Sterk Helena Rut Örvarsdóttir náði sér loks á strik með Stjörnunni í gær. Hér geysist hún framhjá Laufeyju Ástu Guðmundsdóttur, leikmanni Gróttu.
Sterk Helena Rut Örvarsdóttir náði sér loks á strik með Stjörnunni í gær. Hér geysist hún framhjá Laufeyju Ástu Guðmundsdóttur, leikmanni Gróttu. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Nesinu Benedikt Grétarsson bgretarsson@mbl.is Einvígið um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna er galopið á ný eftir sterkan sigur Stjörnunnar gegn Gróttu í gær.

Á Nesinu

Benedikt Grétarsson

bgretarsson@mbl.is

Einvígið um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna er galopið á ný eftir sterkan sigur Stjörnunnar gegn Gróttu í gær. Liðin mættust á heimavelli Gróttu á Seltjarnarnesi og gestirnir úr Garðabænum fögnuðu sigri í frekar skýtnum handboltaleik, 22:20. Þar með er staðan 2:1 í einvígi liðanna en vinna þarf þrjá leiki til að verða Íslandsmeistari.

Líkt og boltinn væri úr sápu

Þegar þessi lið mættust í Mýrinni í Garðabæ á mánudagskvöld voru Stjörnustúlkur gjörsamlega niðurlægðar af sprækum leikmönnum Gróttu. Það var því auðvelt að afskrifa Stjörnuna í gær en sú varð heldur betur ekki raunin. Garðbæingar sýndu mikinn karakter í leiknum og börðust eins og grenjandi ljón. Varnarleikur liðsins var frábær og leikmenn Gróttu komust lítið áleiðis gegn ókleifum múrnum þar sem Rakel Dögg Bragadóttur var í miklum ham.

Reyndar verður að færa þennan leik til bókar sem frekar furðulegan. Það var hreinlega með ólíkindum að horfa upp á marga af bestu leikmönnum deildarinnar missa boltann eins og byrjendur úr höndunum og þar voru Gróttukonur mun verri. Á löngum kafla í seinni hálfleik enduðu uppstilltar sóknir Gróttu á því að boltinn fór rakleitt út af vellinum en beint í hendur Stjörnukvenna. Stjarnan átti einnig sín augnablik í þessum fasa en þeir kaflar voru færri en hjá heimaliðinu og það réð úrslitum þegar upp var staðið.

Karakter af bestu gerð

Eftir að hafa orðið vitni að ömurlegri frammistöðu Stjörnunnar í síðasta leik verð ég að viðurkenna að ég átti alls ekki von á öðru en að Grótta kláraði dæmið í gær. Leikmenn Stjörnunnar tróðu hins vegar duglega upp í mig með sinni frammistöðu og eiga mikið hrós skilið. Helena Örvarsdóttir skoraði mikilvæg mörk og gamla stríðshetjan Hanna Guðrún Stefánsdóttir sýndi mikilvægi sitt í vörn sem sókn. Sá leikmaður sem hefur þó verið stöðugastur í þessu einvígi og fær ekki alltaf verðskuldað hrós er Þórhildur Gunnarsdóttir sem lék vel að venju. Nú bíður Stjörnunnar það verkefni að knýja fram hreinan úrslitaleik á sunnudag og miðað við frammistöðuna í gær er það algjörlega raunhæft.

Grótta – Stjarnan 20:22

Hertz-höllin, þriðji úrslitaleikur kvenna, föstudaginn 13. maí 2016.

Gangur leiksins : 1:2, 4:4, 5:7, 8:8, 10:9, 11:11 , 13:13, 14:14, 15:16, 15:17, 16:19, 20:22 .

Mörk Gróttu : Lovísa Thompson 6, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 4, Eva Björk Davíðsdóttir 3, Unnur Ómarsdóttir 3, Sunna María Einarsdóttir 2/1, Laufey Ásta Guðmundsdóttir 1, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 1.

Varin skot : Íris Björk Símonardóttir 11.

Utan vallar : 8 mínútur.

Mörk Stjörnunnar : Helena Rut Örvarsdóttir 7, Hanna Guðrún Stefánsdóttir 5/4, Stefanía Theodórsdóttir 4, Þórhildur Gunnarsdóttir 3, Esther Viktoría Ragnarsdóttir 2, Sólveig Lára Kjærnested 1.

Varin skot : Heiða Ingólfsdóttir 9.

Utan vallar : 2 mínútur.

Dómarar : Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson.

Áhorfendur : 832.

*Staðan er 2:1 fyrir Gróttu.