Treysta verður samskiptin við Bandaríkin

Velkomin!“ Barack Obama stautaði sig ágætlega fram úr íslenskunni, líkt og hinum Norðurlandamálunum, þegar hann bauð forseta Finnlands og forsætisráðherra Íslands, Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs velkomin í Hvíta húsið í gær, en Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, voru þar fulltrúar Íslendinga. Fundurinn er framhald af áþekkum fundi sömu ríkja sem haldinn var árið 2013 í Svíþjóð þar sem stefna ríkjanna, m.a. í öryggis- og varnarmálum, var rædd.

Þó að Obama hafi í stjórnartíð sinni frekar horft yfir Kyrrahaf en Atlantshafið hefur hann þó lagt áherslu á góð samskipti á milli Bandaríkjanna og Norðurlandanna, eins og leiðtogafundirnir tveir undirstrika. Haft hefur verið eftir honum hversu mjög hann dáist að stjórnarfari og samfélagi Norðurlandanna. Ekki er víst að arftaki Obama muni deila því dálæti hans, og því gefur þessi fundur Íslendingum kærkomið tækifæri til þess að treysta tengslin við fremsta lýðræðisríki heims, meðan glugginn er opinn.

Ísland og Bandaríkin hafa löngum átt í miklum og góðum vinatengslum, þó að brottför bandaríska herliðsins fyrir áratug hafi borið að með heldur snautlegum hætti. Hafa stjórnvöld síðan þá staðið sig misvel í því að viðhalda vinatengslum ríkjanna tveggja, en vert er að minnast þess að Bandaríkjamenn voru meðal þeirra þjóða, sem fyrstar viðurkenndu lýðveldið árið 1944.

Heilmikil tækifæri felast í auknum samskiptum ríkjanna tveggja. Fjölmargir Íslendingar hafa í gegnum tíðina sótt nám og atvinnu til Bandaríkjanna og Ísland hefur lengi verið vinsæll áfangastaður Bandaríkjamanna. Það eru þó ekki bara ferðalangar sem hingað koma úr Vesturheimi, heldur hafa kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðarmenn sóst í síauknum mæli eftir því að mynda í íslenskri náttúru.

Árið 2016 verður mikið umbreytingaár hjá bæði Íslendingum og Bandaríkjamönnum. Ekki einasta munu báðar þjóðir kjósa sér nýjan forseta á árinu, heldur einnig nýtt þing ef að líkum lætur. Mikilvægt er að þeir sem þá munu taka við keflinu í báðum ríkjum átti sig á því hvaða gildi hið trausta vinasamband ríkjanna tveggja hefur haft.