[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Michel Temer, bráðabirgðaforseti Brasilíu, hefur myndað nýja ríkisstjórn sem nýtur stuðnings margra frammámanna í viðskiptalífi landsins.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Michel Temer, bráðabirgðaforseti Brasilíu, hefur myndað nýja ríkisstjórn sem nýtur stuðnings margra frammámanna í viðskiptalífi landsins. Stjórnmálaskýrendur telja þó að mjög erfitt verði fyrir nýju stjórnina að leysa vandamál sem stuðluðu að falli Dilmu Rousseff sem þurfti að láta af störfum í allt að hálft ár eftir að þingið samþykkti málshöfðun á hendur henni til embættismissis.

Temer kvaðst ætla að leggja áherslu á að bæta rekstrarskilyrði fyrirtækja til að auðvelda þeim að fjárfesta, auka framleiðsluna og skapa ný störf með það að markmiði að blása lífi í efnahaginn eftir mesta samdrátt í landinu í rúma þrjá áratugi. Margir fréttaskýrendur efast þó um að stjórnin hafi burði til að knýja fram nauðsynlegar efnahagsumbætur og útlit er fyrir mikla ólgu í stjórnmálum landsins næstu mánuði eftir að þrettán ára valdatíma Verkamannaflokksins lauk.

Ráðherrar sakaðir um spillingu

Rousseff var ákærð til embættismissis fyrir að hagræða ríkisreikningum en hún neitar sök og segir að stjórn sín hafi beitt reikningsskilaaðferðum sem hafi lengi viðgengist í Brasilíu og geti ekki réttlætt málshöfðun til embættismissis. Margir fréttaskýrendur hafa tekið undir þetta og telja að flestir þingmannanna sem studdu málshöfðunina hafi í raun lagst gegn henni vegna mikillar óánægju almennings með efnahagsóstjórn hennar og spillingu sem hefur gegnsýrt stjórnkerfið.

Rousseff er sökuð um að hafa reynt að hindra rannsókn á spillingunni, meðal annars mútugreiðslum til stjórnmálamanna Verkamannaflokksins og fleiri flokka, þeirra á meðal þingmanna sem greiddu atkvæði gegn henni. Temer hefur ekki sætt rannsókn vegna spillingar en hermt er að vitni hafi sagt saksóknurum að hann sé viðriðinn mútugreiðslurnar. Nokkrir ráðherrar í stjórn hans eru á meðal þeirra sem spillingarrannsóknirnar beinast að.

Sakaður um hentistefnu

Temer hefur verið leiðtogi miðvinstrihægriflokksins PMDB í fimmtán ár en nýtur ekki mikillar lýðhylli. Í nýlegri könnun sögðust aðeins 2% myndu kjósa hann í forsetakosningum. Flokkurinn hefur lengi verið í oddastöðu á þinginu og hefur verið þekktur fyrir að haga seglum eftir vindi til að auka pólitísk áhrif sín. Temer var t.a.m. forseti neðri deildar þingsins í forsetatíð Fernando Henrique Cardoso á árunum 1995 til 2002 þegar hann stóð fyrir einkavæðingu ríkisfyrirtækja og markaðsumbótum. Þegar Verkamannaflokkurinn komst til valda undir forystu Luiz Inacio Lula da Silva og síðar Rousseff gegndi Temer mikilvægu hlutverki í því að koma efnahagsstefnu þeirra í framkvæmd, einkum eftir að hann varð varaforseti í janúar 2011. Ásakanir um hentistefnu og mútugreiðslur til þingmanna flokksins kynda undir efasemdum um að Temer sé rétti maðurinn til að stjórna landinu.

Temer 75 ára lögfræðingur, sonur kristinna hjóna sem fluttu búferlum til Brasilíu frá Líbanon nokkrum árum eftir fyrri heimsstyrjöldina. Hann sérhæfði sig í stjórnlagafræði, hefur skrifað bækur um stjórnarskrána og einnig ljóðabók sem var gefin út fyrir nokkrum árum.

Stjórn hvítra karla
» Í nýrri ríkisstjórn Brasilíu undir forystu Michels Temers eru 24 ráðherrar og þeir eru allir hvítir karlmenn. Tæp 48% íbúa landsins eru hvítir.
» „Þetta er í fyrsta skipti frá einræði hersins [1964-85] sem ekki ein einasta kona á sæti í stjórninni. Þetta er mikið áhyggjuefni,“ hefur fréttaveitan AFP eftir brasilíska stjórnmálaskýrandanum Ivar Hartmann.
» Dilma Rousseff, sem lét af störfum sem forseti, var fyrsta konan til að gegna embættinu og skipaði alls 15 konur í stjórnina á valdatíma sínum.