Fylgisvandi Samfylkingarinnar er ekki beinlínis nýr. Fylgið hefur smám saman yfirgefið flokkinn allt frá því fljótlega eftir þingkosningarnar 2009.

Fylgisvandi Samfylkingarinnar er ekki beinlínis nýr. Fylgið hefur smám saman yfirgefið flokkinn allt frá því fljótlega eftir þingkosningarnar 2009. Fylgisvandinn er þannig ekki kominn til í formannstíð Árna Páls Árnasonar, núverandi formanns Samfylkingarinnar. Hann verður því vart sakaður um að hafa komið flokknum í þá stöðu sem hann erfði frá forvera sínum, Jóhönnu Sigurðardóttur. Hins vegar hefur Samfylkingin undir hans forystu vissulega ekki náð að koma sér upp úr þeim hjólförum.

Samfylkingin átti að verða breiðfylking vinstrimanna en hefur í skoðanakönnunum á undanförnum mánuðum mælst ítrekað með fylgi undir 10%. Flokkurinn virðist þannig hafa fest sig í sessi sem smáflokkur. Margir virðast þeirrar skoðunar að vandi Samfylkingarinnar verði leystur með því að skipta um formann og fyrir vikið hefur verið boðað til sérstaks landsfundar síðar í þessum mánuði, að því er virðist með einkar frjálslegri túlkun á reglum flokksins, til þess að losna við Árna Pál.

Ýmsar tilraunir hafa verið gerðar til þess að reyna að skýra vanda Samfylkingarinnar. Þegar hitna fór verulega undir Árna Páli fyrr á þessu ári sendi hann bréf til flokksmanna þar sem hann sagði flokkinn hafa brugðist í lykilmálum á síðasta kjörtímabili þegar hann var í ríkisstjórn með Vinstrihreyfingunni – grænu framboði. Þannig hefði Samfylkingin tekið rangan pól í hæðina í Icesave-málinu, klúðrað umsókninni um inngöngu í Evrópusambandið og brugðist skuldugum heimilum í landinu.

Magnús Orri Schram, einn frambjóðenda til formennsku í Samfylkingunni, lýsti því yfir í vikunni að hann vildi stofna nýja hreyfingu á grunni flokksins undir nýju nafni. Þetta er ekki ný hugmynd. Þannig lýsti Jóhanna því yfir í ræðu á flokkstjórnarfundi Samfylkingarinnar 29. maí 2011 að flokkurinn þyrfti að vera reiðubúinn að skipta um nafn og númer til þess að reyna að auka fylgi sitt.

Þegar Jóhanna lét ummæli sín falla mældist fylgi Samfylkingarinnar í kringum 20% miðað við tæp 30% í kosningunum 2009. Þegar landsfundur Samfylkingarinnar var haldinn í lok janúar 2013 var fylgi flokksins hins vegar komið niður í um 15%. Tillaga var lögð fram á fundinum um að breyta nafni Samfylkingarinnar í Samfylkingin – Jafnaðarmannaflokkur Íslands. Tillagan, sem lögð var fram af Jóhönnu, náði ekki fram að ganga, en tilefni hennar var sem fyrr fylgisvandi flokksins.

Vandi Samfylkingarinnar er ekki einfaldur. Hann er þvert á móti ljóslega mjög djúpstæður. Þar dugir vafalítið skammt að skipta eingöngu um formann eða kennitölu. Þar vega stefnumálin klárlega þyngra þó Magnús Orri vilji meina annað. Til að mynda ekki sízt ofuráherzla á inngöngu í Evrópusambandið sem allar skoðanakannanir í meira en sex ár hafa sýnt að afgerandi meirihluti landsmanna er lítt spenntur fyrir. hjortur@mbl.is

Hjörtur J. Guðmundsson