Vilhelm Jónsson
Vilhelm Jónsson
Eftir Vilhelm Jónsson: "Fréttamiðlar sem vilja vera trúverðugir ættu ekki að leyfa sér að draga taum eins frambjóðanda fram yfir aðra með afgerandi og skipulögðum hætti."

Tæplega getur talist ásættanlegt að fjölmiðlar mismuni forsetaframbjóðendum og haldi útvöldum og þekktum einstaklingum í sviðsljósinu, ásamt því að vitna ómælt í ómarktækar skoðanakannanir sem eru viðhafðar af þröngsýni. Óþekktir frambjóðendur fá litla sem enga möguleika á að koma sínum skoðunum og hugsjónum á framfæri eða fyrir hvað þeir standi. Það er nánast orðið „broslegt“ að hlusta á þáttastjórnendur ljósvakans tala vikum saman um að viðkomandi einstaklingur fái að koma sínum sjónarhornum að síðar.

Bilið mun þar af leiðandi aðeins breikka enn frekar meðan hlutdrægni fjölmiða fær að þrífast með óbreyttum hætti. Fjölmiðlar landsins eru djúpt sokknir ef þeim er fyrirmunað að vilja að eðlilegt lýðræði og sanngirni eigi sér stað. Ef að líkum lætur endar þetta fyrirkomulag með því að kjósendur verða andhverfir og fá ómælda skömm á kosningunum og takmarkaðan vilja til að taka þátt í komandi forsetakosningum.

Alþingi, ásamt samfélaginu í heild sinni, hlýtur að sjá sóma sinn í að leitast við að stöðva óréttlætið og að þrýst verði á að lýðræði ásamt eðlilegu kosningaferli fái að njóta sín þar sem jafnræði sem þrífst í réttarríkjum sé virt með vitrænum hætti. Hundraða milljóna forsetakosning lýðveldis á ekki að geta fengið að eiga sér stað með sama hætti og á sér stað í svörtustu Afríku.

Það er tæplega samboðið forsetaframbjóðanda og sagnfræðingi, Guðna Th., að túlka afleiðingar og uppgjör Icesave-samnings með villandi hætti og rangtúlka með áþekkum formerkjum og fyrri ríkisstjórn stóð fyrir. Forysta þingflokks Sjálfstæðisflokksins er þar heldur ekki að öllu leyti undanskilin ábyrgð.

Málflutningur Guðna í síðdegisútvarpinu þess efnis að það hefði verið í lagi að samþykkja samning Lee Buchheit þar sem þrotabú Landbankans stæði undir kröfum er rangur, villandi staðreyndum hefur verið haldið fram af honum ásamt fleirum. Guðni veit betur en svo að innistæður þrotabúa Landsbankans stóðu ekki undir að greiða Isesave-samninginn. Í besta falli hefði verið hægt að greiða helming af kröfum í þrotabú bankans hefði samningurinn verið staðfestur af forseta, að auki áttu eftir að bætast við umtalsverðar vaxtagreiðslur sem voru og eru verulega vanmetnar af talsmönnum þeirra sem vildu samþykkja Icesave – og þeirra á meðal er Guðni.

Forsetaframbjóðandi sem rangtúlkaði gerðir ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna gagnvart Icesave er vart hæfur til að gegna forsetaembætti með því að hagræða staðreyndum með villandi hætti og hvítþvotti. Lágmarkskrafa er að forsetaframbjóðandi, hver svo sem hann er, komist ekki upp með rangtúlkanir og geti nánast átt drottningarviðtöl við fréttamenn eða bitlausa þáttastjórnendur sem eru illa upplýstir um staðreyndir.

Flestum sem hafa fylgst með þjóðfélagsumræðunni undangengin ár er ljóst að Guðni dró taum fráfarandi ríkisstjórnar. Guðni yrði maður að meiri að viðurkenna að hann hefði verið að hluta til hliðhollur Samfylkingarvængnum og hafði takmarkaðan vilja til að málskotsrétti væri beitt af forseta sem mótvægi gagnvart sitjandi ríkisstjórn.

Forsetaframbjóðandinn Davíð Oddsson er svo sem heldur ekki á lygnum sjó, enda þjóðþekktur og oft á tíðum ekki mikil lognmolla í kringum störf hans. Trúverðugleiki rithöfundarins Andra Snæs virðist rýr, ein bók á tíu árum ásamt því að þiggja listamannalaun árum saman.

Halla Tómasdóttir hefur verið bendluð við Baugsveldið sem handbendi Jóns Ásgeirs, sé tekið mark á 2007-uppákomum, að ógleymdu óheppilegu myndbandi sem Hannes Hólmsteinn kom á framfæri á vefnum í vor og tók nánast forsetahugsjón hennar af lífi í fæðingu.

Forsetaframbjóðendur verða að standa undir orðum sínum og fyrri mistökum sem koma upp á yfirborðið þó svo það sé ekki alltaf á jákvæðum nótum.

Ómældar ofsóknir sem forseti hefur þurft að þola eru með ólíkindum, þó svo hann hafi nánast skorið þjóðina úr snörunni, því örbirgð hefði blasað við hefði Icesave-samningur gengið eftir. Lágmarkskrafa er að fjölmiðlar mismuni ekki frambjóðendum og leyfi fyrri gerðum og staðreyndum að koma fram með sem óhlutdrægustum hætti.

Þjóðin þarf að fara að átta sig á að forseti lýðveldisins getur aldrei verið sameiningartákn allra miðað við óbreytta stjórnarskrá og/eða orðið sammála um hvernig málskotsrétti skuli beitt af forseta í stærri ágreiningsmálum. Fyrrverandi forseti, Vigdís Finnbogadóttir, sýndi að hún hafði ekki vilja eða bit sem forseti til að virkja málskotsréttinn í stórum ágreiningsmálum sem stjórnarskráin bauð upp á, gengi þingræðið þvert á þjóðarvilja sem átti sér oftar en einu sinni stað.

Fréttamiðlar þurfa að sýna meiri óhlutdrægni og kappkosta að jafnræði gagnvart frambjóðendum sé til staðar og upplýsa þjóðina fyrir hvað óþekktir forsetaframbjóðendur standi og vilji áorka. Það þarf kjark til að fara gegn straumnum þvert á hagsmunaöfl og annað skrum sem þrífst um allt samfélagið og alltof margir láta stýrast af. Samfélagið á ekki að líða það að fráfarandi forseti geti þegið eftirlaun áratugum saman, sem gætu numið milljörðum séu frambjóðendur ungir, ásamt öðum eftirlaunum þó svo setið sé aðeins eitt kjörtímabil.

Höfundur er fjárfestir.