Þann 5. júní nk. öðlast gildi alþjóðasamningur um hafnarríkisaðgerðir til að fyrirbyggja, hindra og uppræta ólöglegar, ótilkynntar og eftirlitslausar veiðar, hér eftir nefndar „ólögmætar veiðar“ (e. Illegal, Unreported and Unregulated (IUU) fishing). Þessu markmiði verður náð með því að innleiða virkar aðgerðir af hálfu hafnarríkja og tryggja þannig verndun og sjálfbæra nýtingu lifandi sjávarauðlinda og sjávarvistkerfa til langs tíma. Samningurinn, sem var undirritaður árið 2009, er niðurstaða flókinna viðræðna á vettvangi Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO). Með gildistöku samningsins verður skipum sem stunda ólögmætar veiðar gert erfitt um vik að halda áfram slíkri háttsemi.
Ólögmætar veiðar eru um þessar mundir ein helsta ógn við sjálfbæran sjávarútveg í heiminum. Samkvæmt nýlegri skýrslu er áætlað að allt að 26 milljón tonn séu veidd árlega á þennan hátt, en það nemur um fimmtungi heildarsjávarafla heimsins. Áætlað er að verðmæti aflans geti numið allt að 23 milljörðum Bandaríkjadala, eða tæplega 3.000 milljörðum íslenskra króna.
Við gildistökuna mun samningurinn, sem er sá fyrsti sinnar tegundar sem fjallar sérstaklega um aðgerðir gegn ólögmætum veiðum, verða alþjóðalög og þ.a.l. bindandi fyrir aðildarríki hans. Samningurinn hefur þegar verið fullgiltur af 29 ríkjum auk Evrópusambandsins, sem hefur fullgilt hann fyrir hönd 28 aðildarríkja þess.*) Ísland fullgilti samninginn á síðasta ári.
Viðskipti með sjávarafurðir yfir landamæri eru mjög umfangsmikil og reyndar meiri en sem nemur öllum milliríkjaviðskiptum með kaffi, sykur, te, tóbak og hrísgrjón samanlagt. Fiskveiðar og viðskipti með sjávarafurðir eru mikilvægar til að skapa atvinnu og tekjur auk gjaldeyrisöflunar fyrir mörg lönd, ekki síst þróunarlönd. Helstu markaðssvæði sjávarútvegsafurða í heiminum eru Evrópusambandið, Japan, Bandaríkin og Kína. Á heimsvísu eru rúmlega 60% af magni allra sjávarafurða í heiminum flutt inn til þeirra 57 ríkja sem hafa þegar gerst aðilar að samningnum um hafnarríkisaðgerðir. Jafnframt kemur tæpur helmingur alls útflutnings slíkra afurða frá aðildarríkjum samningsins. Með því að koma í veg fyrir að illa fengnum afla sé landað er stuðlað að því að hann fari ekki á markað, hvort sem er í hafnarríkinu eða á alþjóðlega markaði, þar sem hann keppir við sjávarafurðir veiddar með lögmætum hætti.
Samningurinn kveður á um að aðilar hans tilgreini þær hafnir sem erlendum skipum er heimilt að biðja um aðgang að og afhendi FAO skrár yfir þær til birtingar með viðeigandi hætti. Jafnframt ber samningsaðilum, eftir því sem frekast er unnt, að tryggja að hver tilgreind höfn sé til þess búin að sinna eftirliti samkvæmt samningnum. Erlend skip sem óska eftir aðgangi að höfn þurfa, með tilteknum fyrirvara, að veita yfirvöldum hafnarríkisins upplýsingar um aflann um borð og heimila skoðun á veiðidagbókum, veiðiheimildum, veiðarfærum og afla, auk annarra atriða.
Ef hafnarríkin telja sýnt að afli hafi verið veiddur með ólögmætum hætti geta þau einnig synjað skipum um aðgang að höfnum sínum til löndunar, umskipunar, pökkunar, fiskvinnslu og til annarrar hafnarþjónustu, eldsneytistöku og birgðaendurnýjunar, viðhalds og aðgangs að þurrkví. Hafnarríkjum er einnig heimilt að beita slíkum aðgerðum gagnvart skipum skráðum hjá ríkjum sem eru ekki aðilar að samningnum um hafnarríkisaðgerðir.
Til að auðvelda framkvæmd samningsins um hafnarríkisaðgerðir er kveðið á um að aðilar hans skiptist á upplýsingum varðandi skip sem hafa stundað ólögmætar veiðar. Í þessu sambandi mun alþjóðaskipaskrá (e. Global Record of Fishing Vessels, Refrigerated Transport Vessels and Supply Vessels), sem er í þróun á vegum FAO, gegna lykilhlutverki við framkvæmd samn-ingsins. Þessi skrá tekur til fiskiskipa sem og annarra skipa sem stunda svokallaða fiskveiðitengda starfsemi, t.d. umskipun og útvegun eldsneytis og annarra aðfanga á hafi úti.
Gildistaka samningsins um hafnarríkisaðgerðir skiptir miklu máli fyrir lönd eins og Ísland, sem er í hópi ríkja þar sem útflutningur sjávarafurða gegnir lykilhlutverki varðandi öflun gjaldeyristekna fyrir þjóðarbúið.
Íslensk stjórnvöld hafa stutt myndarlega við þróun framangreindrar alþjóðaskipaskrár og hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið lagt fram fjármagn til verkefnisins auk þess sem Samgöngustofa hefur veitt FAO upplýsingar um skip á íslenskri skipaskrá.
*) Eftirfarandi ríki og ríkjasamband eru aðilar að samningnum um hafnarríkisaðgerðir: Ástralía, Bandaríkin, Barbados, Síle, Kostaríka, Dóminíka, Evrópusambandið, Gabon, Gínea-Bissá, Gvæjana, Ísland, Kúba, Máritíus, Mósambík, Mjanmar, Nýja-Sjáland, Noregur, Óman, Palá, Sankti Kitts og Nevis, Seychelles-eyjar, Sómalía, Suður-Afríka, Suður-Kórea, Srí Lanka, Súdan, Taíland, Tonga, Úrúgvæ og Vanúatú.
Höfundur er deildarstjóri fiskveiða- og tæknideildar FAO.