Messa Séra Gísli Gunnarsson og kirkjukór Víðimýrarkirkju við fermingu barna í kirkjunni um síðustu helgi.
Messa Séra Gísli Gunnarsson og kirkjukór Víðimýrarkirkju við fermingu barna í kirkjunni um síðustu helgi. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Síðasta kvöldmáltíð Krists með lærisveinunum er myndefni 400 ára gamallar altaristöflu í Víðimýrarkirkju í Skagafirði.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Síðasta kvöldmáltíð Krists með lærisveinunum er myndefni 400 ára gamallar altaristöflu í Víðimýrarkirkju í Skagafirði. Ekki er vitað um uppruna töflunnar eða höfund en vitað er að hún hefur verið í kirkjunni frá því hún var byggð fyrir tæpum tveimur öldum og í fyrri kirkjum á staðnum allt frá sautjándu öld.

Altaristaflan er svokölluð vængbrík í barokkstíl, að því er fram kemur í grein Guðrúnar Harðardóttur sagnfræðings um gripi Víðimýrarkirkju í ritinu Kirkjur Íslands. Ofan á töflunni er útskorin toppbrík með ártalinu 1616. Ártalið hefur verið talið benda til þess að altaristaflan hafi verið máluð þá. Ekkert er fullyrt um það í kirkjubókinni eða hvenær taflan hefur komið í kirkjuna.

Á miðjumyndinni er myndefnið síðasta kvöldmáltíðin en á vængjunum er krossfesting Krists og upprisa. Á utanverðum vængjunum eru myndir af Móse og Jóhannesi skírara.

Sóknarpresturinn, Gísli Gunnarsson í Glaumbæ, segir að vængirnir hafi týnst um tíma. Þeir hafi fundist í vöruhúsi á Sauðárkróki og verið settir aftur á töfluna.

Taflan sögð útlensk

Í Kirkjum Íslands segir að getið sé um málaða brík yfir altari í vísitasíu árið 1693. Hún hefur samkvæmt því verið í fyrri kirkjum á Víðimýri, að minnsta kosti í þremur forverum núverandi kirkju.

Kirkjan sem nú stendur er torfkirkja sem byggð var 1834. Fljótlega eftir að hún var tekin í notkun var sérstaklega minnst á toppbríkina í vísitasíu, „sú gyllta eikarfjöl af 1616 með sínum eikarhúnum [sé] sett ofan á altaristöbluna hvar hún áður var“.

Toppbrík töflunnar er sögð útlensk. Altaristöflur í íslenskar kirkjur komu fyrr á tímum mest frá Danmörku og Þýskalandi, í gegnum Kaupmannahöfn.

Fleiri gamlir gripir eru í Víðimýrarkirkju, þeir elstu frá sautjándu öld. Prédikunarstóllinn er til dæmis mun eldri en kirkjan, sögu hans er hægt að rekja í vísitasíum aftur til ársins 1685. Málverkin á hliðum hans eru illa farin.

Einnig eru munir úr kirkjunni í Þjóðminjasafni. Þar á meðal eru kaleikur og patína, kaleikurinn er talinn smíðaður undir lok 16. aldar. Þar eru einnig leifar af krossfestingarmynd sem komin var í kirkjuna árið 1685 og gæti verið íslenskt verk.

Finnur fyrir „nið aldanna“

Víðimýrarkirkja er í húsasafni Þjóðminjasafns Íslands. Torfveggirnir voru síðast hlaðnir upp á árunum 1997 og 1998 og um leið gert við það sem aflaga hafði farið.

Kirkjan er sóknarkirkja og er notuð til messuhalds og ýmiskonar athafna. „Það er hefð fyrir því að messa á jólanótt. Þá finnur maður alltaf fyrir nið aldanna. Það er sérstök stemmning,“ segir séra Gísli.

Ef þétt er setið geta upp undir 70 manns komist fyrir í kirkjunni. Safnaðarstarf hefur þó að mestu flust annað, meðal annars á Löngumýri. Gísli segir að messað sé stöku sinnum. Þar sé fermt og skírt og nokkuð um giftingar. Tvö börn voru fermd þar um síðustu helgi. Gísli nefnir að hann hafi gift þar hjónaefni frá Danmörku og Þýskalandi sem komu sérstaklega til að láta gefa sig saman í kirkjunni. Bæði pörin höfðu séð kirkjuna á ferðum sínum um Ísland og ákveðið að gifta sig þar. Ennþá eru einstöku útfarir gerðar frá Víðimýrarkirkju. Meira sé þó um að útförin sé gerð annars staðar og síðan jarðsett á Víðimýri.