Eurovision-farinn Hallgrímur Óskarsson.
Eurovision-farinn Hallgrímur Óskarsson.
Ég hlusta alltaf eitthvað á Eurovision-keppnina þegar ég hef tíma,“ segir Hallgrímur Óskarsson, sem er 49 ára í dag. „Mér finnst gaman að giska á hvað muni ná langt og hvað ekki.

Ég hlusta alltaf eitthvað á Eurovision-keppnina þegar ég hef tíma,“ segir Hallgrímur Óskarsson, sem er 49 ára í dag. „Mér finnst gaman að giska á hvað muni ná langt og hvað ekki. Ég hef aðeins hlustað á lögin sem verða í úrslitunum í kvöld og finnst Svíþjóð, Holland, Belgía, Austurríki og Rússland skemmtilegust. Svíþjóð gæti alveg unnið því það er lag sem þorir að vera súper-einfalt og einlægt og er því ákveðið mótvægi við stóru Euro-sprengjurnar sem eru orðnar ögn þreyttar.“

Hallgrímur hefur nokkrum sinnum tekið þátt í forkeppni Eurovision sem lagahöfundur. Árið 2003 sigraði hann með lagið „Open Your Heart“ sem Birgitta Haukdal söng og svo hefur hann nokkrum sinnum verið í 2. sæti, t.d. með lögin „Undir regnbogann“ sem Ingó flutti og „Ég trúi á betra líf“ sem Magni flutti. Auk þess hafa Friðrik Ómar, Jogvan og Svavar Knútur flutt lög eftir Hallgrím í Eurovision.

„Ég er enn að semja lög, það fer ekkert frá manni. Nú fyrir nokkrum vikum kom út lagið „Revolving Doors“ sem Jóhanna Guðrún söng en lagið hefur verið spilað nokkuð mikið á helstu útvarpsstöðvum landsins upp á síðkastið og hefur að auki fengið ágæta spilun í Svíþjóð og Danmörku.“

Hallgrímur er verkfræðingur og starfar sem ráðgjafi hjá Verdicta.com og hefur komið að ráðgjöf fyrir fyrirtæki hér heima og erlendis í allmörg ár. Einnig er Hallgrímur höfundur nýju húsnæðislausnarinnar sem nefnist „Strax í skjól“ og hefur hlotið nokkra umræðu að undanförnu.

Kona Hallgríms er Ragnheiður Eiríksdóttir, heimspeki- og jógakennari, og eiga þau þrjú börn, Gunnhildi Fríðu sem er 14 ára, Hrafnhildi Birnu sem er 12 ára og Jóhannes Ragnar sem er 7 ára. Öll þau leika á hljóðfæri, Gunnhildur á píanó, Hrafnhildur á gítar og Jóhannes á ukulele. „Það er mjög skemmtilegt að heyra þegar þau eru farin að spila og syngja saman. Þau eru metnaðarfull og leiðrétta mig undir eins ef ég er að spila eitthvert lag og ramba á rangan hljóm.“