Úthafskarfaveiðar Örfirisey hefur veitt vel á Reykjaneshrygg í vikunni.
Úthafskarfaveiðar Örfirisey hefur veitt vel á Reykjaneshrygg í vikunni. — Ljósmynd/HB Grandi
Íslensk skip máttu hefja úthafskarfaveiðar á Reykjaneshryggnum sl. þriðjudag samkvæmt ákvörðun stjórnvalda.

Íslensk skip máttu hefja úthafskarfaveiðar á Reykjaneshryggnum sl. þriðjudag samkvæmt ákvörðun stjórnvalda. Karfakvótinn hefur verið skorinn mikið niður undanfarin ár og þannig nemur kvóti skipa HB Granda ekki nema þriðjungi þess magns sem félagið fékk úthlutað fyrir þremur árum, segir í frétt frá fyrirtækinu.

Þar kemur ennfremur fram að það hafi verið fínasta veiði fyrstu tvo daga vertíðarinnar. „Rússarnir eru búnir að vera hér í einhvern tíma fyrir utan 200 mílna línuna og við mættum nokkrum þeirra á útleiðinni. Ætli að þeir hafi ekki verið að fara inn til löndunar,“ sagði Trausti Egilsson, skipstjóri á Örfirisey RE, í samtali við tíðindamann.

Að sögn Trausta er harkalegur niðurskurður kvótans trúlega ástæðan fyrir því að aðeins þrjú íslensk skip hófu veiðar þegar þær máttu hefjast. Auk Örfiriseyjar voru það Þerney RE og Mánaberg ÓF.

Örfirisey hefur aðallega verið að toga á 700-850 metra dýpi og þar sé betri karfa að fá en ofar. Þessi fiskur sé reyndar ekki mjög stór en henti ágætlega fyrir vinnsluna, er haft eftir Trausta.

Úthafskarfakvóti skipa HB Granda er um 760 tonn á þessari vertíð. Hann var 850 tonn í fyrra og fyrir þremur árum nam hann 2.388 tonnum.