[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni fæddist í Reykjavík 28.5. 1946 og fylgdi móður sinni á ýmsum vistum víða um land en er uppalinn frá sex ára aldri í Hólabrekku í Laugardal í Árnessýslu, hjá móður sinni og stjúpa, Ragnari Jónssyni.

Guðni fæddist í Reykjavík 28.5. 1946 og fylgdi móður sinni á ýmsum vistum víða um land en er uppalinn frá sex ára aldri í Hólabrekku í Laugardal í Árnessýslu, hjá móður sinni og stjúpa, Ragnari Jónssyni.

Guðni gekk í Barna- og Héraðsskóla á Laugarvatni og lauk stúdentsprófum frá ML. Hann lauk BA-próf í íslensku, sögu og heimspeki frá HÍ 1973 og stundaði framhaldsnám í íslensku en segir því ólokið enn.

Guðni kenndi við grunnskóla í Keflavík, á Patreksfirði og í Reykjavík, við Iðnskólann í Reykjavík og FG. Hann starfaði við Stofnun Árna Magnússonar í 10 ár og var þá jafnframt stundakennari við HÍ, einkum í íslensku fyrir erlenda stúdenta.

Guðni var með þáttinn Daglegt mál í Ríkisútvarpinu um árabil og fór þá á kostum: „Já, ég held að þættirnir hjá mér hafi vakið mikla athygli og það var stöðugt verið að hringja í mig heim úr öllum áttum og skrafa um íslenskt mál. Ef ég var ekki heima þurfti eiginkonan að ræða langtímum saman við þessa sjálfskipuðu málfarsráðunauta.

Eitt sinn vorum við að skemmta okkur hjónin og ég þurfti að bregða mér á salernið. Þar heilsaði mér maður og sagðist hafa þungar áhyggjur af málfari unga fólksins: „Þetta er svo voðalegt“ – sagði hann – „að mér frýs hugur við því.“

Þáttagerðin endaði svo með því að ég hætti að eigin ósk eftir að hafa sagt „læks“ í stað „lækjar“. Sjálfur Halldór Laxness bar í bætifláka fyrir mig og taldi þetta ekki frágangssök. En ég hætti nú samt: „Grand exit“ – svo maður sletti.“

Guðni hætti allri kennslu það fræga ár 2007 og hefur síðan eingöngu stundað þýðingar. Hann hefur þýtt fjölda bóka; barnabækur, skáldsögur og fræðirit; auk þess sem hann hefur þýtt margvíslegt efni fyrir sjónvarp.

Guðni fékk verðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur fyrir bestu frumsömdu barnabókina árið 1982 og fyrir þýdda barnabók árin 2000, 2005 og 2013; fékk Vorvinda IBBY á Íslandi fyrir framlag til barnamenningar 2004 og Sögustein, barnabókaverðlaun IBBY á Íslandi, árið 2015.

Guðni lék körfubolta um árabil, lengst af með ÍS, en bætir við að það hafi oftast verið gert með heldur slökum árangri. Hann reynir gjarnan að veiða silung á flugu, er gefinn fyrir gönguferðir og þá ekki síst um ættarslóðir sínar á Hornströndum: „Við erum meðeigendur í tveimur húsum í Hlöðuvík. Þangað förum við oft til að hvíla okkur á siðmenningunni, símhringingum og eilífum fréttum – til að rölta um, róa hugann og njóta hinnar stórbrotnu náttúru.“

Fjölskylda

Kona Guðna er Lilja Bergsteinsdóttir, f. 9.10. 1948, prentsmiður. Foreldrar hennar voru Kristín Berta Ólafsdóttir, f. 19.9. 1922, d. 3.12. 1986, húsfreyja á Patreksfirði, og Bergsteinn Snæbjörnsson f. 22.11. 1918, d. 18.1. 2000, verslunarmaður á Patreksfirði.

Börn Guðna og Lilju eru Hilmir Snær Guðnason, f. 24.1. 1969, leikari í Reykjavík, en kona hans er Bryndís Jónsdóttir framkvæmdastýra og eru barnabörnin Viktoría Ísold Hilmisdóttir, og Maríanna Hilmisdóttir (dóttir Guðnýjar Sigurgeirsdóttur); Ásdís Mjöll Guðnadóttir, f. 29.10. 1972, þýðandi í Kaupmannahöfn en maður hennar er Kjartan Helgi Sigurðsson; Bergdís Björt Guðnadóttir, f. 12.7. 1974, keramiker í Hafnarfirði en maður hennar er Kristján Jóhann Reinholdsson sérfræðingur og eru barnabörnin Guðni Kolbeinn Pálsson og Elín Lilja Kristjánsdóttir og stjúpdætur Bergdísar Júlía og Diljá Kristjánsdætur; Kristín Berta Guðnadóttir, f. 17.9. 1978, félagsráðgjafi í Hafnarfirði en maður hennar er Hörður Sveinsson húsasmiður og eru barnabörnin Lilja Berglind Harðardóttir, Patrekur Harðarson, og stjúpsonur Kristínar Bertu er Leonharð Þorgeir Harðarson.

Hálfsystkini Guðna, sammæðra: Ingveldur Ragnarsdóttir, f. 26.3. 1953, húsfreyja á Selfossi; Hilmar Árni Ragnarsson, f. 9.6. 1955 d. 20.2. 2009, vélsmiður í Reykjavík; Stefanía Kolbrún Ragnarsdóttir, f. 17.8. 1959, verslunarmaður í Þýskalandi, og Sigurður Ragnarsson, f. 16.9. 1962, tölvunarfræðingur í Reykjavík.

Hálfsystkini, samfeðra: Grímur Kolbeinsson, f. 7.1. 1952, prentari í Reykjavík; Hörður Kolbeinsson, f. 17.4. 1955, húsasmiður í Svíþjóð, og Leifur Kolbeinsson, f. 22.3. 1966, veitingamaður í Garðabæ.

Foreldrar Guðna: Ásdís Sigurðardóttir, f. 29.10. 1920, d. 3.10. 1998, húsfreyja í Hólabrekku í Laugardal, síðar í Rvík, og Kolbeinn Grímsson, f. 10.12. 1921, d. 24.1. 2006, offsetljósmyndari og kennari í Reykjavík.