Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Sextán prósent þeirra erlendu ferðalanga sem nýta sér þjónustu hvalaskoðunarfyrirtækja koma frá Þýskalandi, en aðeins níu prósent þeirra sem sækja Ísland heim á hverju ári koma frá landinu.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Sextán prósent þeirra erlendu ferðalanga sem nýta sér þjónustu hvalaskoðunarfyrirtækja koma frá Þýskalandi, en aðeins níu prósent þeirra sem sækja Ísland heim á hverju ári koma frá landinu. Þá eru Frakkar 10% þeirra sem nýta sér þjónustuna en ferðamenn af því þjóðerni eru aðeins 6% af heildarfjölda ferðamanna sem landið sækja heim. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem Deloitte hefur unnið fyrir Hvalaskoðunarsamtök Íslands og byggist hún á tölum frá aðildarfyrirtækjum samtakanna árið 2014.

Þessi mikli áhugi einskorðast þó ekki við löndin tvö. Þannig sýna tölurnar að áhugi ferðamanna á hvalaskoðun, flokkað eftir þjóðerni, er langsamlega mestur meðal íbúa í Suður- og Mið-Evrópu. Ferðamenn frá þeim ríkjum sem fylla þann flokk eru um 24% af heildarfjölda þeirra sem hingað leggja leið sína en sami hópur stendur að baki 48% allra viðskipta erlendra ferðamanna við hvalaskoðunarfyrirtækin íslensku.

Í fyrrnefndri skýrslu er bent á að Evrópubúar hafa langtum meiri áhuga á hvalaskoðun en fólk annars staðar frá. Um 80% allra þeirra sem sóttu hvalaskoðun árið 2014 komu frá Evrópu. Evrópubúar voru hins vegar rétt tæp 60% allra þeirra sem heimsóttu Ísland á sama tíma.

Þannig telja skýrsluhöfundar að óplægðan akur sé að finna í hópi ferðamanna annars staðar frá en Evrópu. Sá hópur sé ríflega 40% af heildarfjöldanum en að þeir svari aðeins til 20% allra þeirra sem sæki hvalaskoðun meðan á dvöl þeirra hérlendis stendur.

Nokkra athygli vekur að Bandaríkjamenn virðast hafa hlutfallslega mjög lítinn áhuga á hvalaskoðun. Þannig eru þeir um 16% allra þeirra sem hingað koma en aðeins 6% þeirra sem fara í hvalaskoðun. Hið sama má segja um Norðmenn. Þeir eru 6% erlendra ferðalanga hér en aðeins 1% þeirra sem skoða hvali í skipulögðum ferðum.