Draumamark Marco Van Basten, á því augnabliki er hann smellhittir langa sendingu frá Arnold Mühren og þrumar boltanum viðstöðulaust í hliðarnetið fjær, yfir hinn hávaxna markvörð Sovétmanna, Dasayev.
Draumamark Marco Van Basten, á því augnabliki er hann smellhittir langa sendingu frá Arnold Mühren og þrumar boltanum viðstöðulaust í hliðarnetið fjær, yfir hinn hávaxna markvörð Sovétmanna, Dasayev.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvert er fallegasta markið í sögu EM? Þetta er í sjálfu sér matsatriði og byggist ekki á harðri tölfræði eins og hinir molarnir hér á síðunni.

Hvert er fallegasta markið í sögu EM?

Þetta er í sjálfu sér matsatriði og byggist ekki á harðri tölfræði eins og hinir molarnir hér á síðunni. Hitt er annað mál að fæstir munu mæla því mót að markið sem hollenski framherjinn Marco Van Basten skoraði á móti Sovétmönnum í úrslitaleiknum á EM 1988 sé það allra fallegasta. Markið, sem flestir fótboltaáhugamenn hafa séð endursýnt ótal sinnum, kæmist á hvaða topplista yfir falleg mörk sem vera skal, en einnig er vert að hafa í huga að markið er skorað í úrslitaleik EM og í markinu stendur enginn annar en Rinat Dasayev, landsliðsmarkvörður Sovétríkjanna og markvörður ársins 1988 í árlegu vali IFFHS, nokkuð sem gerir afrekið enn tilkomumeira.

Óþarfi er að reyna að lýsa þessu draumamarki Van Basten frekar hér og réttara að benda bara á Youtube. Þar er það í allri sinni snilld.

Hvaða þjóð hefur oftast unnið Evrópumótið?

Tvær þjóðir, Þýskaland og Spánn, deila þessum heiðri og hafa þær unnið Evrópukeppnina þrisvar.

Þýskaland vann árin 1972 í Belgíu, 1980 á Ítalíu og svo 1996 í Englandi.

Spánn vann keppnina árin 1964 á heimavelli, 2008 þegar keppnin var haldin í Sviss og Austurríki og varði svo titilinn 2012 er keppnin fór fram í Póllandi og Úkraínu.

Frakkland, gestgjafaþjóðin í ár, hefur unnið keppnina tvisvar, árið 1984 er keppnin var einmitt haldin í Frakklandi og svo árið 2000 í Belgíu og Hollandi.

Hver hefur leikið flesta leiki á EM?

Enginn hefur leikið fleiri leiki en franska varnarstálið Lilian Thuram og hinn sígræni markvörður Hollands, Edwin van der Sar. Hvor um sig lék 16 leiki fyrir þjóð sína á EM.

Thuram lék fyrir Frakkland á EM árin 2000, 2004 og 2008 og er enn í dag með flesta landsleiki allra franskra leikmanna, 142 talsins.

Van der Sar lék á fjórum EM mótum, 1996, 2000, 2004 og 2008, og á að baki samtals 130 landsleiki.

Hver hefur skorað flest mörk á EM frá upphafi?

Enginn leikmaður hefur skorað meira í einni Evrópukeppni en Frakkinn Michel Platini. Hann skoraði hvorki fleiri né færri en 9 mörk – þar af tvær þrennur – á EM 1984 og átti þannig mestan þátt í að franska landsliðið varð Evrópumeistari á heimavelli. Með honum í liðinu voru goðsagnir á borð við Alain Giresse, Jean Tigana, Patrick Battiston, Luis Fernández og markvörðinn litríka, Joël Bats og liðið eitt hið eftirminnilegasta í sögu EM.

Næstur honum af markahrókum Evrópukeppninnar er Englendinginn Alan Shearer sem á að baki alls 7 mörk, þar af 5 á heimavelli er keppnin var haldin í Englandi 1996.