Ómar G. Jónsson
Ómar G. Jónsson
Eftir Ómar G. Jónsson: "Ég treysti borgaryfirvöldum til að koma þarna myndarlega að verki."

Fyrir nokkrum árum leyfði ég mér að benda á hversu nauðsynlegt það væri að koma upp fjölbreyttu afþreyingarsvæði fyrir börn í borginni og benti á í því sambandi hversu heppilegt Nauthólsvíkursvæðið væri til þess.

Í Nauthólsvík er að vísu viss aðstaða fyrir börn og unglinga, en þar mætti koma upp mun fjölbreyttara fjölskyldusvæði til leikja og útiveru sem næði að Öskjuhlíð.

Jafnframt benti ég á að Húsdýragarðurinn þyrfti nauðsynlega á enduruppbyggingu að halda þar sem margt á svæðinu væri orðið hálflaskað, leiktæki sem annað.

Úr þessu var bætt nokkru síðar, en sl. sumar sýnist mér ástandið hafa dalað á ný. Sem fyrr er aðstaða fyrir dýrin til fyrirmyndar í garðinum og viðmót starfsfólks mjög gott. Mikilvægt er að börn geti kynnst dýrum og umhverfi þeirra þar sem borgarbörn komast lítið í sveit núorðið.

Fyrri hluta sl. sumars fór ég í nokkur skipti með átta ára sonardóttur mína í garðinn eins og svo oft áður. Fiskasafnið var lokað, var reyndar orðið til vansa sem og tæki sem þar voru.

Ég efast ekki um að sjávarútvegsfyrirtæki væru tilbúin að styrkja þarna uppbyggingu á fiskasafni og fleiru.

Sum tækin í garðinum voru ekki í umferð, t.d. vatnabátar og fleira, og önnur tæki inni á milli að sjá heldur þreytt, a.m.k. í útliti. Útigrillin hefðu mátt vera betur þrifin og tjarnirnar hreinni.

Mér heyrðist að bætt hefði verið úr þessum þáttum nokkru síðar að hluta og vonandi verður ástandið varðandi þessa þætti gott í sumar og áfram.

Ég held að það hljóti að vera metnaðarmál hjá borginni hverju sinni, þ.e. eins og til var stofnað í upphafi, að hafa þarna glæsilegt útivistar- og afþreyingarsvæði með fjölbreyttu tækjavali fyrir börn.

Segja má að þetta sé eina útivistarsvæðið með afþreyingu fyrir börn í borginni, þ.e. fyrir utan sund- og íþróttasvæði.

Hópur fólks sækir garðinn heim með börn og unglinga, jafnt innlendir sem erlendir aðilar.

Það er nokkuð dýrt fyrir barnafjölskyldur að fara í garðinn, t.d. mega ekki aðrir en foreldrar fylgja barni inn á svæðið með fjölskyldukort/árskort, ekki ömmur og afar sem gjarnan fylgja börnum í garðinn meðan foreldrarnir vinna.

Það er talað um, a.m.k. í hátíðarræðum, hversu nauðsynlegt það sé að börn og foreldrar/fjölskyldur haldi hópinn til leikja og samverustunda.

Þarna er upplagður staður til þess með bættum tækjakosti o.fl.

Ég treysti borgaryfirvöldum til að koma þarna myndarlega að verki þannig að garðurinn verði áhugaverður fyrir börn sem fyrr.

Sem fyrr hafa margir áhuga á að komið verði upp víðtæku barna- og unglingasvæði við Nauthólsvík, alla vega yfir sumartímann þegar vantar afþreyingarsvæði til leikja.

Svæðið er kjörið til þess þar sem það er mjög aðgengilegt með frábærum göngu- og hjólastígum og bílastæðum.

Þar mætti jafnframt koma upp flugvéla- og tæknisafni sem ungir sem eldri hefðu gaman af að skoða.

Þess skal getið í lokin að margir leikvellir hafa verið aflagðir í borginni á undanförnum árum, þvert á það sem sumir borgarfulltrúar töluðu um í kosningabaráttunni 2006.

Töluðu um að gera leiksvæði barna í borginni til jafns við þau bestu í Evrópu. Mér sýnist að eitthvað hafi gleymst í þeim áformum.

Höfundur er fulltr./adst. og talsmaður sjálfstæða framfarahópsins fyrir betri borg.