Að gleðjast eins og barn yfir einföldum hlutum ætlar Víkverji að vera duglegri við að tileinka sér. Ástæðan fyrir þessu breytta viðhorfi Víkverja er sú að Víkverjabarnið fékk sína fyrstu fótboltasokka, legghlífar, fótbolta og takkaskó á dögunum.

Að gleðjast eins og barn yfir einföldum hlutum ætlar Víkverji að vera duglegri við að tileinka sér. Ástæðan fyrir þessu breytta viðhorfi Víkverja er sú að Víkverjabarnið fékk sína fyrstu fótboltasokka, legghlífar, fótbolta og takkaskó á dögunum.

Það er ekki frásögur færandi nema fyrir þær sakir að barnið gat varla sofnað því það var svo spennt að prufa græjurnar á næstu fótboltaæfingu daginn eftir. Barnið ætlaði í fyrstu að sofa í fótboltasokkunum með legghlífarnar utan yfir. Það skal tekið fram að legghlífarnar eru í mjög fallegum litum.

Víkverji gat þó talið barninu trú um að það dygði að vera í sokkunum en ekki með legghlífarnar líka, það væri hreinlega óþægilegt. Eitthvað gekk brösuglega að sofna í sokkunum sem barnið dró reglulega upp yfir hnén og rak þau út í loftið til að dást að þessum fínu sokkum. Að lokum sættist krakkinn á að klæða sig úr sokkunum og leyfa tásunum að leika frjálsum.

Um leið og barnið vaknaði daginn eftir fór það í fótboltasokkana fínu og krafðist þess að fá að fara í þeim í leikskólann. Það var samþykkt með semingi en þeir áttu þó að vera innanundir buxunum.

Í bílnum á leiðinni í leikskólann laumaðist barnið til að setja sokkana yfir buxurnar og spígsporaði inn í leikskólann með buxurnar pokandi, kátt og glatt með fótbolta, takkaskó og legghlífar í poka, tilbúið á æfingu seinna um daginn.

Fótboltasokkana fínu þurfti nefnilega að sýna landsliðskonunni góðu í fótbolta sem gætti barnsins á leikskólanum. Sokkarnir fóru ekki fram hjá nokkrum manni og án efa ekki landsliðskonunni snjöllu.

Þessa gleði og eftirvæntingu ætlar Víkverji að tileinka sér. Leyfa sér að fá fiðrildi í magann yfir einhverju nýju og spennandi. Gleðjast yfir nýju flíkunum sínum og vera ánægður með sig.

Kannski verður þó staðar numið við að leggjast í rekkju í flíkunum en ávinningurinn af þessu hugarfari er augljós.