Jón Einar Böðvarsson
Jón Einar Böðvarsson
Eftir Jón Einar Böðvarsson: "Talsmenn „nútímasamfélags“ saga burt þá grein sem þeir sjálfir sitja á þegar þeir vilja útrýma úr lögum ákvæðum sem vísa til kristni og kirkju."

Boðorðin tíu sem Móses tók við á Sínaífjalli eru kjölfesta í siðmenningu og hugsun vestrænna þjóða og hafa endurspeglast í siðum og löggjöf, ýmist beint eða óbeint, allt fram á þennan dag. Þau eru grundvallarreglur um samskipti manna í siðuðu samfélagi og áþekkar reglur munu þekkjast í fornum menningarsamfélögum Mesópótamíu og Egyptalands.

Magnús Kjartansson, ritstjóri Þjóðviljans, var örugglega ekki í framvarðasveit kirkju og kristindóms á Íslandi en hann svaraði á þessa leið þegar vikublaðið Fálkinn spurði hann um gildi boðorðanna tíu í nútímasamfélagi árið 1965:

„Það er ekki svo að maður hafi þau fyrir mælikvarða á daglegt líf svona vitandi vits. En hinar kristnu siðgæðishugmyndir eru runnar manni í merg og blóð. Þær eru meira orðnar að eðlilegu viðhorfi manna daglega heldur en einstök fyrirmæli séu gerð að mælistiku á breytnina. Þau boðorð eru líka bezt sem maður er búinn að gleyma, en eru samt hluti af sjálfum manni.“

Fyrir nokkrum vikum var 1. maí, hátíðisdagur verkalýðsins, haldinn hátíðlegur. Þegar litið er til þess dags er rétt er að hafa það hugfast að 3. boðorðið, halda skaltu hvíldardaginn heilagan, hefur verið vinnandi fólki á liðinni tíð styrkur í baráttu gegn vinnuþrælkun og áþján. Og eftir því sem æviárunum fjölgar skynja flestir það æ betur hversu mikilsvert það er að þjóðfélagið hafi daga sem eru frábrugðnir öðrum dögum og að mestu undanþegnir daglegu stússi og amstri.

Þriðja boðorðið er hér nefnt í tengslum hátíðisdag verkalýðsins vegna þess að í mars á þessu ári var lagt fram á Alþingi frv. til laga um brottfall laga um helgidagafrið. Í frumvarpinu er mælt fyrir um að helgidagalöggjöfin verði afnumin og í lögum um 40 stunda vinnuviku verði sunnudagar og ýmsir aðrir kirkjulegir helgidagar, s.s. jóladagur, páskadagur og hvítasunnudagur og nokkrir veraldlegir hátíðisdagar lögskipaðir frídagar.

Næsta víst má telja, verði þetta frv. að lögum, að haldið verði áfram á sömu braut og amast við því að helgidagar eins trúfélags eða þjóðmenningar, t.d. sunnudagar, fyrsti maí eða sumardagurinn fyrsti, séu lögbundnir frídagar og þá með sömu röksemd og teflt hefur verið fram til stuðnings frv. um brottfall laga um helgidagafrið, sem sagt þeirri, að þeir „eigi ekki við í nútímaþjóðfélagi þar sem fólk aðhyllist mismunandi trúarbrögð og lífsskoðanir...“

Í greinargerð með frumvarpinu eru tíndar til ástæður sem eiga að mæla með samþykkt þess, s.s. að samsetning íbúa íslensks samfélags hafi breyst hvað varðar trúarbrögð og lífsskoðanir, straumur ferðamanna til landsins hafi aukist mjög og gerð sé sú krafa að atvinnurekendur fái að ráða því sjálfir hvort þeir hafa opið á hátíðisdögum, en að vísu þó í samráði við starfsmenn. Þegar litið er til frásagna í fjölmiðlum um margvísleg brot á réttindum vinnandi fólks, einkum ungmenna og erlends vinnuafls, eru röksemdir flutningsmanna frumvarpsins og auðsveipni þeirra við kröfugerð atvinnurekenda nokkuð kaldranalegar gagnvart fólki á vinnumarkaði. Framtíð undir gunnfána sjóræningja, þ.e. Pírata, virðist ekki sérlega björt ef þessi tillöguflutningur er vísbending um það sem koma skal.

Það er ekki líklegt að þetta frumvarp, takist svo slysalega til að það verði samþykkt á Alþingi, verði síðasti naglinn í líkkistu kirkju og kristindóms á Íslandi. En þegar markvisst er unnið að því að fella brott úr lögum ákvæði sem lúta að stöðu og sérstöðu kirkju og kristni í íslensku samfélagi þurfa allir, hvar í flokki sem þeir standa, að gera það upp við sig hvernig umgjörð og lagaramma þeir vilja hafa utan um íslenskt samfélag og rétt er að hafa það hugfast að dropinn holar steininn. Sjálfskipaðir talsmenn „nútímasamfélags“ saga burt þá grein sem þeir sjálfir sitja á þegar þeir róa að því öllum árum að útrýma úr lagaverkinu öllum ákvæðum sem vísa til kristni og kirkju.

Höfundur er fyrrverandi starfsmaður hins opinbera.