[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Reykjavíkurborg krefur velferðarráðuneytið um endurgreiðslu vegna kostnaðar við umsýslu fjárhagsaðstoðar sem borgin hefur veitt útlendingum undanfarin ár. Aðstoðin er m.a.

Sviðsljós

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Reykjavíkurborg krefur velferðarráðuneytið um endurgreiðslu vegna kostnaðar við umsýslu fjárhagsaðstoðar sem borgin hefur veitt útlendingum undanfarin ár. Aðstoðin er m.a. veitt hælisleitendum og ferðamönnum og talsverð aukning hefur orðið á umsóknum um hana.

Í fyrra varði Reykjavíkurborg 62 milljónum króna í sérstaka fjárhagsaðstoð til 109 erlendra ríkisborgara sem ýmist eiga ekki lögheimili hér á landi eða hafa átt það skemur en tvö ár. Í samantekt velferðarsviðs kemur fram að árið 2012 hafi samtals 86 einstaklingar fengið tæpar 29 milljónir í fjárhagsaðstoð á þessum forsendum, þar af 20 sem ekki áttu hér lögheimili. Undanfarin tvö ár hefur fjölgað mjög í þessum hópi og í hittifyrra voru þeir 106 talsins og fengu samtals um 52 milljónir.

Í þessari samantekt kemur líka fram að velferðarsvið telur að allt bendi til að þessi aukning sé komin til að vera. Vinnan við afgreiðslu hvers einstaklings sé umfangsmikil og umfangið sé orðið slíkt að ekki verði hjá því komist að ríkið taki þátt í kostnaði við umsýsluna. Nú sinnir starfsmaður þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða, sem er í 80% starfshlutfalli, þessu verkefni eingöngu. Velferðarsvið borgarinnar krafði velferðarráðuneytið um þátttöku í þessum kostnaði í janúar síðastliðnum, en þeirri kröfu var hafnað. Borgin ítrekar nú kröfu sína og samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu hefur verið farið fram á nánari útskýringar frá borginni áður en ákvörðun verður tekin um framhaldið.

Velferðarráðuneytið greiðir síðan borginni kostnað vegna þessarar fjárhagsaðstoðar samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem segir að erlendum ríkisborgurum, sem ekki eigi hér lögheimili eða hafi átt hér lögheimili skemur en tvö ár, skuli veitt fjárhagsaðstoð hér á landi í sérstökum tilvikum. Ekki er gerð nánari grein fyrir hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að fá aðstoðina.

Leita fyrst til heimalands

Í lagagreininni segir að aðstoðin skuli veitt af því sveitarfélagi sem viðkomandi dvelur í að höfðu samráði við ráðuneytið enda hafi áður verið leitað eftir aðstoð frá heimalandi.

„Það eru ýmsar ástæður fyrir því að fólk fær þessa fjárhagsaðstoð, en allar umsóknir eru sendar til velferðarráðuneytisins sem þarf að samþykkja að aðstoðin verði veitt,“ segir Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða. „Þetta eru útlendingar sem ekki geta framfleytt sér einhverra hluta vegna eða þurfa aðstoð vegna sérstakra aðstæðna.“

Oft mjög flókin mál

Sem dæmi um aðstoð sem veitt er þessum hópi nefnir Sigþrúður húsbúnaðarstyrk, stuðning vegna barna, fyrirframgreiðslu til að tryggja leiguhúsnæði og framfærsluaðstoð. „Þetta eru aðallega barnafjölskyldur og sumir eru með stöðu flóttafólks,“ segir hún. „Við erum að reyna að fá meira fjármagn til að halda uppi ráðgjöf fyrir þennan hóp sem fer stöðugt stækkandi. Þetta eru oft mjög flókin mál.“

Sú fjölgun sem orðið hefur í þessum hópi helst í hendur við fjölgun erlendra ferðamanna hér á landi, en nokkuð er um að þeir fái þessa fjárhagsaðstoð. Ástæðurnar fyrir því geta verið margvíslegar að sögn Sigþrúðar. „Það getur t.d. verið vegna þess að viðkomandi er í neyð vegna aðstæðna sem hann hefur lent í eða vegna veikinda. Það eru dæmi um að fólk óttist heimferð af einhverjum ástæðum, aðrir eru í farbanni hér vegna gruns um afbrot eða að fólk eigi ekki fyrir heimferðinni. Það er alltaf fyrst leitað til heimalandsins og ef það gengur ekki leitum við heimildar hjá ráðuneytinu.“