Helga Ingólfsdóttir
Helga Ingólfsdóttir
Eftir Helgu Ingólfsdóttur: "Eiga fyrstu kaupendur í nýjum hverfum að taka á sig alla fjárfestingu innviða sem væntanlega er til langs tíma?"

Lóðagjöld sveitarfélaga eru stór hluti af byggingarkostnaði og því mikilvægt að taka faglega umræðu um hvernig gjaldtöku er háttað og hvernig best verður tryggt að hagsmunir íbúa ráði þar ferð. Lögboðin gatnagerðargjöld skulu vera útlagður kostnaður við gatnagerð og uppkaup lands þar sem það á við. Byggingarréttargjald er síðan viðbótargjald sem sveitarfélög ákveða sjálf og meginforsenda fyrir því er að afla fjár til að kosta uppbyggingu innviða lögboðinnar grunnþjónustu eins og leik- og grunnskóla. Hér áður fyrr var það yfirleitt þannig að einungis gatnagerðargjöld voru innheimt og sveitarfélög sáu sér hag í fjölgun íbúa og horfðu til þess að fasteignagjöld og útsvar myndu að hluta kosta uppbyggingu innviða sem fylgja nýjum hverfum.

Á árunum fyrir hrun var mikil hækkunarskriða á lóða- og byggingarréttargjöldum hjá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu sem réttlætt var með því að nauðsynlegt væri að innheimta að mestu eða að fullu leyti allan kostnað við innviðauppbyggingu nýrra hverfa.

Spurningin er hvort það sé eðlilegt að verktakar og þar með fyrstu kaupendur taki á sig fjárfestingu innviða í nýjum hverfum sem væntanlega er hugsuð til langs tíma?

Þjónar það hagsmunum íbúa?

Lóðagjöld verða alltaf hluti af íbúðaverði og því er það mikið hagsmunamál fyrir íbúa að verðlagning lóða sé í samræmi við kröfur íbúa um að allra leiða sé leitað við að lækka byggingakostnað og þar með auðvelda kaupendum að eignast eigið húsnæði.

Fasteignaeigendur greiða síðan árlega fasteignagjöld til síns sveitarfélags sem eru lögboðin og tryggur tekjustofn sveitarfélaga

Tvennt geta sveitarfélög gert til að styðja við heilbrigðan húsnæðismarkað; annars vegar að stilla lóðagjöldum í hóf og hinsvegar að tryggja viðunandi lóðaframboð í samræmi við fyrirliggjandi spár um íbúaþróun sem fram koma í aðalskipulagi

Með því að stilla lóðagjöldum í hóf er hægt að lækka byggingarkostnað. Hvert prósent á að skila sér beint til kaupenda ef markaðurinn er eðlilegur. Til þess að markaður geti verið eðlilegur þarf framboð á lóðum að vera í jafnvægi á hverjum tíma. Þetta eru grunnskyldur sveitarfélaga sem ekki hafa verið uppfylltar í samræmi við þarfir hér á höfuðborgarsvæðinu í heild sinni miðað við fyrirliggjandi spár um fjölgun íbúa.

Höfundur er bæjarfulltrúi, Hafnarfjarðarbæ.