Björn Már Ólafsson
bmo@mbl.is
Meta verður pólitíska áhættuþáttinn vegna hugsanlegs sæstrengs á milli Íslands og Bretlands og leita leiða til að takmarka áhættuna. Þetta kemur fram í lokaverkefni Andra Dans Traustasonar, viðskiptafræðinema við Háskólann á Akureyri, sem hann vann undir leiðsögn Hilmars Þórs Hilmarssonar prófessors. Verkefnið er unnið úr tveimur vísindagreinum sem þeir unnu saman og hafa verið birtar í fræðiritum.
Stefnubreytingar verða að deilumálum
Í verkefninu er fjallað um það hvernig stefnubreytingar stjórnvalda geta haft áhrif á orkumarkað og verð. Verkefni á borð við sæstreng er hefur langan líftíma. Bæði tekur lagningin langan tíma og er strengnum ætlaður langur endurgreiðslutími. Þegar pólitíska áhættan er metin verður því að líta marga áratugi fram í tímann. Í verkefni sínu fjallar Andri meðal annars um tvö tilvik þar sem innlend stefnubreyting stjórnvalda varð til þess að upp spruttu deilur sem leysa þurfti úr á vettvangi alþjóðlegs gerðardóms.Sem dæmi nefnir Andri stefnubreytingu þýskra stjórnvalda í kjölfar slyssins í Fukushima-kjarnorkuverinu í Japan árið 2011. Ákváðu stjórnvöld þá að fasa út kjarnorku og loka kjarnorkuverum. Sænska fyrirtækið Vattenfall höfðaði þá mál fyrir gerðardómi vegna tapsins sem fyrirtækið varð fyrir. Svipað átti sér stað á Spáni á níunda áratugnum. Spænska ríkið hóf þá að niðurgreiða endurnýtanlegan orkuiðnað. Seinna þegar orkuverðið fór að hækka var ákveðið að hætta niðurgreiðslum og var iðnaðurinn skattlagður. Höfðuðu þá orkuframleiðendur mál fyrir alþjóðlegum gerðardómi. Segir í ritgerðinni að þótt þessi tilvik séu að einhverju leyti ólík lagningu orkustrengs, eigi svipuð sjónarmið varðandi pólitíska áhættu við í báðum tilvikum.
Engin töfralausn til
Í ritgerðinni eru stjórnmálaleg samskipti Íslands og Bretlands rakin. Er síðan farið yfir þær aðferðir sem hægt sé að nota til þess að takmarka pólitíska áhættu við lagningu sæstrengs þótt engin töfralausn sé til í þeim efnum.„Eignarhaldið skiptir máli upp á það hvernig hægt er að leysa úr deilum sem kunna að koma upp, og til að skýra réttarstöðu aðilanna,“ segir Andri.
„Svo skiptir tekjutrygging gríðarlegu máli. Langtímasamningar um orkukaup yrðu helst að vera tryggðir af bresku ríkisstjórninni. Ríkisstjórnin hefur verið að bjóða upp á slíkar tryggingar, reyndar ekki til aðila utan landsteinanna, en samt til aðila í erlendri eigu. Annar aðilinn í þessu verkefni er svo dvergvaxinn miðað við hinn. Það getur því verið erfitt að miðla pólitískri áhættu almennilega. Ísland hefur alltaf verið minni aðilinn í milliríkjadeilum, þótt það hafi gengið frekar vel hingað til.“