Miðvikudaginn 1. júní hélt Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands fund í tilefni þess, að fjörutíu ár voru liðin frá því að Bretar viðurkenndu útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 mílur. Þetta var merkur áfangi.

Miðvikudaginn 1. júní hélt Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands fund í tilefni þess, að fjörutíu ár voru liðin frá því að Bretar viðurkenndu útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 mílur. Þetta var merkur áfangi. Íslendingar sýndu frumkvæði og djörfung með því að færa út fiskveiðilögsöguna fjórum sinnum, eftir að samningur Breta og Dana um landhelgismál frá 1901 rann út 1951. Á Íslandsmiðum var hart tekist á og varðskipsmenn oft hætt komnir. Auðvitað var það Íslendingum síðan ómetanlegt, að þeir áttu bakhjarl í Bandaríkjamönnum og Norðmönnum, sem lögðu vegna varnarhagsmuna sinna fast að Bretum að semja. En hefðu úrtölumenn ráðið ferð, þá hefði fiskveiðilögsagan ekki verið færð út, fyrr en reglan um 200 mílur hefði verið komin í alþjóðalög.

Í ár ætti Sagnfræðistofnun líka að minnast annars júnídags. Hefði Svavarssamningurinn svokallaði verið samþykktur, þá hefði 5. júní 2016 fallið í gjalddaga fyrsta afborgun á vöxtum af „láninu“, sem Bretar og Hollendingar veittu sjálfum sér eftir bankahrunið til að greiða eigendum Icesave-reikninga Landsbankans erlendis út innstæður þeirra. Þessi vaxtakostnaður hefði einn sér numið 208 milljörðum króna. Icesave-deilan snerist um, hvort ríkisábyrgð væri á skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, eins og Bretar og Hollendingar héldu fram. Hvergi var til neinn lagabókstafur fyrir ríkisábyrgð, enda vildu Bretar og Hollendingar ekki fara með deiluna fyrir dómstóla, heldur knýja Íslendinga til að viðurkenna greiðsluskyldu.

Hefðu úrtölumennirnir, sem vildu samþykkja afarkosti Breta og Hollendinga í Icesave-málinu, ráðið þar ferð og líka í landhelgismálinu forðum, þá hefði ekki verið neinu að fagna, hvorki hinn 1. eða 5. þessa mánaðar. Þá hefðu Bretar þurrausið Íslandsmið, áður en 200 mílna fiskveiðilögsaga hlaut alþjóðlega viðurkenningu, og þá hefðum við verið að reiða af hendi fyrstu afborgun af þeim 208 milljörðum, sem við hefðum samþykkt að greiða Bretum og Hollendingum í vexti. Sem betur fer stöðvaði þáverandi forseti þá gerninga.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is