Þúsundir manna komu saman til að kveðja Muhammad Ali á bænasamkomu sem haldin var að íslömskum sið í heimaborg hnefaleikakappans, Louisville í Kentucky-ríki, síðdegis í gær.
Ali varð þrisvar sinnum heimsmeistari í hnefaleikum og var einnig þekktur fyrir baráttu sína fyrir réttindum blökkumanna í Bandaríkjunum. Hann hét Cassius Clay en breytti nafni sínu í Muhammad Ali eftir að hann snerist til íslamstrúar árið 1964. Hann lést á föstudaginn var, 74 ára að aldri, eftir að hafa þjáðst af parkinsonsveiki, hægfara taugasjúkdómi, í áratugi.
Bænasamkoman í gær stóð í 30 mínútur og var haldin í íþróttahúsi þar sem síðasta hnefaleikaeinvígi Alis í heimaborginni fór fram.
Líkkistu hans verður síðan ekið um Louisville í dag. Meðal annars verður farið að æskuheimili hans í borginni og safni sem kennt er við hann og um Muhammad Ali-breiðstræti áður en hann verður borinn til grafar að viðstöddum ættingjum hans og vinum. Á meðal líkmannanna verða leikarinn Will Smith, sem lék Ali í kvikmynd, og Lennox Lewis, fyrrverandi heimsmeistari í hnefaleikum.
Ennfremur verður minningarathöfn um Ali á íþróttaleikvangi í Louisville síðdegis í dag. Bill Clinton, fyrrv. forseti Bandaríkjanna, og gamanleikarinn Billy Crystal, flytja þá ræður. Meðal viðstaddra verður Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, sem vottaði minningu Alis virðingu sína í gær, sagði að hann hefði ekki aðeins verið hnefaleikakappi, heldur einnig frelsishetja sem hefði barist „í þágu allra kúgaðra manna í heiminum“.