[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Paul Doyle The Guardian twitter.com/PaulDoyle Lykilbreytingar á þessu írska landsliði sem nú er á leið til Frakklands og því sem tapaði öllum þremur leikjum sínum á EM 2012 eru viðhorfstengdar.

Paul Doyle

The Guardian

twitter.com/PaulDoyle

Lykilbreytingar á þessu írska landsliði sem nú er á leið til Frakklands og því sem tapaði öllum þremur leikjum sínum á EM 2012 eru viðhorfstengdar. Giovanni Trapattoni hafði sennilega úr betri leikmönnum að velja fyrir fjórum árum, en hann var sannfærður um að Írar væru í besta falli lítilmagnar, sem hélt aftur af liðinu.

Martin O‘Neill hefur meiri trú á hæfileikum leikmannanna, en hann á það engu að síður einnig til að sýna of mikla varfærni, eins og í 1:0 tapinu gegn Skotlandi í undankeppninni þegar langar sendingar Írlands báru fyrirsjáanlega lítinn ávöxt.

Bakverðirnir gefa liðinu breidd

Lið O‘Neills hefur almennt verið spennandi, sérstaklega þegar Robbie Brady er látinn spila stöðu vinstri bakvarðar. Þrátt fyrir að þessi leikmaður Norwich City sé slakur varnarmaður gerir sókndirfska og góð spyrnumennska bakvörðinn jafn hættulegan og Séamus Coleman hægra megin. Breiddin sem þessir bakverðir bjóða upp á, gerir írska liðinu kleift að vera þéttara á miðjunni.

Hoolahan er lykilmaður

Sú ákvörðun Trapattonis að taka Coleman ekki með á síðasta Evrópumót var harðlega gagnrýnd, sem og að hann skyldi ekki nýta Wes Hoolahan, sem hefur verið mest skapandi leikmaður liðsins undir stjórn O‘Neills. Hoolahan á erfitt með að spila leiki á enda, enda orðinn 34 ára gamall, og það er ómögulegt að stilla liðinu upp í 4-4-2 leikkerfi með Hoolahan í liðinu. Þess vegna hallast O‘Neill frekar að 4-2-3-1 leikkerfi. Hoolahan tekur skemmtilega spretti og gefur óvenjulegar sendingar, sem gerir írska landsliðið óútreiknanlegra.

Shane Long verður einnig í lykilhlutverki. Hann er snöggur og sterkur í loftinu, sem gerir Írland hættulegra í skyndisóknum á móti liðum sem halda boltanum betur, en það gætu verið allir andstæðingarnir á EM 2016. Hreinn kraftur Jonathans Walters hægra megin er mikilvægur bæði sóknarlega og varnarlega, og liðið verður í klandri ef hann nær ekki fullri heilsu eftir hnémeiðsli sem hann varð fyrir í mars.

James McCarthy verður örugglega á miðjunni en það er ekki ljóst hver verður við hlið hans. Glenn Whelan frá Stoke City er líklegastur en hann er annar varafyrirliða liðsins á EM.

Miðverðirnir eru áhyggjuefni

Helsta áhyggjuefnið fyrir O‘Neill er miðverðirnir. Það er erfitt að spá því hverjir verði fyrir valinu og enn erfiðara að treysta þeim, sama hver verður fyrir valinu. John O‘Shea spilaði alla leiki undankeppninnar þar til hann var rekinn af velli í lokaleiknum við Pólland. Ciaran Clarke lék vel við hlið Richard Keogh í umspilsleikjunum á móti Bosníu-Hersegóvínu. En hvorugur þeirra getur státað af góðu formi í félagsliði sínu og því er ástæða til að hafa áhyggjur af tilhugsuninni um að þeir mæti framherjum eins og Zlatan Ibrahimovic, Romelu Lukaku eða Michy Batshuayi.

Líklegt byrjunarlið : Randolph – Coleman, O'Shea, Keogh, Brady – McCarthy, Whelan – Walters, Hoolahan, Hendrick – Long.