Fyrir um sex árum var sjónvarpsfjarstýringin lögð á hilluna. Hefði þá verið spurt hvort sjónvarpsþættir eða kvikmyndir væru vandaðri þá væri svarið augljóst: kvikmyndir. Ekki fylgir sögunni hvort áhugaleysi eða annir hafi verið að verki en fjarstýringin lá á hillunni í um fjögur ár. Það var ekki fyrr en maður var sífellt minntur á það hversu frábærir þættir Breaking bad væru, að sjónvarpsefni var gefinn annar séns. Eitthvað undarlegt hafði skeð. Þetta var ekki eins og þættirnir sem áður höfðu verið á dagskrá. Dexter-þættirnir höfðu að vísu náð ákveðinni dýpt en ekki svo mikilli að þeir gætu verið í sömu umræðu og bestu kvikmyndir þess tíma. Það vantaði margt upp á. En nú er allt annar bragur yfir sjónvarpsefni. Það sem áður var þægileg lending fyrir lúna leikara og stökkpallur fyrir nýliða, er orðið að starfsframatækifæri fyrir kvikmyndastjörnur. Við sjáum til dæmis Kevin Spacey og Matthew McConaughey spreyta sig á skjánum og er hvorugur þeirra í einhvers konar atvinnulægð. Gæði kvikmynda hafa ekki breyst, gæði sjónvarpsþátta hafa hins vegar stóraukist. Kannski fékk Hollywood skyndilega vitrun um að tveir klukkutímar væru ekki nægur tími til að segja sumar sögur.
Þorsteinn Friðrik Halldórsson