DV 28. júní 1985. Hér skal það tekið fram að landgrunn Íslands nær frá fjöru og 200 sjómílur á haf út, jafnvel lengra.

Í DV kemur þetta fram: „Tækin kosta meira en sex nýjar þyrlur,“ og í innskoti, „Dýr búnaður við þyngdarmælingar, sjá nánar á blaðsíðu 4.“

Eins og sést af þessum fréttaflutningi þá er málið eins og það var kynnt fyrir ríkisstjórn Íslands orðið öllu stærra og umfangsmeira en þær 1,5 milljónir króna eins og það var kynnt á ríkisstjórnarfundi nokkrum mánuðum áður. Fleira kemur til þegar blaðsíða 4 í DV föstudaginn 28. júní er skoðuð og þá sérstaklega forsíðan og innskotsfréttin um tregðuleiðsögutækið. Þar er Sighvatur Pétursson orðinn sölufulltrúi hjá International Technology Ltd. með útibú í Denver Colorado og Houston í Texas auk Anchorage í Alaska og síðan þetta: „Sjálfur opnaði hann ekki fyrir löngu skrifstofu í Singapore.“

Upplýst er að þetta verkefni á landgrunni Íslands kosti 15.000 dollara á dag í tvo mánuði og eina viku og að hver Huges 500-þyrla kosti ný um 450.000 dollara og kemur þetta fram á forsíðu í DV fréttinni 28. júní.

Síðan þetta um tregðuleiðsögutækið: „Tækjabúnaður sem notaður er til staðsetningar mælipunkta við þyngdarmælingar sem nú er verið að gera hér á landi kostar rúmlega sex sinnum meira en þyrla vísindamannanna. Það eru bandarískir aðilar og Íslendingar sem vinna að þessum rannsóknum í sameiningu í tveimur hópum. Sá sem er á Akureyri hefur yfir að ráða Huges-þyrlu sem Albína Thordarson útvegaði frá Svíþjóð og þessum dýru tækjum sem leigð eru frá fyrirtækinu International Technology í Bandaríkjunum ... fyrir norðan eru tvö tregðuleiðsögutæki, annað um borð í þyrlunni og hitt til vara. Hvort um sig kostar 1,5 milljónir dala, eða samanlagt 126 milljónir króna. Allt þetta úthald kostar á degi hverjum í leigu um 15 þúsund dollara sem er um 650 þúsund íslenskar krónur.“

Orkustofnun upplýsti ráðherra og ríkisstjórn Íslands að verkefnið á landgrunni Íslands kostaði 1,5 milljónir en ekki 650.000 krónur á dag í tvo mánuði og eina viku. En þeir voru ekki á landgrunni Íslands. Tækið til að staðsetja mælipunkta er þekkt sem INS sem var gps-tæki þeirra tíma og kostaði hvert tæki um 45.000 dollara frá framleiðanda dýrustu útgáfu tækisins þarna 1985. 15.000 dollarar á dag í 64 daga er 960.000 dollarar, sem leyniþjónusta Bandaríkjanna borgaði til Orkustofnunar og sem svo stofnunin borgaði út til Sighvats Péturssonar og fyrirtækis hans ITECH í Singapore .

Það hefur varla farið fram hjá leyniþjónustu Bandaríkjanna að Albína Thordarson var heitasti frambjóðandi rauðliða á Reykjavíkursvæðinu með fána og skilti, „Ísland úr Nato og herinn burt“, ásamt formanni flokksins, Svavari Gestssyni, og formanni framkvæmdarstjórnar Alþýðubandalagsins, Ólafi Ragnari Grímssyni.

Peningarnir stoppuðu stutt í Singapore og voru komnir inn í flokkssjóðinn 1985 til að bjarga Þjóðviljanum og flokknum frá gjaldþroti. Leyniþjónustupeningarnir, $$$ frá USA.

Höfundur er áhugamaður um leyniþjónustur á Íslandi og er þyrluflugstjóri.