Örn Ragnar Motzfeldt bifvélavirki fæddist 28. október 1954. Hann lést 24. apríl 2016.
Útför Arnar fór fram 3. júní 2016.
Það er erfitt að finna réttu orðin til að kveðja náinn vin og bróður.
Örn kom til mín til Danmerkur árið 2004 fljótlega eftir að ég fluttist þangað. Við bjuggum saman með dóttur minni, Giovönnu, í Trige. Leiðir okkar skildi síðan.
Ég flutti aftur til Íslands árið 2007, en Örn varð eftir í Danmörku. Hann naut sín vel hér og átti marga vini. Ég kom aftur til Danmerkur árið 2010 og flutti þá aftur til Trige. Við hittumst af og til, en með tímanum urðu samskipti okkar meiri.
Hann leitaði oft til mín ef eitthvað bjátaði á. Þegar heilsa hans fór svo versnandi vegna lungnasjúkdóms sem hann greindist með úti þurfti hann á meiri aðstoð að halda.
Þessi veikindi fóru versnandi og árið 2014 fékk ég með hjálp góðra manna og kvenna hjá Árósakommúnunni, verndað húsnæði handa honum. Þar fékk hann alla þá hjálp sem hann þurfti. Ég var honum líka alltaf innanhandar.
Við vorum í daglegu sambandi. Hann lagði líka mikla áherslu á að vera í sambandi við börnin sín, Maríu, Ásdísi og Martin. Hann bar hag þeirra fyrir brjósti og elskaði þau meira en lífið sjálft.
Eftir mjög alvarleg veikindi í janúar og febrúar á þessu ári komu dætur hans til hans í heimsókn.
Það var yndislegt að sjá hversu tengd þau voru. Það var greinilegt að langur aðskilnaður við dæturnar hafði ekki haft mikil áhrif á þeirra samband.
Eftir þessa heimsókn var hann aftur kominn með lífsneistann og gleðina í hjartað sitt. María og Ásdís ákváðu að koma aftur í ágúst og vera með honum og hann hlakkaði mikið til þess. Hans orð voru: Thea, ég er svo glaður. Ég trúi þessu bara varla. Ég er búinn að fá þær aftur.
Ég veit að hann fór glaður og í friði frá þessum heimi. Það er mikil hjálp í sorginni, en tómarúmið situr enn í mínu hjarta.
Hann eignaðist líka góðan vin í eiginmanni mínum. Þeir áttu margar góðar stundir saman og var Frank Erni góður vinur. Með þessum fáu orðum og ljóði vil ég minnast míns elskulega bróður og besta vinar.
Æ, hvar er leiðið þitt lága,
ljúfasti bróðir?
Þar sem þú tárvota vanga
á vinblíða móður
mjúklega lagðir, er lífið
lagði þig, bróðir minn kæri,
sárustu þyrnunum sínum,
þótt saklaus þú værir og góður.
Æ, hvar er leiðið þitt lága?
Mig langar að mega
leggja á það liljukrans smáan,
því liljurnar eiga
sammerkt með sálinni þinni
og sýna það, vinur minn besti,
að ástin er öflug og lifir
þótt augun í dauðanum bresti.
(Jóhann Sigurjónsson)
Frá eiginmanni mínum, Frank Richard Hansen:
Örn var góður og kærleiksríkur maður, einnig var hann kær vinur.
Theódóra Ragnarsdóttir.