Lára G. Sigurðardóttir lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1994 og kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 2001. Hún lauk grunnnámi í skurðlækningum við Landspítalann 2007 en innritaðist í doktorsnám 2009.
Lára G. Sigurðardóttir lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1994 og kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 2001. Hún lauk grunnnámi í skurðlækningum við Landspítalann 2007 en innritaðist í doktorsnám 2009. Lára hefur starfað sem læknir hjá Krabbameinsfélagi Íslands frá 2009. Hún er gift Halldóri Fannari Guðjónssyni og synir þeirra eru Flóki , Nökkvi og Fróði .

• Lára G. Sigurðardóttir hefur varið doktorsritgerð í lýðheilsuvísindum frá HÍ. Ritgerðin ber heitið Röskun á lífklukku og þróun blöðruhálskirtilskrabbameins (The Role of Circadian Disruption in Prostate Cancer Development). Umsjónarkennari var dr. Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við HÍ, og leiðbeinandi var dr. Lorelei A. Mucci, prófessor við Harvard School of Public Health.

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að röskun á lífklukku, sem birst getur í svefntruflunum og minnkaðri melatónínframleiðslu, er líklegur áhættuþáttur krabbameins. Þótt mikilvægar lífeðlisfræðilegar vísbendingar séu til staðar hafa tengsl þessara þátta við krabbamein í blöðruhálskirtli (BHKK) lítið verið rannsökuð. Fyrsta rannsóknin er yfirlitsgrein um vísindagreinar með upplýsingum um birtu að næturlagi, svefnvenjur eða næturvaktavinnu (vísbendingar fyrir röskun á lífklukku) og áhættu BHKK. Af 16 rannsóknum fundu 15 samband á milli röskunar á lífklukku og aukinnar áhættu á BHKK. Í rannsókn 2 var stuðst við ferilhóp 2102 karlþátttakenda í Öldrunarrannsókn Hjartaverndar. Karlar sem áttu erfitt með að sofna og vöknuðu að næturlagi voru í aukinni áhættu að greinast með BHKK, sérstaklega langt genginn sjúkdóm. Í rannsókn 3 reyndust karlar með svefntruflun vera með lægra gildi 6-súlfatoxymelatóníns (aMT6s) í morgunþvagi og karlar með lágt aMT6s-gildi voru í aukinni hættu á BHKK, sérstaklega langt gengnum sjúkdómi. Í rannsókn 4 voru merktir handvirkt á segulómun þrír vefjahlutar heilakönguls (vefur, belgmein og kalk). Minna rúmmál heilaköngulvefs var tengt lægra aMT6s-gildi. Loks voru skoðuð í rannsókn 5 gæði BHKK-skráninga á Íslandi sem sýndu að 98% tilfella BHKK voru staðfest með vefjagreiningu og örfá tilfelli (0,3%) voru eingöngu staðfest af dánarvottorði. Rannsóknirnar benda til þess að röskun á lífklukku tengist aukinni áhættu á langt gengnu BHKK. Áhrif röskunar á lífklukku á þróun krabbameins, sérstaklega BHKK, er enn vanrannsakað svið.