Fitufordómar Fordómar hafa áhrif á líðan og félagslega stöðu fólks í yfirþyngd.
Fitufordómar Fordómar hafa áhrif á líðan og félagslega stöðu fólks í yfirþyngd. — Getty Images/iStockphoto
Fitufordómar birtast víða, bæði beint og óbeint. Í skýrslu sem Embætti landlæknis gaf út í fyrra og byggist á fjölþjóðlegri rannsókn um viðhorf almennings til holdafars kemur fram að neikvæð viðhorf ríki hér á landi gagnvart feitu fólki.

Fitufordómar birtast víða, bæði beint og óbeint. Í skýrslu sem Embætti landlæknis gaf út í fyrra og byggist á fjölþjóðlegri rannsókn um viðhorf almennings til holdafars kemur fram að neikvæð viðhorf ríki hér á landi gagnvart feitu fólki. Þrír af hverjum fjórum svarenda sögðust eiga vini og 42% fjölskyldumeðlimi sem hefðu orðið fyrir stríðni eða óréttlæti vegna þyngdar sinnar.

Á Vesturlöndum er víða rætt um aðgerðir til að sporna við offitufaraldri og sömuleiðis vaxandi fitufordómum, sem rammt kveður að, ekki síst á vinnustöðum, t.d. á Bretlandi eins og greint var frá í The Sunday Times nýlega.

Lög sem banna fitufordóma?

Philip Rostant, dómari við vinnudómstól Englands og Wales og sérfræðingur í vinnulöggjöf hefur lagt orð í belg og viðrað hugmyndir um að sett verði lög sem banni fitufordóma á vinnustöðum. Þeir sem uppnefni kollega sinn fitubollu eða skírskoti á annan hátt til holdafars hans, gætu samkvæmt þeim átt á hættu að þurfa að svara til saka í réttarsalnum. Löggjöf er eina færa leiðin til að stemma stigu við fitufordómum á vinnustöðum, segir hann.

Slík lög kæmu að mati dómarans í veg fyrir að þeim sem eru í yfirþyngd væri mismunað. Í nýlegri fræðigrein sem hann skrifaði ásamt lagaprófessor við Sheffield-háskóla, er fjallað um fjölþættan vanda sem feitt fólk á oft við að stríða. Til að mynda gangi þeim illa að landa vinnu, fái lægri laun en grannir kollegar þeirra og eigi frekar á hættu að vera sagt upp störfum.

Raunar er í greininni ekki einungs fjallað um vanda fólks sem er vel yfir meðalþyngd heldur líka þeirra sem eru verulega undir slíkum viðmiðum. Báðir hóparnir eru sagðir líklegri en aðrir til að verða fyrir fordómum vegna neikvæðra og hrokafullra viðhorfa vinnuveitenda þeirra og samstarfsmanna. Án þess að hafa nokkuð fyrir sér gera þeir því gjarnan skóna að feitt fólk hafi ekki nógu góða sjálfsstjórn og sé þar af leiðandi ekki góðir starfsmenn.

Lögbann á meiðandi uppnefni á borð við „fitubollu“ og sú afstaða vinnuveitenda að ráða ekki of feitt fólk til starfa eða veita því stöðuhækkun gæti varðað álíka þungri refsingu og fordómar gagnvart ýmsum minnihlutahópum og samkynhneigðum, segir í The Sunday Times.

Höfundarnir benda á að fordómar gagnvart fólki á grundvelli aldurs, kynþáttar, kyns, trúar, kynhegðunar og fötlunar falli undir Jafnréttislögin 2010, og undir þeim lagabálki gætu of feitir mögulega átt skjól. Annars segjast þeir ekki vera eindregið og afdráttarlaust að hvetja til lagasetningar, einungs að vekja athygli á þeim möguleika og fyrst og fremst að hvetja til aukinnar umræðu um fordóma í garð feitra.

Grannir fengu starfsviðtal

Eins og flestar vestrænar þjóðir þyngjast Bretar jafnt og þétt. Árið 1993 áttu 14% fullorðinna við offitu að stríða, en svo voru þeir skilgreindir sem höfðu BMI-þyngdarstuðul yfir 30. Núna eru þeir um fjórðungur þjóðarinnar.

Nýleg rannsókn á vegum Sheffield Hallam-háskólans rennir stoðum undir staðhæfingar Rostant og félaga um að fitufordómar grasseri á vinnustöðum. Þátttakendur í rannsókninni voru um 180 manns sem sendu sambærilegar ferilskrár með starfsumsókn, en öðruvísi að því leytinu að sumum fylgdi mynd af feitri manneskju, öðrum af grannri. Sú granna var næstum undantekningarlaust tekin fram yfir og boðuð í starfsviðtal.